Málfar Íslenska á víða erindi.
Málfar Íslenska á víða erindi. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í áratugi hafa Íslendingar með misglöðu geði greitt í stöðumæla. Með snjallsímavæðingu var ökuþórum gert lífið auðveldara með því að nýta sér smáforritið „Leggja“ í stað þess að dæla smámynt í mæli.

Í áratugi hafa Íslendingar með misglöðu geði greitt í stöðumæla. Með snjallsímavæðingu var ökuþórum gert lífið auðveldara með því að nýta sér smáforritið „Leggja“ í stað þess að dæla smámynt í mæli. Nú hefur sú göfuga list að leggja vikið fyrir vörumerkinu „easypark“ sem tekur við af hinu eldra og ylhýrara.

Breyting þessi er hin nýjasta í þeirri þróun að fyrirtæki taki upp ensk heiti og kasti fyrir róða þeim gömlu og góðu íslensku. Frægasta dæmi síðustu missera var þegar hið áratuga gamla heiti Flugfélags Íslands var látið víkja fyrir Air Iceland Connect og þótti þá mörgum nóg um.

Blaðamaður ræddi við Eirík Rögnvaldsson, prófessor emerítus í íslenskri málfræði, um þessa þróun. Hann segir að í mörgum tilvikum geti verið góð og gild rök fyrir erlendum heitum, sérstaklega þegar um er að ræða tilvísun í hluti eða starfsemi sem sérstaklega er beint til útlendinga. Fjöldamörg dæmi séu um að slíkt geti verið eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt. Ekki megi þó ganga út frá því að útlendingar vilji forðast íslensku, ekki frekar en að við forðumst erlent mál á ferðalögum okkar ytra. Hann nefnir nokkur dæmi um óþarfa enskunotkun t.d. í auglýsingum frá fatarisanum H&M, hins umtalaða flugfélags og segir eftirsjá að hinu þjála og lýsandi „Leggja“.

Eiríkur segir það hvorki markmið né skyldu að þröngva íslensku upp á hópa sem hún þjóni illa eða alls ekki. Fremur verði að vanda vel á hvaða sviðum sú barátta er háð. Eiríkur bendir á að sum orð hafi eingöngu tákngildi sem blandast ekki saman við íslenskt mál. „Ensk heiti verða ekki til að breyta íslenskunni, þ.e. hættan felst ekki í heitum, heldur að mönnum finnist heitin eðlileg,“ segir Eiríkur. Þannig verði til samlögun tungumálsins, þar sem mörkin milli þess hvað sé rétt og eðlilegt skarist og geti til langframa reynst íslenskri tungu skeinuhætt.

Hvort auðveldara verði að leggja í stæði skal ósagt látið.

sighvaturb@mbl.is