Svanhildur Jónsdóttir fæddist í Sandgerði 8. nóvember 1942. Hún lést í Brákarhlíð 4. ágúst 2020.

Foreldrar hennar voru Guðrún Magnúsdóttir, f. 25.4. 1908, d. 3.2.2000, og Jón Valdimar Jóhannsson, f. 5.3. 1906, d. 26.5. 1979. Svanhildur var næstyngst fimm systra sem eru: Anna Magnea, f. 18.11. 1929, gift Hauki Guðmundssyni, Ásdís, f. 15.2. 1932, gift Jóni Benedikt Sigurðssyni sem er látinn, Sigrún Jóhanna, f. 21.1. 1940, d. 4.10. 2019, eftirlifandi eiginmaður hennnar er Hafsteinn Ársælsson og Ragnheiður Elín, f. 13.8. 1947, gift Ingimundi Ingimundarsyni. Svanhildur ólst upp í Sandgerði og stundaði nám í grunnskólanum þar og í Héraðsskólanum á Núpi við Dýrafjörð í tvo vetur og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Einnig var hún einn vetur í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Hún fór snemma að vinna hjá fiskvinnslufyrirtækjum í Sandgerði. Fyrst í fiskvinnslu en síðan á skrifstofu. Veturinn 1963-1964 vann hún í sendiráði Íslands í London ásamt vinkonu sinni Guðrúnu Finnsdóttur frá Húsavík. Fljótlega eftir að hún kom heim réð hún sig til starfa á skrifstofu hjá Loftorku í Reykjavík. Annaðist hún bókhald og var gjaldkeri frá 1964 til 2012 eða þar til hún var sjötug. Svanhildur var nákvæm í lífi og starfi og mjög skipulögð. Hún var félagslynd og stundaði gömlu dansana meðan hún gat. Einnig ferðaðist hún mikið með Ferðafélagi Íslands innanlands.Hún var barngóð og fengu systrabörn hennar og afkomendur þeirra að njóta þess og hændust þau að henni. Hún var styrktarfélagi í mörgum líknarfélögum. Árið 2018 greindist hún með alzheimer. Í mars 2020 fékk hún inni í Brákarhlíð, hjúkrunar- og dvalarheimili, í Borgarnesi þar sem hún lést. Hún verður jarðsungin frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 13. ágúst, klukkan 15. Vegna aðstæðna í samfélaginu er athöfnin aðeins fyrir nánustu vini og aðstandendur, en streymt verður frá athöfninni á slóðinni http:facebook.com/groups/svanhildur.

Elsku Svana frænka.

Það er skrítið að ég eigi ekki eftir að hitta þig aftur. Þú ert búin að vera svo mikilvæg í lífi mínu. Þú passaðir mig oft þegar ég var lítill. Við fórum oft í bíó eða að gefa öndunum og í Húsdýragarðinn. Þú komst til mín í leikskólann þegar þar voru ömmu- og afadagar. Við fórum stundum í keilu og þú bauðst stóru bræðrum mínum einu sinni með okkur. Ég veit að Teddu og pabba þótti mjög vænt um það. Þú gerðir heimsins besta grjónagraut. Þú keyptir alltaf handa mér snúð þegar þú komst heim til okkar og við gátum borðað endalausan ís saman. Við fórum mjög oft í ísbúðina í Laugalæk og fengum okkur ís með súkkulaðisósu og smá nammi. Þú sagðir að þetta væri besta ísbúðin.

Ég vona að þér líði vel núna.

Ég sakna þín.

Þinn

Ragnar Ingi.

Fyrsta minning mín um Svanhildi Jónsdóttur, sem alltaf var kölluð Svana, er frá árinu 1967 þegar hún hóf vinnu á skrifstofu verktakafyrirtækisins Loftorku. Ég var sautján ára og hún átta árum eldri. Ég vann í snatti fyrir reksturinn en hún var með bókhaldið og reikningagerð. Hvoruga okkar gat grunað að hún myndi sinna þessu starfi ásamt skrifstofustjórastöðu síðar í rúm fjörutíu ár. Það er með því lengsta sem starfsmaður hefur unnið hjá fyrirtækinu en góður hópur hefur unnið þar í marga áratugi. Svana var brosmild og glaðleg. Hún hafði mjög gaman af ferðalögum og ferðaðist mikið innanlands, stundum gangandi þvers og kruss um landið, oft með Ferðafélaginu. Síðar fór hún gjarnan líka til útlanda. Svana var nákvæm og passasöm í störfum sínum og menn komust ekki upp með neitt slugs með pappíra. Hún vildi ógjarnan breyta til eða skipta um aðferðir í vinnu. Hún var mjög treg til að fara að vinna í tölvu og notaði tölvuna síðan á mjög takmarkaðan máta. Í þeim skilningi var hún ákaflega íhaldssöm. Svönu var meinilla við skuldir og lántökur. Ég minnist þess að pabbi, Sigurður Sigurðsson, sem var forstjóri og eigandi fyrirtækisins, talaði stundum um það þegar til stóð að kaupa nýjan vörubíl eða stórar vinnuvélar að nefna það ekki strax við Svönu því að hún kæmist í uppnám. Hann sagði að það þyrfti að undirbúa hana vel undir fréttina. Foreldrar mínir voru eigendur fyrirtækisins eins og áður sagði og höfum við öll fimm systkinin unnið um skemmri og lengri tíma hjá Loftorku (lengst Ari og Andrés sem nú hafa tekið við fyrirtækinu). Ólafur eiginmaður minn vann þar einnig í 25 ár á síðustu öld. Flest barnabörnin hafa einnig unnið hjá fyrirtækinu (einnig barnabarnabörn). Við höfum því öll átt góð samskipti við Svönu. Samstarf hennar og pabba var alla tíð mjög gott. Svana hélt góðu sambandi við fyrri samstarfsfélaga eftir starfslok og mætti á flesta viðburði á vegum fyrirtækisins og samstarfsfólks. Ása samstarfskona Svönu til áratuga hélt traustri vináttu við hana og veitti henni ómetanlegan stuðning.

