Meira hefur verið um minni óhöpp á borði Landsbjargar í sumar en búist var við. Þetta segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg.

Meira hefur verið um minni óhöpp á borði Landsbjargar í sumar en búist var við. Þetta segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg. Jónas segir að sumarið hafi verið að mestu stórslysalaust og að lítið hafi verið um óhöpp þar sem erlendir ferðamenn ættu í hlut.

Miklir vatnavextir hafa verið á suðvesturhorni landsins síðustu daga, en Landsbjörg hefur unnið að því að tryggja öryggi á svæðinu.

„Það er óeðlilegt að það séu vatnavextir í svona langan tíma,“ segir Jónas, en rennsli í sumum ám á hálendinu er meira en það hefur verið í nokkur ár.

Landsbjörg hefur verið í góðu sambandi við aðila á svæðinu, og hefur auk þess miðlað upplýsingum til ferðafólks.

Vætusöm tíð á vestanverðu landinu hefur hækkað vatnsstöðu í ám og lækjum þar. Spáð er talsverðri úrkomu þar í dag svo gera má ráð fyrir áframhaldandi hárri vatnshæð á Vesturlandi, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Ferðafólk er hvatt til sýna sérstaka aðgát við vatnsföll og vöð, það á einnig við um ár á sunnanverðu hálendinu þar sem há vatnsstaða hefur mælst undanfarna daga.