Skeljungur hagnaðist um 274 milljónir króna á fyrri helmingi ársins. Dróst hagnaðurinn saman um 61% frá sama tímabili í fyrra þegar hann nam 706 milljónum. Framlegð af vörusölu jókst milli ára og nam 4.615 milljónum, samanborið við 4.

Skeljungur hagnaðist um 274 milljónir króna á fyrri helmingi ársins. Dróst hagnaðurinn saman um 61% frá sama tímabili í fyrra þegar hann nam 706 milljónum. Framlegð af vörusölu jókst milli ára og nam 4.615 milljónum, samanborið við 4.226 milljónir á fyrri árshelmingi 2019. Hins vegar jukust laun og launatengd gjöld verulega og námu rúmum 2 milljörðum, samanborið við rúma 1,3 milljarða á fyrra ári. Sölu- og dreifingarkostnaður jókst um 137 milljónir og stóð í 1.162 milljónum. Annar rekstrarkostnaður jókst minna og nam 306 milljónum.

Eignir Skeljungs stóðu í 26,8 milljörðum í lok júní og höfðu þá aukist um 2,3 milljarða frá áramótum. Skuldir höfðu að sama skapi aukist og námu 17,2 milljörðum, samanborið við 14,6 milljarða skuldir um áramót. Eigið fé félagsins var því 9,6 milljarðar í lok annars ársfjórðungs, samanborið við 9,8 milljarða um áramót.

Lægri spá

Félagið sendi frá sér nýja afkomuspá í tengslum við hálfsársuppgjörið. Telja stjórnendur þess nú að EBITDA ársins verði á bilinu 2.800 til 3.200 milljónir en fyrri spá gerði ráð fyrir að hún yrði á bilinu 3.000 til 3.400 milljónir króna. Í afkomuspánni er gert ráð fyrir stöðugu gengi gjaldmiðla og stöðugu olíuverði og að tekjur af erlendum ferðamönnum verði óverulegar. Árni Pétur Jónsson, forstjóri fyrirtækisins, segir fyrri helming ársins hafa reynst því og starfsfólki krefjandi. Segir hann að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hafi verið gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða til að bæta afkomu og efnahag félagsins.