Fyrrverandi blaðamaður á íþróttadeildinni nefndi við mig í mötuneytinu í vikunni að kómískt væri að sjá knattspyrnumenn í sjónvarpsútsendingum þessa dagana heilsast með olnbogunum í leikslok.
Fyrrverandi blaðamaður á íþróttadeildinni nefndi við mig í mötuneytinu í vikunni að kómískt væri að sjá knattspyrnumenn í sjónvarpsútsendingum þessa dagana heilsast með olnbogunum í leikslok.

Þegar leiknum er lokið þá virðast menn mjög meðvitaðir um sóttvarnir og þakka fyrir sig með þessum hætti. Íþróttablaðamaðurinn fyrrverandi benti mér hins vegar á að nokkrum mínútum áður eru þessir sömu menn haldandi hver utan um annan í vítateigunum þegar hornspyrnur eru framkvæmdar.

Ýmislegt kómískt má finna í framkvæmd leikja erlendis við þær aðstæður sem nú eru. Hlutverk plötusnúða er til að mynda áhugavert. Menn reyna að spila umhverfishljóð sem líkja eftir því ef leikvangurinn væri stútfullur af áhorfendum. Um daginn heyrði ég hina ímynduðu stuðningsmenn syngja baráttusöngva. Einnig hef ég heyrt stuðningsmenn sem ekki eru á staðnum baula vegna einhvers sem gerðist á vellinum. Líklega eru uppgrip fyrir plötusnúða víða í álfunni og kemur sér vafalaust vel því diskótek pökkuð af fólki eru líkleg til vinsælda á tímum kórónuveirunnar.

Víða hefur knattspyrnuhreyfingin sett þrýsting á yfirvöld í þeim tilgangi að geta spilað. Langflestir leikmenn hljóta að vera þakklátir, og ef til vill auðmjúkir, að geta sinnt starfinu í ljósi aðstæðna. En skemmd epli hjálpa hins vegar ekki málstaðnum. Leikmaður Glasgow Celtic skellti sér til Spánar án þess að láta nokkurn kjaft vita og mætti í næsta leik án þess að fara í sóttkví. Átta leikmenn Aberdeen fóru saman á pöbbinn. Ef skoska deildin yrði stöðvuð geta menn sjálfum sér um kennt.