Eyland Viðey er 1,7 km² að flatarmáli og rís hæst 32 metra yfir sjávarmáli.
Eyland Viðey er 1,7 km² að flatarmáli og rís hæst 32 metra yfir sjávarmáli. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Fimmtíu ár eru um þessar mundir síðan Viðey á Kollafirði var opnuð almenningi til frjálsra ferða. Eyjan var lengi lokað land, en er í dag útivistarsvæði á sögustað, þar sem margt skemmtilegt má sjá og upplifa.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fimmtíu ár eru um þessar mundir síðan Viðey á Kollafirði var opnuð almenningi til frjálsra ferða. Eyjan var lengi lokað land, en er í dag útivistarsvæði á sögustað, þar sem margt skemmtilegt má sjá og upplifa. Hafsteinn Sveinsson hóf skipulagðar ferðir út í Viðey í júlí 1970, en upphafið má rekja til ársins 1962. Vildi þá til að Hafsteini var boðið með góðum vinum í siglingu út á Kollafjörð með viðkomu í eyjunni, sem þá var í niðurníðslu og raunar var landeigandinn á móti mannaferðum.

Hafsteinn, sem var byrjaður í siglingasporti þegar hér var komið sögu, segir að eyjan hafi strax heillað sig. Með sér hafi vaknað sú hugmynd að hefja skipulagðar ferðir þangað. Það var þó ekki fyrr en árið 1966 að Hafsteinn kannaði hvort slíkt væri heimilt. Svar landeigandans, Stephans Stephensen kaupmanns í Reykjavík, var skýrt nei.

Þurfti leyfi forsætisráðherra

Sumt er skrifað í skýin og á að verða, þótt hægt miði stundum. Vorið 1970 eignaðist Hafsteinn nýjan 20 feta hraðbát sem hann sigldi á frá Danmörku heim til Íslands. Moby Dick hét báturinn og tók siglingin tæpar þrjár vikur. „Oft var ég í kröppum sjó, en heim komst ég heill á húfi,“ segir Hafsteinn þegar hann rifjar upp sögu sína.

Ítarlega var sagt frá sögulegri siglingu hans í fjölmiðlum á sínum tíma en með því skóp Hafsteinn sér nafn. Það fór líka svo að þegar hann, fáum dögum eftir heimkomuna, gekk á fund Stephans Stephensen og óskaði í annað sinn eftir að mega hefja Viðeyjarsiglingar, þá var komið annað hljóð í strokkinn. Stefán veitti leyfi fyrir eitt orð og allt í þessu fína.

Málum var hins vegar svo háttað að Viðeyjarstofa, kirkjan í eynni og landspilda þar í kring voru í eigu ríkisins og á forræði forsætisráðuneytisins. Hafsteinn leitaði því í stjórnarráðið eftir samþykki og sagðist Guðmundur Benediktsson ráðuneytisstjóri myndu bera málið undir forsætisráðherra.

„Nokkrum dögum síðar hringdi Guðmundur í mig og sagðist hafa góðar fréttir að færa, Bjarni Benediktsson hefði samþykkt umsókn mína og hefði í lok vinnudags skrifað undir bréf sem heimilaði mér Viðeyjarferðir. Þetta var síðdegis 9. júlí 1970. Nóttina eftir fórust svo Bjarni, eiginkona hans og dóttursonur í eldsvoða á Þingvöllum. Samþykki á umsókn minni var því sennilega síðasta embættisverk Bjarna.“

Flutti hundruð þúsunda farþega

Fyrstu siglingarnar með farþega út í Viðey fór Hafsteinn 18. júlí 1970. Í frásögn í Morgunblaðinu þann dag segir frá „Sólareyju á sundunum“ og lýst er skemmtilegum möguleikum þar til útivistar, sögulegum minjum og fleiru áhugaverðu. Þetta mæltist líka vel fyrir; Viðeyjarferðir slógu í gegn og á góðum degi sumarið 1972 flutti Hafsteinn alls 800 manns út í eyju á Moby Dick sem þó tók mest 12 farþega í hverri ferð. Því bætti hann við sig árið 1973 Skúlaskeiði , bát sem tók 50 farþega. Maríusúð , sem tók 70 manns í sæti, fékk Hafsteinn árið 1986.

„Á mínum 23 Viðeyjarárum flutti ég hundruð þúsunda farþega út í eyjuna sem var mitt annað heimili. Ég hætti árið 1993 en Viðey tók bólfestu í huga mínum. Enn í dag dreymir mig oft á nóttunni að ég sé á rölti úti í eyju, að sigla um sundin eða bjarga bátum í stormi, eins og ég átti margar andvökunætur við.“

Stephensenar og Bítlafrú

Ríkið gaf Reykjavíkurborg Viðey árið 1986 í tilefni af 200 ára afmæli borgarinnar. Þá lá fyrir að áhugi væri hjá borginni á að gera upp húsin í eynni og gera staðinn að útivistarsvæði. Endurgerðar byggingar, það er Viðeyjarstofa og kirkjan sem stendur við hlið hennar, voru opnaðar almenningi á afmælisdegi Reykjavíkurborgar, 18. ágúst 1988.

Búseta hófst í Viðey fljótlega eftir landnám og hélst um aldir. Þar var lengi klaustur, prentsmiðja og fleira merkilegt. Viðeyjarstofa, sem var reist á árunum 1752-1755, var bústaður Skúla Magnússonar landfógeta. Eftir daga Skúla í embætti tók fólk af Stephensen-ættinni við eynni, sat þar lengi og átti staðinn fram á 20. öld.

Á löngum tímum eru þó eyður í sögu Viðeyjarsögu en minnast má að 1907-1914 var Milljónafélagið svonefnda með útgerð og ýmsa aðra starfsemi í eynni þar sem gera átti umskipunarhöfn. Myndaðist þá á austurhluta eyjunnar 100 manna þorp sem fór í eyði árið 1943.

Lengi eftir það var Viðey eyðistaður í niðurníðslu, sem mörgum rann til rifja. En svo fór að eyjan var reist úr öskustó, eins og að framan er lýst.

Fimmtán geislar

Á haustdögum ár hvert skín Friðarsúlan í Viðey skært og er leiðarljós til friðar. Verkið er hugarfóstur Yoko Ono, ekkju Bítilsins John Lennons. Úr óskabrunni sem svo er nefndur koma fimmtán geislar sem sameinast í einu sterku ljósi, sem fólk á höfuðborgarsvæðinu þekkir vel. Þá er stundum efnt til þýðingarmikilla atburða í Viðey, sbr. að síðasta haust var þar haldinn árlegur sumarfundur forsætisráðherra Norðurlandanna og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.