Arnar Þór Jónsson
Arnar Þór Jónsson
Eftir Arnar Þór Jónsson: "Við reglusetningu í lýðræðisríki ber að ræða mál út frá fleiri hliðum en einni og leita viðunandi jafnvægis milli allra þátta sem máli skipta"

Fréttaflutningur af Covid-19 (C19) veldur mér stöðugum ónotum, sem hafa ágerst eftir því sem liðið hefur á sumarið, sérstaklega þegar ég mæti grímuklæddu fólki á víðavangi eða sé grímuklædda bílstjóra eina á ferð í bifreiðum sínum. Frammi fyrir slíkri sjón get ég ekki varist þeirri hugsun að óttinn hafi yfirtekið dómgreindina. Ójafnvægi sem af því leiðir samræmist illa klassískum hugmyndum um dyggðugt líf, þ.e. um meðalhóf milli tveggja lasta. Skeytingarleysi um eigið líf og annarra er augljóslega löstur, en það er ofsahræðsla einnig.

Daglegt viðfangsefni sérhvers manns er að halda jafnvægi í ólgusjó tilverunnar, koma reiðu á hugsanir okkar og samræma innra líf: skynsemi og trú, innsæi og reynslu, von og ótta, sjálfsbjörg og öryggi, sköpunarþörf og hvíld, samvisku, siðvit o.fl. Í þessum skilningi erum við mennirnir betur settir en dýrin, því við erum gædd skynsemi og frjálsum vilja. Samviskan er einn mikilvægasti þáttur mannlegrar skynsemi. Hinn frjálsi vilji þarf að samræma þetta tvennt því samviskan ein getur leitt okkur út á tilfinningalegar villigötur og skynsemin ein út á villigötur vélrænnar og ómannúðlegrar hugsunar. Meðvitund um slíkar áskoranir og eigin takmarkanir fyllir skynsaman mann auðmýkt. Í vanmætti sínum öðlast maðurinn þó um leið reisn sem andleg vera. Leitin að svörum (sannleiksleitin) fyllir líf okkar tilgangi og færir okkur jafnvel spennu og gleði.

Þegar hugsað er út í þann innri ólgusjó sem bærist innra með hverjum manni samkvæmt framangreindu og þá ytri stórsjói sem reglulega ganga yfir samfélagið blasir við að lýðræðið hljóti að mega teljast ófullkomið stjórnarform. Samt sem áður hefur það orðið fyrir valinu sem grundvöllur vestrænnar stjórnskipunar vegna þess að það er, þrátt fyrir allt, best til þess fallið að koma á og viðhalda því viðkvæma jafnvægi sem einkennir lýðfrjáls samfélög. Í því felst viðurkenning á þeirri sáru mannlegu reynslu að allt vald þurfi að tempra, ef ekki á illa að fara.

Í þessum anda miðar frjálslynd og lýðræðisleg stjórnskipun ekki að harðstjórn meirihlutans, heldur stendur slíkt stjórnarfar vörð um réttindi minnihlutans til hugsunar, tjáningar og gagnrýni, enda hefur sagan sýnt að meirihlutinn getur haft rangt fyrir sér, sem og fræðimenn og siðapostular. Stjórnmál sem vilja kenna sig við frjálslyndi eiga því ekki að litast af forherðingu og fullvissu, heldur af meðvitund um það að við gætum haft á röngu að standa. Ef vel tekst til þjónar frjálslynt lýðræði vel sem nokkurs konar þjóðfélagsleg jafnvægisstilling. Þetta markmið birtist skýrlega í áskilnaði íslensks réttar um meðalhóf, t.d. að viðbrögð stjórnvalda við vandamálum séu í samræmi við hættuna.

