Svanfríður Gísladóttir fæddist á Arnarnesi í Dýrafirði 4. júlí 1923. Hún lést á hjartadeild Landspítalans sunnudaginn 5. júlí 2020. Foreldrar hennar voru Gísli Þórlaugur Gilsson, útvegsbóndi á Arnarnesi, f. 13. febrúar 1884, d. 29. mars 1962, og kona hans Sigrún Guðlaugsdóttir, húsfrú á Arnarnesi, f. á Þröm í Eyjafirði 4. febrúar 1881, d. 27. mars 1960.

Systkini Svanfríðar eru Elínborg, f. 15. ágúst 1914, d. 2006, gift Einari Þóri Steindórssyni, f. 9. október 1916, d. 19. apríl 1991; Guðrún, f. 6. febrúar 1916, d. 1. nóvember 2003; Friðdóra, f. 24. september 1917, d. 6. mars 2009; Höskuldur, f. 26. nóvember 1918, d. 1931; Þórlaug, f. 6. nóvember 1924, d. 5. maí 1925.

Svanfríður giftist 17. júní 1948 Páli Eiríkssyni, fyrrverandi yfirlögregluþjóni í Reykjavík, frá Löngumýri á Skeiðum í Árnessýslu, f. 16. júlí 1921, d. 29. júlí 2011.

Foreldrar hans voru Eiríkur Þorsteinsson, bóndi og organisti, f. 6. október 1886 á Reykjum á Skeiðum, d. 25. júlí 1979, og Ragnheiður Ágústsdóttir húsfreyja, f. 9. mars 1889 á Gelti í Grímsneshreppi, d. 26. febrúar 1967.

Börn Svanfríðar og Páls eru: 1) Sigrún, f. 21.9. 1948, maki Ingjaldur Eiðsson, f. 13.2. 1951. Börn a) Svanfríður, f. 16.6. 1975, maki Jakob Tryggvason, f. 20.6. 1972. Börn: Tryggvi Páll og Sigrún Inga. b) Páll Ingi, f. 14.8. 1984, maki Berglind Birgisdóttir, f. 11.10. 1984. Börn: Sandra Björk, Birgir Ingi og Sigrún. 2) Gísli, f. 19.5. 1952, d. 24.10. 2011 maki Kolbrún Gísladóttir, f. 9.6. 1952. Börn a) Arnþrúður Anna, f. 3.3. 1980, maki: Jónas Reynir Gunnarsson, f. 20.2. 1980. Börn: Aldís Anna, Gísli Galdur og Maríanna Hlíf. b) Hafþór, f. 24.12. 1974. 3) Eiríkur Örn, f. 28.10. 1959, maki Arnheiður Ingimundardóttir, f. 9.3. 1961. Börn a) Ingi Páll, f. 1.10. 1988. b) Arnheiður, f. 9.8. 1990, maki Lukás Barák, f. 12.2. 1992. c) Haukur Örn, f. 13.4. 1994.

Svanfríður nam píanóleik við Tónlistarskóla Reykjavíkur. Hún hafði mikla unun af tónlist alla tíð. Svanfríður vann lengst af við verslunarstörf. Útför Svanfríðar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Amma Fríða náði þeim áfanga að teljast elst kvenna í sinni ætt 97 ára að aldri. Hún fæddist á menningarheimilinu Arnarnesi við Dýrafjörð 4. júlí 1923. Hún var næstyngst 6 barna þeirra hjóna Gísla Gilssonar og Sigrúnar Guðlaugsdóttur. Amma ólst upp við mikla tónlist en faðir hennar var organisti og móðir hennar greip oft í hörpu sem til var á heimilinu. Amma og systur hennar komust fjórar til manns en bróðir þeirra lést á unglingsaldri og yngsta systirin nokkurra mánaða. Þær þóttu fagrar Arnarnessysturnar og buðu af sér mikinn þokka. Þær voru alltaf fallega klæddar, vel snyrtar og með eindæmum skoðanafastar. Amma sagði sjálf í seinni tíð að hún hafi nú örugglega verið erfitt barn með kenjar og svolítið frek á pabba sinn. Amma fór suður til Reykjavíkur í tónlistarnám en mikið var lagt upp úr menntun á Arnarnesheimilinu. Hún nam píanóleik við Tónlistarskóla Reykjavíkur. Með skólanum vann hún á gisti- og matsölustað við Amtmannsstíg 2 og þar kynntist hún mannsefni sínu Páli Eiríkssyni, fyrrum yfirlögregluþjóni.

Amma var með það sem við köllum í okkar fjölskyldu vestfirska þrjósku. Hún sagði hlutina umbúðalaust og án allrar ritskoðunar, hún var ákaflega nýtin og gat gert mikið úr litlu. Við nöfnurnar vorum sjaldnast sammála sem er í fínu lagi og ég lærði snemma að velja umræðuefnið hverju sinni svo vel færi. Amma hafði góðan frásagnarhæfileika þegar rifja átti upp gamla tíma og þá gat hún oft hlegið dátt. Hins vegar fannst henni stundum erfitt að tala um það liðna og oft mátti greina í orðum hennar að hún vildi að hún hefði gert sumt öðruvísi. Við tvær áttum okkar bestu stundir þegar við töluðum um skáldskap, ævisögur og gamla tíma enda voru þær ófáar bækurnar sem ég lánaði henni og svo ræddum við innihald þeirra að lestri loknum. Pólitík ræddi ég ekki við ömmu því þar vorum við ekki sammála. Hún hafði alla tíð miklar mætur á Ólafi Ragnari sem forseta Íslands enda vestfirskur eins og hún og allt sem þaðan kom var gott. Amma kvaddi södd lífdaga á hjartadeild Landspítalans á fallegum sunnudagsmorgni þar sem sólin skein og fuglarnir tístu fyrir utan gluggann. Aðhlynning starfsfólks hjartadeildarinnar var með eindæmum góð og þökkum við þá hlýju og nærgætni sem henni var sýnd. Elsku mamma og Eiríkur Örn, ég votta ykkur samúð mína.

Bless amma mín og takk fyrir allt og allt.

Þín

Svanfríður

Ingjaldsdóttir (Fríða).