Landsliðskonur Hallbera Gísladóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir eru nú samherjar hjá Val.
Landsliðskonur Hallbera Gísladóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir eru nú samherjar hjá Val. — Ljósmynd/A2 Peter Hartenfelser
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.is Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir mun taka þátt á Íslandsmótinu í knattspyrnu næstu mánuði en hún er gengin í raðir Vals að láni frá Utah Royals í Bandaríkjunum.

Fótbolti

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir mun taka þátt á Íslandsmótinu í knattspyrnu næstu mánuði en hún er gengin í raðir Vals að láni frá Utah Royals í Bandaríkjunum. Þetta verður í fyrsta sinn í átta ár sem miðjumaðurinn spilar hérlendis en hún lék alls 142 leiki og skoraði 38 mörk fyrir uppeldisfélagið sitt Stjörnuna árin 2003 til 2012 áður en hún hélt út í atvinnumennsku.

Gunnhildur var fyrstu árin í Noregi en flutti til Bandaríkjanna fyrir tveimur árum og gekk til liðs við Utah sem leikur í atvinnumannadeildinni. Hún spilaði eitt tímabil að láni með Adelaide United í Ástralíu og var þar með landsliðssamherja sínum, Fanndísi Friðriksdóttur, sem er á mála hjá Val í dag en spilar þó ekkert næstu mánuði enda barnshafandi.

Gunnhildur er 31 árs og hefur getið sér gott orðspor í Utah jafnframt því að vera lykilmaður í íslenska landsliðinu þar sem hún hefur spilað 71 A-landsleik og skorað tíu mörk. Þó hún hafi ekki ætlað sér annað en að vera um kyrrt í Ameríku breyttust áformin í kjölfar kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina. Meðal annars var deildarkeppninni þar frestað.

Verður að vera klár í landsleikina

„Það er ekki auðvelt að vera í Bandaríkjunum núna og hugsanlega verður ekkert spilað á næstu mánuðum,“ sagði Gunnhildur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn. Ísland mun að öllu óbreyttu spila mikilvæga leiki í undankeppni Evrópumeistaramótsins í haust og það skiptir hana miklu máli að vera í standi fyrir þau verkefni. „Ég verð að undirbúa mig undir landsleikina, í mínum huga verða þeir auðvitað spilaðir.“

Eins og staðan er núna mun Ísland taka á móti Lettlandi og Svíþjóð í september og heimsækja Svíþjóð í október. Það hefði reynst erfitt fyrir Gunnhildi að taka þátt í þessu leikjum samhliða því að búa áfram í Bandaríkjunum. „Það eru ekki mörg Evrópulönd að hleypa inn farþegum frá Bandaríkjunum. Það væri erfitt fyrir mig að þurfa alltaf að fljúga til Íslands í sóttkví og fara svo áfram. Þurfa svo aftur í sóttkví við heimkomuna til Bandaríkjanna.

Þetta hefði ekki gengið upp fyrir mig sem knattspyrnukonu, að vera í sóttkví 70% af tímanum og jafnvel spila ekki neitt. Fyrir mér eru landsleikirnir númer eitt, tvö og þrjú og mikilvægt að koma til Íslands og vera tilbúin.“

Gott tækifæri til að koma heim

Hún segist hafa fengið tilboð frá öðrum liðum í Evrópu en að lokum kosið að snúa heim og eiga þess kost að vera með fjölskyldu og vinum. „Ég var með nokkur tilboð í Evrópu en þetta eru bara nokkrir mánuðir og mér fannst þetta gott tækifæri til að koma aðeins heim og vera með fjölskyldunni. Hér er ástandið líka hundrað prósent betra en í Bandaríkjunum.“

Lánssamningurinn gildir út október og ætti hún því að geta klárað mótið með Völsurum sem eru í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Breiðabliki sem á einnig leik til góða. Valur á eftir að spila tíu leiki og á deildin að klárast í október, nema það dragist enn á langinn vegna veirunnar.

Gunnhildur segist dugleg að fylgjast með íslenska fótboltanum þó tímamismunurinn sé mikill. „Það er mikill tímamismunur og erfitt að fylgjast með en ég les alltaf um alla leiki. Ég hef ekki spilað á Íslandi síðan 2012 og þarf auðvitað aðeins að koma mér inn í málin en þetta er spennandi.“

Einhverjir orðrómar voru um að hún myndi spila með uppeldisfélaginu í Garðabæ en Gunnhildur er ánægð að geta bæði æft og spilað með mörgum stöllum sínum úr landsliðinu hjá Íslandsmeisturunum. „Ég er að æfa með leikmönnum sem ég þekki úr landsliðinu og það var mikilvægt fyrir mig, að geta liðið vel og auðvitað að taka þátt í Meistaradeildinni. Valur er með frábæran leikmannahóp. Í augnablikinu er þetta ekki í okkar höndum í deildinni en við þurfum bara að gera okkar, mæta í alla leiki og klára þá,“ sagði Gunnhildur Yrsa við Morgunblaðið.