Blekkingaleikur Leonardo DiCaprio í Inception frá árinu 2010.
Blekkingaleikur Leonardo DiCaprio í Inception frá árinu 2010.
Sýningar á kvikmyndinni Inception , eftir leikstjórann Christopher Nolan, eru hafnar á ný hjá Sambíóunum í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá því hún var frumsýnd.

Sýningar á kvikmyndinni Inception , eftir leikstjórann Christopher Nolan, eru hafnar á ný hjá Sambíóunum í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá því hún var frumsýnd. Á undan myndinni verður sýnd sérstök stikla þar sem Nolan kynnir níu mínútna efni bak við tjöldin úr nýjustu kvikmynd sinni Tenet sem frumsýnd verður 26. ágúst.

Í Inception segir af Dom Cobb, þjófi sem er sá allra besti þegar kemur að því að stela verðmætum leyndarmálum úr hugum fólks þegar það er í draumsvefni. Fyrir vikið er Cobb afar eftirsóttur í heimi iðnaðarnjósna en einnig hefur þetta orðið til þess að hann er nú eftirlýstur flóttamaður og hefur fórnað öllu sem hann hefur elskað, eins og segir í tilkynningu. Dag einn býðst honum sakaruppgjöf en fyrst þarf hann að leysa eitt verkefni, það síðasta. Verkefni hans og samstarfsmanna hans felst í að gera hið gagnstæða, að koma hugmynd fyrir í huga manns. Reynist verkefnið allt að því óleysanlegt. Með aðalhlutverk í myndinni fara Leonardo DiCaprio, Joseph Gordon-Levitt, Ellen Page, Tom Hardy, Cillian Murphy, Michael Caine og Marion Cotillard.

Sambíóin hafa í sumar sýnt helstu kvikmyndir Nolan í tilefni þess að hans nýjasta, Tenet , verður brátt tekin til sýninga.