Við fjölskyldan höfum fylgst með hrakandi heilsufari Svönu síðustu ár. Það er sorglegt hversu fárra ára hún fékk að njóta við fulla heilsu eftir að hún lét af störfum. Síðast hitti ég Svönu við jarðarför Óla míns í fyrrasumar. Hún leit vel út eins og jafnan en átti í nokkrum vandræðum með að átta sig á fólkinu. Ég hugsa til Svönu með hlýju og þakklæti og votta ættingjum hennar og vinum samúð mína.

Kristín Sæunnar og Sigurðardóttir.

Hvað er það sem kemur upp í hugann þegar einn af hornsteinum fyrirtækis Loftorku-fjölskyldunnar, Svanhildur Jónsdóttir, kveður okkur allt of snemma?

Þegar hún kom til starfa hjá Loftorku var fyrirtækið ungt og hafði engan veginn slitið barnsskónum. Svana kom því til starfa á mjög mikilvægu augnabliki í tilvist fyrirtækisins og setti svip sinn á uppbyggingu þess. Hún vann hjá Loftorku mestalla starfsævi sína og ekki síður er rétt að benda á að starfsævi hennar spannar drjúgan hluta starfstíma fyrirtækisins, uppbyggingartíma og þann tíma þegar það skaut rótum í íslensku atvinnulífi. Ekki síst er þess að minnast að hún var samstarfsmanneskja okkar í marga áratugi og traustur hluti í tilveru okkar þessi 48 ár sem hún vann hjá Loftorku. Það var góður og viðburðaríkur tími í lífi okkar allra og skipti okkur miklu máli. Við sem eldri erum í hettunni hjá fyrirtækinu nú höfum oft gaman af því að segja frá atburðum fyrstu áranna okkar og rifja upp minningar um fyrirtækið sem Svana átti svo sannarlega sinn þátt í að móta. Það sem við minnumst helst af mörgu góðu í hennar fari er elskulegt viðmót í garð allra sem áttu leið um skrifstofu Loftorku eða hringdu en þar gat oft verið erilsamt og verkefnin margbreytileg. Hennar starf hefur ekki alltaf verið auðvelt og allir vita að skiptast á skin og skúrir í lífi fyrirtækja. Hún leysti öll mál með okkur á sinn einstaka hátt. Hennar verður sárt saknað.

Orð höfundar ljóðsins hér að neðan eiga sérlega vel við Svönu og því við hæfi að kveðja hana með þessum fallegu orðum eftir Katrínu Ruth, sem lýsa eiginleikum hennar svo vel.

Sérstök, dugleg, traust og trú

Vitur hjálpsöm ... það ert þú

Hlý og bjartsýn, til í spjall

Þú getur stoppað hið mesta fall.

Ari Sigurðsson og Anna Björnsson.

Í dag kveð ég góðan vin og samstarfsfélaga, hana Svönu sem hefur verið í mínu lífi frá því ég var 3ja ára, fyrst er Svana hóf störf hjá Loftorku árið 1964, fyrirtæki í eigu fjölskyldu minnar en hún vann þar í 48 ár.

Þegar ég var barn var ég oft í vinnunni með pabba og hafði Svana gott lag á mér sem var nú örugglega ekki alltaf rólegasta barnið og seinna mínum börnum sem fengu að fara með mér í vinnuna. Hún treysti manni meira að segja fyrir sendiferðum um bæinn með peninga í tösku til að borga reikninga.

Það var mikil gæfa fyrir Loftorku að fá Svönu til starfa sem skrifstofustjóra og gjaldkera.

Hún var trygg, útsjónarsöm, nákvæm og var í góðu sambandi við viðskiptavini. Í þessum rekstri skiptast á skin og skúrir og var hún einstök þegar á móti blés og þá nutu mannkostir hennar sín vel. Það var einstakt teymi sem vann saman á skrifstofunni, Svana, pabbi, Sævar og Ása ásamt Stefáni endurskoðanda og var þar oft glatt á hjalla. Svana var glæsileg kona sem tekið var eftir og var dugleg að rækta líkama og sál og var á undan sinni samtíð með líkamsrækt, skíða- og fjallgöngum.

Svana studdi vel við þá sem minna máttu sín og lét alltaf til sín taka hvort sem var í orðum eða athöfnum og lét alltaf skerf af sínum launum renna til líknarfélaga.

Hún var alltaf glaðleg og fljót til svara og mjög orðheppin, hún var þó alls ekki skaplaus og ef henni mislíkaði eitthvað þá lét hún vita af því og gátu þá tekið við dagar sem ekki var margt sagt.

Fljótlega eftir að hún lét af störfum áttaði hún sig á að Alzheimer væri farinn að gera vart við sig hjá henni og var það eftirbreytnivert hvernig hún ræddi það opinskátt.

Hún var alltaf ræktarsöm við okkur vinnufélagana og kom hér oft eftir að hún lét af störfum.

Með þakklæti og virðingu kveðjum við góðan vin og samstarfsfélaga.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

F.h. samstarfsfélaga hjá Loftorku Reykjavík,

Andrés

Sigurðsson.