Róbert Róbertsson fæddist 27. maí 1943. Hann lést 1. júní 2020.

Útför Róberts fór fram í kyrrþey hinn 16. júní 2020.

Elskulegur uppeldisbróðir og frændi kvaddi okkur um síðastliðna hvítasunnu. Róbert var alinn upp af móðursystur sinni Dóru sem gekk honum í móðurstað og ólst hann upp með okkur systkinunum sem bróðir. Hann var mörgum kostum búinn, ljúfur, þolinmóður og barngóður. Hann hafði einstakt jafnaðargeð, kvartaði aldrei og talaði aldrei illa um nokkurn mann. Hann brá sér oft í hlutverk sáttasemjara þar sem hann var friðelskandi og mikill mannvinur. Hann hafði einnig góða kímnigáfu, hann gat verið stríðinn en þó aldrei rætinn. Það var alltaf létt og skemmtilegt andrúmsloft í kringum Róbert jafnvel þótt hann hafi ekki alltaf átt auðvelt líf. Hann missti bæði eiginkonu og son með stuttu millibili sem tók mikið á hann en þrátt fyrir þá erfiðu lífsreynslu sýndi hann ávallt fjölskyldu sinni hlýju og umhyggjusemi. Hann sýndi alltaf svo mikið þakklæti þegar honum voru færðar gjafir eða smáræði, alltaf tók hann upp símann og þakkaði aftur sérstaklega vel fyrir sig. Honum var umhugað um alla í stórfjölskyldunni í hvert sinn sem einhver var veikur eða var að glíma við hverskyns raunir þá var hann manna fyrstur til að vitja um viðkomandi. Hann hringdi alltaf reglulega í okkur systkinin og mömmu þar sem hann vildi fá fréttir af okkur öllum sem honum þótti svo vænt um og var það svo sannarlega gagnkvæmt.

Róbert bjó yfir miklum listrænum hæfileikum, var góður teiknari og málari. Hann lærði til smiðs og húsgagnasmíði, allt lék í höndunum á honum. Þar eru mörg sköpunarverkin og völundarsmíðin sem hann skilur eftir sig og var hann okkur öllum oft innan handar ef einhver stóð í framkvæmdum. Við syskinin fengum að njóta þess að alast upp með Róbert. Hann var svo sannarlega góð fyrirmynd og stóri bróðir fyrir okkur. Sérstaklega er okkur Lilju og Önnu, eldri systrunum minnisstætt þegar hann einu sinni sem oftar var að passa okkur og sagði okkur þá skemmtilegar sögur. Frásagnargáfa hans og leikrænir tilburðir voru framúrskarandi og þessar stundir voru skemmtilegri en sjónvarp og bíó. Hann átti það líka til að setjast með okkur og teikna og hjálpaði okkur oft að skreyta minningarbækur í barnaskóla, listaverk sem við varðveitum enn og eru okkur dýrmæt.

Honum þótti mikið vænt um Dóru mömmu og liðu aldrei margir dagar án þess að þau töluðu saman í síma eða hittust í kaffi. Hann heimsótti mömmu oft í Miðleytið og áttum við þar margar ánægjulegar samverustundir stórfjölskyldan. Þrátt fyrir að heilsa hans hafi farið versnandi síðustu misseri, taldi hann það ekki eftir sér að heimsækja mömmu á hjúkrunarheimilið sem gladdi hana alltaf mikið því þar var svo sannarlega kært samband þeirra á milli.

Við kveðjum elsku Róbert okkar með sárum söknuði en eigum ótal dýrmætar minningar sem munu ylja okkur um ókomin ár.

Elsku Hulda María, Erna Bryndís og synir Sigurðar Arnars, megi Guð gefa ykkur og fjölskyldum ykkar styrk og ljós á þessum erfiðu tímum.

Mamma Dóra og börn.