Einar Friðriksson fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1937. Hann lést á Landspítalanum 21. júlí 2020 eftir skamma legu.

Foreldrar voru þau Friðrik Ólafur Pálsson bifreiðastjóri í Reykjavík, f. 19.7. 1903, d. 14.2. 1990, og Petrína Regína Rist Einarsdóttir Möller, húsmóðir, f. 28.11. 1901, d. 19.9. 1954.

Systkini Einars voru Páll, f. 16.5. 1930, Kristján, f. 29.7. 1935, d. 11.9. 2010, Ólafur Þór, f. 11.9. 1940.

Samfeðra voru þau Bjarndís, f. 18.12. 1927, d. 4.5. 2009, og Jón, f. 13.11. 1948.

Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Grettisgötunni en flutti svo í Höfðaborgina. Þar ólst Einar upp frá fjögurra ára aldri og bjó þar fram yfir tvítugt.

Einar var ógiftur og barnlaus og bjó alltaf í Reykjavík. Hann starfaði sem húsasmiður alla sína tíð, lengst af hjá Páli bróður sínum. Síðustu ár bjó hann í Krummahólum 6 þar sem hann hélt heimili fyrir sig og Óla bróður sinn.

Útför hans fór fram þann 7. ágúst 2020.

Liðin er hátt í hálf öld frá fyrstu kynnum okkar Einars. Hann var eftirlætisfrændi kærustunnar minnar. Næstu ár varð ég vinnufélagi hans í sumarvinnu minni. Kynnin urðu þó ekki mikil fyrr en hann hóf störf í Vestmannaeyjum eftir gos. Þá varð það venja okkar að hann kom til okkar í mat á fimmtudagskvöldi aðra hverja viku þegar hann átti fríhelgi og svo tóku við spil fram eftir kvöldi.

Einsi var eftirtektarverður maður. Aldrei skipti hann skapi utan einu sinni í minni viðveru. Þá var upp á hann borið að hafa ekki kosið sinn flokk. En mér er sagt að hann hafi á stundum sagt hug sinn án hiks þegar við átti og ekkert dregið undan. Ekkert fór á milli mála þegar rætt var við Einsa um málefni líðandi stundar að hann fylgdist gjörla með. Þjóðmál voru líklegast aðalhugðarefni hans. Afstaða hans til þjóðmála endurspeglaðist í gjörðum hans. Hann gerði alls engar kröfur til þjóðfélagsins. Réttlætiskennd hans var ekki þeirrar gerðar að gera kröfur til annarra. Hann var öfundarlaus maður og gladdist yfir velgengni annarra.

Efnisleg velmegun átti ekki fyrir honum að liggja. Þar kom ekki síst til að hann var bóngóður langt úr hófi fram sem varð efni tilheyrandi útgjalda. Þegar slík greiðasemi lenti á Einsa af fullum þunga herti okkar maður beltið og vann skuldirnar af sér. Aldrei, aldrei nokkurn tíma hefði hann gert kröfu til þjóðfélagsins um að ríkið axlaði ábyrgð gerða hans. Að kvarta átti Einsi ólært. Og satt best að segja hef ég ekki fyrirhitt neyslugrennri mann nema ef vera skyldi við afmæli og skírnir. Slíkar samkomur voru fögnuðir Einsa.

Það kemur kannski ekki á óvart að hugsjónir Sjálfstæðisflokksins áttum við sameiginlegar þannig að aldrei bar á milli. Að stétt skyldi með stétt standa, að standa svikalausan vörð um auðlindir Íslands gegn ásælni Evrópusambandsins, rétt vinnandi fólks og að enginn fullfrískur maður hefði framfærslurétt af meðborgurum sínum. Einsi þurfti undir það síðasta að upplifa verri tíma að þessu leyti.

Það varð hlutskipti Einsa síðustu tíu æviárin að sjá um sjúkan bróður sinn. Víkja aldrei frá honum meir en dag. Hlutskipti aldraðra Íslendinga sem á skömmum tíma rifu landið upp úr fátækt er ekki vinsælt viðfangsefni þótt verðugt væri.

Einsi var grannvaxinn og hraustur alla ævi. Hann fór enda ferða sinna mest fótgangandi um allan bæ. Fyrir stuttu fékk hann heilablóðfall og lá skamma legu á spítala eftir það. Það voru hans fyrstu og síðustu kynni af heilbrigðiskerfinu. Þar hlaut hann góða umönnun til enda. Guð blessi minningu Einars Friðrikssonar.

Einar S.

Hálfdánarson.

Einar frændi minn var einstakt ljúfmenni. Hann var lítillátur, hæglátur, traustur, ljúfur, nægjusamur, fórnfús, skarpur, hraustur, þrjóskur, göngugarpur, pólitískur og síðast en ekki síst sjálfstæðismaður.

