Olgeir Möller fæddist 15. júlí 1928. Hann lést 26. júlí 2020.

Útför Olgeirs fór fram 6. ágúst 2020.

Við kveðjum elsku Olgeir afa sem við kölluðum afa Olla og rifjum upp bjartar minningar um hann. Elsku afi Olli var ljúfur, góður og umhyggjusamur og hafði hann mikinn áhuga á að tala við og hlusta á fólk. Hann spurði iðulega okkur systkinin: „Hvernig gengur í skólanum, hvernig gengur í vinnunni, hvernig gengur með nýja bílinn?“ Eða: „Hvernig líður þér?“ Það lýsir vel umhyggjusemi hans í garð okkar. Þegar við spurðum afa hvernig hann hefði það bar hann sig alltaf vel.

Afi Olli var fljótur að taka eftir því ef maður var nýklipptur eða í fínum fötum, hann hrósaði manni fyrir það.

Þegar við vorum lítil fóru afi og amma oft með okkur í sund og á sundnámskeið. Eftir sundið var farið í næstu sjoppu og keypt kók í gleri og lakkrísrör, það fannst okkur gaman.

Okkur er minnisstætt að afi skar oft niður epli eða greip handa okkur og var greip hans uppáhaldsávöxtur, sem okkur fannst beiskur á bragðið. Þess vegna leyfði hann okkur að dýfa greipinu í hvítan sykur og borða.

Afi Olli hafði gaman af tónlist og þegar hann kom í heimsókn til okkar fannst honum notalegt að fá píanóspil frá Fanneyju Andreu og helst vildi hann heyra lögin oftar en einu sinni.

Okkur þykir vænt um allar þær góðu og dýrmætu minningar sem við eigum af samverustundum með afa Olla.

Hvíldu í friði elsku afi.

Þín barnabörn,

Sigríður Vala Helgadóttir Möller, Fanney Andrea Helgadóttir Möller og Jón Baldvin Helgason Möller.