Sögur Bók Harðar Torfasonar fer yfir allan tilfinningaskalann.
Sögur Bók Harðar Torfasonar fer yfir allan tilfinningaskalann. — Ljósmynd/Eydís G. Guðmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is „Ég er að bregða upp mynd af lífi baráttumannsins,“ segir Hörður Torfason um nýútkomna söng- og ljóðabók sína, 75 sungnar sögur .

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

„Ég er að bregða upp mynd af lífi baráttumannsins,“ segir Hörður Torfason um nýútkomna söng- og ljóðabók sína, 75 sungnar sögur . Vísar titillinn til ársins 1975 þegar Hörður hóf að berjast fyrir mannréttindum samkynhneigðra.

„Þegar fólk les þessar sögur, sér það inn í heim sem það hafði ekki hugsað út í. Ég heyri oft frá fólki að því líði mun betur eftir að hafa lesið bókina og það er tilgangurinn - að fá fólk til að hlæja, hugsa og skoða, sýna fólki inn í þennan hugarheim,“ segir hann.

Eftir að viðtal birtist við Hörð í tímaritinu Samúel árið 1975, sem fjallaði um samkynhneigð hans, snerist stór hluti samfélagsins gegn honum. Hófst þannig mannréttindabarátta hans og þá einkum fyrir réttindum samkynhneigðra sem fór að stórum hluta af stað með stofnun Samtakanna 78. „Að koma því saman var ekki eins og að borða kornflex í morgunmat. Það þurfti reynslu leikhúsmannsins,“ segir hann. Hinsegingangan hafi farið fram síðustu 25 ár en barátta Harðar hófst fyrir 45 árum.

„Þetta var erfitt á fyrstu árunum,“ segir Hörður, þar sem baráttan hafði umtalsverð áhrif á söng- og leiklistarferil hans, ekki síður en á sálarlífið. „En þar sem ég hóf baráttuna sá ég þá skyldu mína að taka um hana föstum tökum og hætti ekki fyrr en ég stofnaði Samtökin '78.“

Var þá baráttan komin á skrið en hún þarf að ganga á í mörg ár, til þess að mannréttindi minnihlutahópa verði tryggð: „Ef menn líta út í heim, til dæmis til Póllands, þá er staðan ekki jafngóð. Það er ráðist á hinsegin fólk í mörgum löndum. Og það er vegna þess að þar hefur ekki verið unnin sú baráttuvinna sem var unnin hér á landi. Baráttan hér á landi er 45 ára gömul,“ segir Hörður. Og stendur yfir enn.

Þögnin er stærsti áhrifavaldurinn

Þrátt fyrir að flestir kunni að þekkja Hörð sem tónlistarmann eða trúbador á hann sterkar rætur að rekja til leikhússins, verandi fyrrum leikstjóri til nokkurra ára. Sannast það í ljóðum og tónleikum Harðar:

„Ég er leikhúsmaður, það skín í gegn. Kjarninn að því að segja sögu er í leikhúsinu og það eru ekki margir sem átta sig á því að stærsti áhrifavaldurinn í leikhúsinu er þögnin,“ segir hann. Lykillinn sé að spegla sjálfan sig í öðrum og leyfa öðrum að spegla sig í sjálfum sér.

„Það er ekki barátta með hávaða, öskrum og ásökunum heldur speglun. Textarnir eru innsýn í eins manns leikhús,“ segir hann.

Árið 1976 hóf Hörður að halda hausttónleika og vortónleika, sem oft voru kallaðir kertaljóstónleikar. Lauk Hörður hverju starfsári sínu með þessu upphafi og niðurlagi. „Þannig er baráttan og þannig fer hún fram. Hún er meðal okkar allra, við erum í stanslausri baráttu,“ segir hann.

Að vera bestur í öllu

Ljóðin spanna þó allan tilfinningaskalann og fjalla um fleira en einungis mannréttindabaráttu. Ljóðið Sá besti fjallar um þörf mannsins fyrir að vera bestur í öllu. Nútímatæknin og áhrifavaldar, sem keppast um að eiga besta lífið, gerir hana kannski sýnilegri en nokkru sinni.

„Það eru svo margir uppteknir af því að kaupa sér hamingju og eignast peninga og svo framvegis. Mér finnst það alltaf dálítið einkennilegt viðhorf vegna þess að það hefur verið margbent á það að þú getur reynt að græða meira. En þannig verður þú aldrei hamingjusamur,“ segir Hörður og heldur áfram: „Það gefst kannski mest tækifæri til þess í dag í nútímatækninni - það eru þessar vinsældaveiðar. Allt snýst um að vera vinsæll, fullkominn og ríkur, en það stangast á við að vera manneskja,“ segir hann.

Í 75 sungnum sögum hefur Hörður skapað hina ýmsu karaktera - karlinn í karlrembunni og konan í kvenrembunni eru hjón og sonur þeirra heitir Sveinn. „Þetta er ævintýraheimur sem ég skóp og gerist á eyjunni Æ, þar sem menn hafa allt á hornum sér,“ segir hann.

Er skáldsaga í smíðum?

„Nei, þetta er svona þráður sem ég hef verið að gera í gegnum árin. Ég er að gera grín að því að við getum gleymt okkur í kvörtunarheiminum. Sjálfsupphafningin, hatrið, mannfyrirlitningin - mér finnst hún fyndin. Það er það sem ég er að reyna að benda á. Hún er meinfyndin ef þú ert að reyna að upphefja þig á kostnað annarra.

Maður verður að geta hlegið að sjálfum sér.

„Ef maður getur það ekki, þá er eitthvað að,“ segir Hörður kíminn.

Hann tekur dæmi. Í ljóðinu Laufey kemur fram karakter sem er tilbúinn að gera hvað sem er fyrir stundargleðina.

„Það er siðleysi sem ég tek fyrir þar,“ segir hann. Ljóðið Kerlingin fjallar síðan um heimilisofbeldi en snýst um að nálgast alvarleikann með fyndni:

„Það er það sem ég geri við paródíuna, að nálgast alvarleikann með fyndni, en sökkva ekki of djúpt í það,“ segir hann.

Rigningin í Reykjavík

það rigndi hérna í reykjavík

rólega og mig vakti

ilmurinn og angan

unaði mig þakti

þitt nafn hver dropi nefndi

í notalegum takti

ég hlustaði með hjartans glóð

á hörund mitt féll ástarljóð

það rignir oft í reykjavík

og ruglar svefnsins miðju

hjarta mitt hamast

sem hamar í smiðju

staddur í auga eldsins

akkúrat í miðju

ég hlustaði með hjartans glóð

á heimsins tæra ástarljóð

ég hlusta svo hægt

að það hlýtur að sjást

að í rigningunni í reykjavík

er ég rennblautur af ást

rigningin í reykjavík

rennur niður kinnar

þar týnast öll mín tár

treginn leynist innar

fjarskinn er faðmlag

fegurðarinnar

ég hlustaði með hjartans glóð

á heimin flytja ástarljóð

í rigningunni í reykjavík

er rosalega gaman

ég er örugglega alveg eins

og álfur í framan

ég veit að í alls kyns veðrum

verðum við hér saman

hlæjandi með hjartans glóð

við hrópum okkar ástarljóð