Einar var uppáhaldsfrændi minn. Það var alltaf tilhlökkun þegar von var á Einsa frænda til þess að passa okkur systkinin. Hann var einstaklega barngóður. Hann snerist í kringum okkur eins og skopparakringla og lét allt eftir okkur.

Ég held að ég hafi líka verið uppáhaldsfrænka hans. Dekrinu við mig voru a.m.k. engin takmörk sett. Honum fannst ekkert of gott fyrir mig. Ég minnist atviks þegar ég var 7 ára gömul. Þá bjó Einsi í kjallaranum hjá móðurömmu minni og afa í Samtúninu ásamt Óla bróður sínum. Ég var stödd í Paradís, í heimsókn hjá ömmu og afa og um leið hjá Einsa frænda. Þá er bankað upp á í kjallaranum. Úti standa tveir vinir Einsa frænda. Þeir höfðu ákveðið að fara á völlinn saman og voru komnir til að sækja Einsa. Ég faldi mig á bak við hurð. Ég gleymi aldrei svari Einsa: „Ég kemst bara ekki á leikinn núna, frænka mín er í heimsókn.“ Mér fannst þetta auðvitað eðlilegt svar, þá.

Ég gleymi heldur aldrei afmælisgjöfinni frá Einsa þegar ég varð 8 ára. Pierpont-gullúr! Er nokkuð viss um að ég var eina 8 ára manneskjan á jarðríki sem átti gullúr.

Mér fannst nauðsynlegt að vinkonur mínar fengju að kynnast frænda mínum svo þær fóru oft og tíðum með mér í heimsókn. Þá tókum við gjarnan í spil eftir að kíkt hafði verið í skúffuna góðu undir ofninum, en hún var ævinlega full af sælgæti sem við máttum ganga í að vild.

Fljótlega eftir að ég kynntist manninum mínum var hann kynntur fyrir uppáhaldsfrændanum. Eftir að við giftum okkur varð hann tíður gestur á heimili okkar og oftar en ekki var spilað á spil.

Ég er þakklát fyrir að ömmubörnin mín fengu aðeins að kynnast uppáhaldsfrænda mínum. Ég og örugglega dóttir mín líka munum segja þeim frá öðlingnum honum Einsa frænda okkar. Hann var ein allra fallegasta sál sem ég hef kynnst. Blessuð sé minning þessa allra ljúfasta drengs.

Regína Gréta Pálsdóttir

Einar Friðriksson er látinn 83 ára gamall. Það vekur ef til vill ekki athygli margra enda var Einar ekki þeirrar gerðar sem tekur sér stórt pláss í tilverunni. Hógværari mann er tæpast hægt að finna. Óhætt er þó að ætla að eftir honum hafi verið tekið í gegnum tíðina þar sem hann gekk langar vegalengdir um götur borgarinnar í heilsubótarskyni nánast hvern dag. Þetta gerði hann í áratugi og setti með því að sínu leyti svip á bæjarlífið án þess að hafa hugmynd um það sjálfur.

Einar var einn fjögurra bræðra sem ólust upp saman og voru honum nánir. Hann var þó bundinn yngsta bróður sínum Ólafi Þór sterkustum böndum, enda næstur honum í aldri, en þeir héldu lengst af heimili saman. Honum er því fráfall bróður síns þungt. Einar var okkur börnum Páls, elsta bróðurins, bæði vinur og frændi. Hann fylgdist með og tók þátt í uppeldi okkar. Sérstaklega er minnisstæð „nammiskúffan“ undir eldavélinni sem var fyrir okkur krakkana þegar við komum í heimsókn en einnig eigum við dýrmætar minningar um ferðalög út á land þar sem Einar var gjarnan með í för. Þá lét hann sig sjaldan vanta á tímamótum í lífi okkar eða á samkomur fjölskyldunnar á hátíðum. Seinna varð Einar svo jafnframt vinnufélagi minn í fyrirtæki okkar feðga allt þar til starfsævi hans lauk. Þannig hefur hann verið óslitinn þráður í lífi okkar frá því við systkinin munum eftir okkur.

En nú hefur hann kvatt. Ekki verða fleiri samræður við Einar um samfélagsmálin við borðstofuborðið í Bjargartanganum. Fjölskylduboðin verða öðruvísi. Þar verður umræðan um pólitík og fótbolta önnur því þetta voru málefnin sem gátu komið Einari í þó nokkurt uppnám og þá lá hann ekki á skoðunum sínum. Skrefin verða ekki fleiri um götur bæjarins, honum bregður þar ekki lengur fyrir og ef til vill verða fáir þess varir. En það er fjarri lagi að þessi góði maður og vinur gleymist þeim sem þekktu hann. Hans verður sannarlega saknað hér í Bjargó.

Stefán Pálsson,

Kristín Lilliendahl.