Friðun Stór hluti landsins eru þjóðgarðar og friðlönd. Lendingar loftfara eru víða bannaðar eða leyfum háðar sem getur hamlað ferðaþjónustu.
Friðun Stór hluti landsins eru þjóðgarðar og friðlönd. Lendingar loftfara eru víða bannaðar eða leyfum háðar sem getur hamlað ferðaþjónustu.
Sighvatur Bjarnason sighvaturb@mbl.is Strangar reglur gilda um lendingar loftfara í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum hér á landi. Ýmist eru þær bannaðar eða háðar sérstöku leyfi hverju sinni.

Sighvatur Bjarnason

sighvaturb@mbl.is

Strangar reglur gilda um lendingar loftfara í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum hér á landi. Ýmist eru þær bannaðar eða háðar sérstöku leyfi hverju sinni. Þyrluþjónustur telja sig hornreka í kerfinu og hafa mætt erfiðleikum við að kynna sín sjónarmið.

Reynir Pétursson hjá þyrluþjónustunni Helo og Friðgeir Guðjónsson hjá Reykjavík Helicopters segja, að vegna flækjustigs við að afla leyfa, forðist þeir að mestu að bjóða upp á ferðir til ákveðinna svæða og þurfi jafnvel að hafna fyrirspurnum. Oft komi upp flug með stuttum fyrirvara sem getur reynst erfitt að sinna þegar umsóknarferli tekur 1-3 daga.

Stór svæði óaðgengileg

Á landinu eru gríðarstór svæði sem ekki má lenda á og Vatnajökulsþjóðgarður einn spannar 14% af flatarmáli landsins. Þar innan er að finna auglýstar opinberar flugbrautir og önnur þekkt lendingarsvæði. Friðgeir og Reynir eru sammála um að of langt sé gengið í þeim bönnum. Sjálfsögð krafa sé að nýta megi þá aðstöðu sem fyrir er, en að auki vilja þeir að stéttinni sé sýnt traust til að lenda á svæðum sem standast kröfur og hafi sem minnst umhverfisáhrif. Þeir nefna að rekstraraðilar hafi tekið höndum saman að eigin frumkvæði og breytt starfsháttum í flugi, t.d. við Þingvelli, Gullfoss og Geysi, og lítið sem ekkert hafi verið um árekstra. Einnig kalla þeir á aukið samráð og telja sig og aðra flughagsmunaaðila hafa verið að mestu sniðgengna við flestar ákvarðanir. Sem dæmi um óheppileg samskipti nefnir Friðgeir að einn af þeirra flugmönnum hafi nýlega verið kærður fyrir að lenda í Fljótavík á Ströndum, þó að þar sé fyrir umferð einkaflugvéla á merktu lendingarsvæði.

Misskilinn samgöngumáti

Þeir benda á að talsverðs misskilnings og jafnvel fordóma gæti um umferð þyrlna. Þyrlur geti lent nánast hvar sem er án þess að skilja eftir sig ummerki og líkurnar á því að þær valdi truflun séu nær engar á víðernum landsins. Oftast sé það markmið í sjálfu sér að upplifa algera einangrun á sem afskekktustum stöðum. Þeir nefna til dæmis að við Holuhraun sé auðvelt að lenda á söndunum þar sem enginn er á ferli.

Þeir segja að þyrluflug sé ekki eingöngu fyrir þá efnameiri. Það þjónar einnig þeim sem hafa skerta hreyfigetu og hafa ekki annan kost á að heimsækja ákveðna staði og talsvert sé um slíkt. Friðgeir bendir á að vissulega séu margir viðskiptavinir auðugir og geri kröfu um að ferðast á slíkan hátt. Ekki beri að líta það hornauga heldur frekar sem eitt af svörunum við því sígilda ákalli að fá hingað til lands verðmætari tegund ferðaþjónustu. Hann segir að einn slíkur ferðamaður eða fjölskylda geti skilið eftir sig „tugi milljóna“ á fáeinum dögum.

Skilningur þjóðgarðs

Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, segist vera meðvitaður um þetta álitamál. Þar komi til þær sérstöku kröfur sem gerðar eru til þjóðgarða og sú mikla umhverfisvernd sem þar er ástunduð ásamt þeirri stýringu sem nauðsynleg er til að ná þeim markmiðum. Þær geti skarast við aðra hagsmuni, s.s. þeirra sem vilja hafa starfsemi innan þjóðgarðsins.

Hann bendir á að með tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs hafi verkefnið margfaldast og margt sé enn ógert í því stóra verkefni sem reksturinn er. Aðspurður hvort of langt hafi verið gengið í takmörkun á lendingu loftfara, þ.m.t. þyrlna, segir hann að „það sé skilningur fyrir þessum sjónarmiðum sem þarf að ræða nánar“.