Helga Valdimarsdóttir fæddist 4. mars 1952. Hún lést 7. mars 2020. Minningarathöfn hennar fór fram 29. júní 2020.

Fallin er frá yndisleg vinkona og samstarfsfélagi, Helga Valdimarsdóttir flugfreyja. Helga var gullfalleg og stórglæsileg. Hún hafði einstaklega ljúfa nærveru og fallegt bros. Vinnudagar með henni voru ávallt tilhlökkunarefni.

Af mörgu er að taka þegar litið er yfir 35 ára samstarf. Ein ferð er þó sérstaklega minnisstæð. Í febrúar 2008 flugum við saman til Kaupmannahafnar. Rétt fyrir brottför frá Kaupmannahöfn kom í ljós að veðurspáin fyrir Ísland hafði snarversnað. Tekin var ákvörðun um að hætta við brottför, sem mæltist misvel fyrir meðal farþega, þá kom það sér vel að hafa reynda yfirflugfreyju. Við komumst síðan heim hálfum sólarhring seinna en rétt fyrir lendingu í Keflavík fengum við tvisvar eldingu í flugvélina. Það var þreytt áhöfn sem lagðist til hvílu þennan morgun en sátt við dagsverkið. Ég hefði ekki getað haft betri áhöfn og þá sérstaklega yfirflugfreyju í þessari ferð. Helga hrósaði síðan áhöfninni í bréfi til yfirmanna sem var henni líkt.

Helga vann sem flugfreyja hjá Icelandair í rúm 47 ár og sýndi ávallt mikla fagmennsku í starfi. Fyrir ári fór Helga í sína síðustu ferð sem flugfreyja. Flugferðin var til Montreal þar sem dóttir Helgu bjó ásamt fjölskyldu. Mér var það heiður að vera boðið að vera flugstjóri í þessari ferð. Áhöfnin lagði sig fram við að dekra við Helgu á allan hátt og sýna henni þannig þakklæti fyrir yndislegt samstarf í gegnum árin. Ýmislegt var brallað og samverunnar notið í botn þessa sumardaga í Montreal.

Í byrjun árs fór Helga að kenna sér meins í baki. Stuttu síðar kom í ljós krabbamein. Þrátt fyrir alvarleg veikindi var ávallt stutt í hlýja brosið hennar Helgu.

Nú er Helga farin í sína hinstu ferð, að þessu sinni inn í sólarlagið eilífa. Eftir standa minningar um einstaklega ljúfa og brosmilda konu með yndislega nærveru.

Fjölskyldu Helgu votta ég innilega samúð. Blessuð sé minning Helgu.

Sigríður Einarsdóttir.