[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Fréttaskýring

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is Mikil samstaða virðist ríkja um það meðal demókrata í Bandaríkjunum að forsetaefni þeirra, Joe Biden, hafi tekið rétta ákvörðun þegar hann tilkynnti á þriðjudaginn að Kamala Harris, öldungadeildarþingmaður fyrir Kaliforníu, yrði varaforsetaefni hans í kosningunum í nóvember. Meðal þeirra sem fagnað hafa vali hennar er Barack Obama, fyrrum forseti. Harris hefur verið lýst sem töffara með harðan skráp sem brotnar ekki undan hörðum og illgjörnum árásum pólitískra andstæðinga. Það kveður að henni, glæsileg og aðlaðandi, aðsópsmikil og sköruleg í framgöngu, og á auðvelt með að fá fólk til liðs við sig.

Harris, sem er 55 ára gömul, er dóttir innflytjenda; faðirinn frá Jamaíka og móðirin indversk. Þau skildu og ólst Harris upp hjá móðurinni með systur sinni. Hún bjó í fimm ár í Kanada, en gekk í lagaskóla í Washington og Kaliforníu þar sem hún átti glæsilegan feril sem saksóknari áður en hún var kjörin á þing fyrir sex árum.

Ef skoðanakannanir ganga eftir vinnur Joe Biden sigur á Donald Trump í forsetakosningunum. Harris yrði þá fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna. Margir telja að Biden muni ekki sitja í embætti nema eitt kjörtímabil, nái hann kjöri, enda er hann kominn fast undir áttrætt. Harris yrði þá í mjög sterkri stöðu sem forsetaefni demókrata í kosningunum 2024.

Joe Biden er demókrati af gamla skólanum en Harris aðhyllist róttækari skoðanir á ýmsum sviðum, er vinstrisinnaðri, ekki síst í afstöðu til félagsmála og mannréttinda. Hún er t.d. hlynnt hjónaböndum samkynhneigðra og andvíg dauðarefsingum, og á þar samhljóm með yngri kynslóðum demókrata. Hún vill líka koma á heilbrigðisþjónustu í anda evrópskra velferðarríkja. Verður afstaða hennar til heilbrigðismála án efa eitt af því sem Trump og repúblikanar munu reyna að notfæra sér til að koma höggi á hana, enda telja þeir ókeypis læknisþjónustu fyrir almenning vera sósíalisma af verstu sort og hefur sú skoðun átt mikinn hljómgrunn vestanhafs.

Kamala Harris hefur verið óhrædd við að segja skoðun sína umbúðalaust. Hefur hún verið harður gagnrýnandi Trump forseta og embættisverka hans og ekki skafið utan af því þegar hún hefur gefið honum og verkum hans einkunnir. Þá vakti mikla athygli hve vasklega hún gekk fram í yfirheyrslum þingsins þegar Brett Kavanaugh var tilnefndur í embætti hæstaréttardómara og William Barr í embætti dómsmálaráðherra.

Þrátt fyrir að vera meira til vinstri en margir í Demókrataflokknum hefur Harris sætt gagnrýni úr þeirri átt fyrir að hafa verið hörkutól í saksóknaraembættunum sem hún gegndi, sökuð um að fylgja of ósveigjanlegri refsistefnu og ekki beita sér nægilega fyrir umbótum innan lögreglunnar og réttarkerfisins. Ekki er þó líklegt að sú gagnrýni verði henni að fótakefli eins og staðan er núna. Byrinn virðist með henni.

Kamala Harris
» Fædd 20. október 1964.
» Gift lögfræðingnum Douglas Emhoff og stjúpmóðir tveggja barna hans frá fyrra hjónabandi.
» Lagapróf frá Howard University og Kaliforníuháskóla
» Ríkissaksóknari í Kaliforníu frá 2010 til 2014.
» Öldungadeildarþingmaður frá 2014.