Hljómsveitarstjóri „Ég hef gaman af því sem ég er að gera og hef nóg að gera,“ segir Guðni Emilsson sem á langan og fjölbreyttan feril að baki á alþjóðlegum vettvangi. Hann gaf nýverið út plötu með verkum Mozart og Kozeluch.
Hljómsveitarstjóri „Ég hef gaman af því sem ég er að gera og hef nóg að gera,“ segir Guðni Emilsson sem á langan og fjölbreyttan feril að baki á alþjóðlegum vettvangi. Hann gaf nýverið út plötu með verkum Mozart og Kozeluch. — Ljósmynd/Bob Stewart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Hljómsveitarstjórinn Guðni A.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Hljómsveitarstjórinn Guðni A. Emilsson, sem hefur starfað á alþjóðlegum vettvangi í áratugi, gaf nýverið út plötu ásamt píanóleikurunum Marco Schiavo og Sergio Marchegiani og hinni þekktu, ensku fílharmóníusveit Royal Philharmonic Orchestra. Alþjóðlega útgáfufyrirtækið Decca stendur fyrir útgáfunni. „Þetta er eitt frægasta píanódúóið á Ítalíu. Ég hef unnið með þeim í mörg ár og þetta eru orðnir góðir kunningjar,“ segir Guðni. „Þeir hafa verið að vinna fyrir Decca og hringdu í mig í júlí á síðasta ári og spurðu hvort ég vildi koma með þeim til Lundúna. Þeir væru að fara að taka upp með Royal Philharmonic Orchestra.“

Guðni segir það hafa verið skemmtilega ferð. „Það varð úr að við fórum til London og það var góð stemning. Ég hitti þar gamla kunningja, þetta er svo lítill heimur.“

Mozart er alltaf Mozart

Á plötunni eru konsertar fyrir tvo píanóleikara, sem annars vegar leika tvíhent og hins vegar á tvö píanó, eftir Mozart og Kozeluch. „Kozeluch átti að verða eftirmaður Mozarts í Vín en afþakkaði það og Mozart vann mikið í Prag og Kozeluch kemur frá Bohemíu. Þannig að þetta passaði vel saman.“

Tónskáldin tvö voru samtímamenn en þegar Guðni er spurður að því hvort verk þeirra séu lík segir hann kíminn: „Kozeluch er auðvitað ekki það sama og Mozart, Mozart er alltaf Mozart.“

Fyrir þremur árum tók Guðni upp annan disk með Royal Philharmonic Orchestra sem er væntanlegur hjá útgáfurisanum Deutsche Grammophon. Guðna þykir líklegt að útgáfan hafi tafist vegna heimsfaraldursins. Á þeirri plötu verða verk eftir Rachmaninoff.

Guðni á langan feril að baki. Hann hefur stjórnað ótal merkum hljómsveitum, komið fram í mörgum helstu tónleikahúsum Evrópu og haldið í tónleikaferðir um allan heim. Hann hefur einnig hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Kazakh-listaháskólann í Kasakstan árið 2018.

Stjórnaði í Taílandi í 10 ár

Guðni tók við stöðu aðalstjórnanda nýrrar hljómsveitar í Taílandi, Thailand Philharmonic Orchestra, árið 2005. „Það var alveg ný hljómsveit. Við byrjuðum með um 30 hljóðfæraleikara en þegar ég hætti var þetta komið upp í 90 manns, alveg full hljómsveit.“ Hann var ráðinn af taílenska ríkinu í þetta verkefni og vann að því í tíu ár.

Guðni segir frá því að nýtt konserthús hafi verið reist undir hljómsveitina fyrir 100 milljónir evra. Húsið, sem ber nafnið Prince Mahidol Hall, er mikilfenglegt ásýndum og hefur að geyma stóran tónleikasal í nútímalegum stíl. „Ég átti mikinn þátt í því að þetta hús yrði byggt,“ segir stjórnandinn.

Þrátt fyrir að starfa hinum megin á hnettinum bjó Guðni allan tímann í Þýskalandi ásamt eiginkonu og dóttur. „Ég tók þá ákvörðun þegar þeir vildu að ég flytti til Bangkok með fjölskylduna að fljúga frekar. Ég flaug þangað 150 sinnum á tíu árum.“ Að tíu árum liðnum ákvað Guðni að framlengja ekki samninginn við taílensku hljómsveitina. Eins og von er tók tíu tíma ferðalag hvora leið, mörgum sinnum á ári, sinn toll. „Eftir tíu ár þar sagði ég: „Ég er Evrópubúi og ég held mig við Evrópu“.“

Rólegur og góður tími

Guðni býr í Suður-Þýskalandi við rætur Stuttgart en starfar víðs vegar í Evrópu. „Ég vinn mikið í Prag með óperuhljómsveitinni þar og útvarpshljómsveitinni.“ Hann starfar einnig með tveimur kammersveitum, einni í Prag og einni í Þýskalandi. „Svo er ég að þvælast í Póllandi, hér í Þýskalandi, í Prag og á Ítalíu töluvert líka. Ég vinn mikið sem gestastjórnandi.“

Guðni hefur, eins og kollegar hans í tónlistarheiminum, haft lítið að gera undanfarna mánuði. Tónleikahald lagðist að mestu niður á meðan faraldurinn stóð sem hæst. „Ég hef bara verið heima að lesa nóturnar og spila á píanóið og svona. Þetta er búið að vera rólegur og góður tími,“ segir hann en viðurkennir að hann sé ekki sú týpa sem eigi auðvelt með að vera heima við til lengdar.

Sem betur fer er aðeins farið að rétta úr kútnum og tónleikahald farið af stað í sumum Evrópulöndum. „Ég var að koma frá Ítalíu. Þeir eru með tónleika undir berum himni, veðrið leyfir það og þeir biðja bara um einn metra á milli fólks.“ Síðan heldur leiðin til Prag og því næst aftur til Ítalíu undir lok mánaðarins.

Tónleikahald að lifna við

„Ég hef gaman af því sem ég er að gera og hef nóg að gera,“ segir Guðni en bætir við að hann vonist til að þessu faraldursástandi fari að ljúka. „Ég missti 20 tónleika á þessu tímabili. Ég átti meðal annars að fara til Frakklands og vera með sex tónleika í júlí. Það datt allt upp fyrir.“ Honum virðist þó tónleikalífið vera að fara af stað á ný hægt og rólega. „Ég á að fara til Austurríkis í september og ég var að tala við þá í gær og það verður úr því. Svo ég vona að að þetta hreyfist núna áfram svo ég geti farið að taka upp tónsprotann.“

Liðin eru þó nokkur ár frá því Guðni kom síðast fram hér á landi. Hann hefur tvisvar komið fram með Sinfóníuhljómsveitinni en það er dágóður tími liðinn síðan. „Kannski fer ég að taka upp pennann og skrifa þeim. Það gæti orðið að einhverju. Það er komið svo flott hús þarna heima.“