Hafa má skilning á því að stjórnvöld hafi viljað hafa vaðið fyrir neðan sig þegar C19 skaut fyrst upp kollinum. Í ljósi staðreynda sem síðan hafa skýrst, m.a. um dánartíðni og meðalaldur látinna, þarf stöðugt að leita endurmats í því skyni að afstýra því að viðbrögð stjórnvalda valdi meira tjóni en veiran sjálf. Í því samhengi sakna ég þess að hafa ekki heyrt fleiri íslenska lækna tjá sig um málið. Með sama hætti hefur samfélag íslenskra lögfræðinga verið gagnrýnislaust á aðgerðir stjórnvalda hingað til. Þá hefur stjórnarandstaðan engu bætt efnislega við umræðuna. Í stuttu máli virðist mér umræðan um C19 einkennast af gagnrýnisleysi og áherslu á hlýðni. Fjölmiðlar, sem í upphafi fluttu fregnir af dánartíðni, hafa í seinni tíð fjallað meira um fjölgun tilfella. Slík nálgun getur haft þær afleiðingar að almenningur ofmeti hættuna, sbr. nýlega könnun Kekst CNC sem gefur vísbendingu um að 29% Breta telji að 6-10% eða jafnvel stærri hluta dauðsfalla á Bretlandseyjum megi rekja til C19. Slíkt mat er þó fjarri opinberri tölfræði sem sýnir 0,1% dánarhlutfall.

Í lýðræðisríki ber okkur því að leggja rækt við sjálfstæða hugsun. Meðan við viljum búa í lýðfrjálsu ríki leyfist okkur ekki að fljóta hugsunar-, gagnrýnis- eða skilningslaust með straumnum. Borgararnir sjálfir bera samkvæmt þessu ábyrgð á eigin frelsi. Það þýðir að við þurfum að vera meðvituð um á hvaða leið við erum sem samfélag og getum ekki afsakað algjört þekkingarleysi með áhugaleysi eða tímaskorti. Með sama hætti er óverjandi að menn kasti frá sér ábyrgð með því að kokgleypa vanhugsuð hugmyndakerfi og skipta heiminum síðan upp í vígvöll þar sem átakalínurnar eru dregnar upp af misvitrum skoðanaleiðtogum, en ekki okkur sjálfum. Þvert á móti ber okkur að lifa okkar sjálfstæðu tilveru innan frá, sem hugsandi menn og andlegar verur, því einmitt í því birtist kjarni mennskunnar sem frjálslyndri lýðræðishefð er samkvæmt framansögðu ætlað að vernda.

Aðrir eru betur til þess fallnir að meta hversu alvarleg heilsufarsógn C19 er í reynd, en sem almennur borgari hlýt ég að hafa rétt og skyldu til að horfa á tölfræðilegar upplýsingar og draga sjálfstæðar ályktanir, fremur en að samþykkja umyrðalaust að vísindamönnum og ráðherrum séu falin öll völd. Í fljótu bragði virðist mér t.d. að í sóttvarnalög nr. 19/1997, sem auglýsing heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir byggist á, skorti ákvæði um að ákvarðanir ráðherra skuli koma til umræðu og endurskoðunar hjá löggjafarþinginu við fyrsta tækifæri, en slíkt ákvæði er t.d. að finna í sóttvarnalögum í Noregi. Miðað við allar þær upplýsingar sem nú liggja fyrir hlýtur að mega vega öryggissjónarmið gagnvart öðrum mannlegum og samfélagslegum hagsmunum þannig að feta megi farsælustu leið. Hvað verður t.d. um heilbrigðiskerfið ef atvinnuleysi eykst úr öllu hófi með þeim afleiðingum að skatttekjur dragast saman og erfitt verður að fjármagna sjúkrahúsin? Slík þróun hefði í för með sér sjálfstæða ógn við heilsu og líf borgaranna. Framangreind sjónarmið um lög og landsstjórn eru til áminningar um að við reglusetningu í lýðræðisríki ber að ræða mál út frá fleiri hliðum en einni og leita viðunandi jafnvægis milli allra þátta sem máli skipta. Þótt öryggisþátturinn sé mikilvægur ber okkur í lýðræðislegu tilliti að leggja skynsamlegt mat á hættuna og hafa burði til að mæta því sem vekur kvíða og ótta. A.m.k. má öllum vera ljóst að til langframa getum við ekki látið stjórnast af óttanum einum. Hver eru mörkin sem miða ber við í þessu samhengi? Ef öryggissjónarmið eiga ein að ráða ferð – og ef bíða á þar til covid-smit hafa með öllu horfið – þurfum við að búa okkur undir gjörbreytta tilveru. Þolir sálarlíf og efnahagur þjóðarinnar slíkt til langframa?

Höfundur er héraðsdómari.

Höf.: Arnar Þór Jónsson