Á Fasbók birtir Pétur Stefánsson mynd af sér með þessari skýringu: „Þarna var ég að læra til kokks. Vann síðan við eldamennsku bæði til lands og sjós í nokkur ár. Skemmtilegur tími“: Kjöt að skera kann ég nokk, kutann munda lipur.

Á Fasbók birtir Pétur Stefánsson mynd af sér með þessari skýringu: „Þarna var ég að læra til kokks. Vann síðan við eldamennsku bæði til lands og sjós í nokkur ár. Skemmtilegur tími“:

Kjöt að skera kann ég nokk,

kutann munda lipur.

- Hérna sjáið þið hreykinn kokk.

Hann er kostagripur.

„Enn ein matarvísan“ segir Pétur og yrkir við mynd af gómsætum réttum:

Ég er hress með bros á brá,

burt er dagsins mæða.

Það er alltaf fínt að fá

fisk í raspi að snæða.

Og áfram í sama dúr: „Stefán Sölvi sonur minn veiddi í sumar nokkra urriða sem hann setti í taðreykingu og gaf okkur foreldrunum. Frábært hádegissnarl“:

Um matartíma er mér annt,

alsæll sest að borði,

með bros á vör ég treð í trant

taðreyktum silungssporði.

Þórarinn í Kílakoti, faðir Sveins málara og Björns bónda sem gaf út vísur og ljóð föður síns í tveim bindum og sat á þingi varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, var góður hagyrðingur. Indriði á Skjaldfönn rifjar upp „Eftirmæli“ eftir Þórarin:

Skarðan drátt frá borði bar,

barn að háttum glaður.

Völl hann átti, en hann var

enginn sláttumaður.

Þórarinn M. Baldursson svarar og segir: „Þessi er líka eftir hann“:

Örðugan ég átti gang

yfir hraun og klungur.

Einatt lá mér fjall í fang

frá því ég var ungur.

„Þá má bæta þessari við“ gegndi Indriði:

Þó hann hafi kannske kysst

kvennavarir sleipar

hefur hann aldrei eyri misst

út um sínar greipar.

„Og bæti þessari við“

Hefir sjónlaust hugarfar,

helgar krónum stritið.

Klakahrjónur heimskunnar

hafa skónum slitið.

Gömul vísa í lokin:

Held ég mesta heimsins lyst

hesti að ríða bráðum,

sofa hjá ungri seimarist,

sigla fleyi í náðum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is