[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svíþjóð Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is „Ég er nokkuð ánægður með frammistöðuna og spilamennskuna en maður vill alltaf gera betur.

Svíþjóð

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Ég er nokkuð ánægður með frammistöðuna og spilamennskuna en maður vill alltaf gera betur. Ég er þannig karakter að ég vil alltaf gera betur,“ sagði ákveðinn Ísak Bergmann Jóhannesson, 17 ára knattspyrnumaður frá Akranesi, í samtali við Morgunblaðið. Ísak hefur síðustu vikur og mánuði vakið athygli fyrir góða frammistöðu með Norrköping í Svíþjóð, en hann er fastamaður í liðinu þrátt fyrir ungan aldur. Ísak kom til Norrköping árið 2018, en kom aðeins einu sinni inn á sem varamaður á síðustu leiktíð. Ísak hefur hins vegar spilað 13 af 14 leikjum Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, 11 frá byrjun, og skorað í þeim tvö mörk. Ísak skoraði annað mark Norrköping í 2:3-tap fyrir Helsingborg í síðustu umferð með glæsilegu skoti.

Ísak og félagar byrjuðu vel á tímabilinu og voru í toppsætinu framan af. Liðið hefur hins vegar tapað tveimur í röð og ekki unnið í síðustu fjórum. Ísak er ánægður með að fá að spila mikið, en skiljanlega minna kátur með gengi liðsins að undanförnu. „Ég setti mér það markmið að komast inn í liðið sem fyrst og það hefur gengið eftir, en því miður hefur okkur ekki gengið nægilega vel. Við viljum gera betur og fara að vinna leiki á ný. Við höfum ekki verið nægilega góðir að loka leikjunum sem við erum að spila. Við erum með ungt lið og að mínu mati erum við með besta fótboltaliðið í þessari deild, en þurfum að kunna að stjórna leikjum betur.“

Verður margra milljarða virði

Ísak hefur vakið mikla athygli sænskra fjölmiðla. Robert Laul hjá Aftonbladet lýsti Ísaki m.a. sem leikmanni sem fólk mun segja barnabörnunum sínum frá og það væru forréttindi að fá að fylgjast með honum. „Það eru sennilega ekki komin mörg hár á bringuna á honum, en hann hefur nú þegar náð fullkomnum tökum á því að koma boltanum í netið,“ skrifaði Laul um Ísak. „Hann verður margra milljarða virði og ég á ekki von á að hann verði lengi hjá Norrköping,“ skrifaði Laul enn fremur. Þá valdi Aftonbladet Ísak efnilegasta leikmann Svíþjóðar og var hann valinn leikmaður 6. umferðar sænsku úrvalsdeildarinnar hjá Studio Allsvenskan.

Pælir lítið í umfjölluninni

Leikmaðurinn ungi segist ekki velta sér mikið upp úr athyglinni utan frá. „Ég hef ekki tekið mikið eftir en þó eitthvað. Það er gaman þegar maður stendur sig vel, en ég pæli annars lítið í þessari umfjöllun. Þegar það er umfjöllun í kringum mann verður maður að einbeita sér að sjálfum sér og að hjálpa liðinu eins mikið og maður getur. Ég læt umfjöllunina ekki hafa áhrif á mig.“

Norrköping keypti Ísak af ÍA í desember 2018. Hann kom aðeins einu sinni inn á sem varamaður á fyrsta tímabili í Svíþjóð, en hefur látið mikið að sér kveða á þessari leiktíð, eins og áður hefur komið fram. Ísak segist ávallt hafa reiknað með því að hann þyrfti að aðlagast, áður en hann fengi stórt hlutverk í liðinu, enda ungur að árum. „Ég fékk einn leik á síðasta ári og það er skiljanlegt. Það hefði verið óeðlilegt að 16 ára strákur fengi að spila mikið. Það var planið að fá eitt ár til að aðlagast og það hefur gengið vel. Satt best að segja átti ég ekki von á svona miklum spiltíma, en hann kemur með góðri frammistöðu. Liðinu gekk vel í byrjun tímabils og þótt gengið sé ekki eins gott núna, þá hefur mér gengið frekar vel á vellinum.“

„Ísak lítur kannski út eins og barn, enda nýorðinn 17 ára, en hann spilar fótbolta eins og fullorðinn,“ skrifaði títtnefndur Robert Laul um íslenska leikmanninn. Þegar Ísak lék sinn fyrsta og eina deildarleik með ÍA gegn Þrótti Reykjavík 22. september 2018 var hann aðeins 15 ára gamall og leit jafnvel út fyrir að vera enn yngri. Ísak hefur lagt mikið á sig til að styrkja sig síðustu mánuði með góðum árangri. „Ég hef lagt mikið á mig til að styrkja mig. Ég hef bætt á mig rúmum átta kílóum síðan ég fór út fyrir tæpum tveimur árum og ég hef unnið í því. Maður þarf að hafa styrk til að spila atvinnufótbolta og ég vildi vera með það í lagi. Það hefur gengið vel að byggja upp líkamann minn, sem er enn þá að þróast.“

Ofboðslega þakklátur

Ísak gerði nýjan samning við Norrköping á dögunum og er hann nú samningsbundinn félaginu til ársins 2023. „Ég samdi út 2023, það var gott bæði fyrir mig og félagið,“ sagði Ísak og viðurkennir að ein ástæða þess að hann samdi til þriggja ára væri sú að Norrköping fengi meiri pening, fari svo að sænska félagið selji hann á komandi árum. „Við vorum akkúrat að pæla í því,“ sagði Skagamaðurinn. Hann er mjög ánægður með lífið og tilveruna hjá Norrköping, enda ekki sjálfgefið að vera lykilmaður í sænsku úrvalsdeildinni aðeins 17 ára. Þá kann Ísak vel við sig í borginni, sem er 140.000 manna borg í Austur-Svíþjóð. „Ég er mjög ánægður í borginni og hjá liðinu. Ég er ótrúlega ánægður með allt í kringum liðið og allt sem félagið hefur gert fyrir mig. Ég er ofboðslega þakklátur fyrir það. Það eru ekki öll lið tilbúin til að taka við svona ungum leikmanni og gefa honum tækifæri eins og Norrköping hefur gefið mér.“

Ísak getur lítið kvartað yfir byrjuninni á atvinnumannaferlinum og hann setur stefnuna hátt. „Ég tel mig geta náð eins langt og hægt er að ná. Auðvitað getur ýmislegt komið upp á en ég stefni á að ná eins langt og fótboltamaður getur mögulega náð.“

Ekki eini Skagamaðurinn

Ísak var ekki eini Skagamaðurinn sem Norrköping keypti því Oliver Stefánsson kom til félagsins á sama tíma. Fór Stefán Þórðarson, faðir Olivers, með strákunum út og starfar hann nú hjá félaginu. Stefán lék sjálfur með Norrköping fyrst frá 2005 til 2007 og svo aftur 2009. „Það var mjög gott að hafa þá til taks. Stefán er byrjaður að vinna með sjúkrateyminu, hann nuddar leikmenn og hjálpar þeim að jafna sig. Það er mjög fínt að hafa Stebba og svo er Oliver að vinna í sínum málum með meiðsli. Hann kemur sterkur inn þegar hann er búinn að jafna sig,“ sagði Ísak Bergmann.

Ísak er sjálfur af miklum knattspyrnuættum. Er hann sonur Jóhannesar Karls Guðjónssonar, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumanns og núverandi þjálfara ÍA. Afi hans er Guðjón Þórðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, og þá eru föðurbræður hans Þórður og Bjarni Guðjónssynir einnig fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmenn.