Ósló Norðmenn njóta veðurblíðu í höfuðborginni Ósló fyrr í sumar.
Ósló Norðmenn njóta veðurblíðu í höfuðborginni Ósló fyrr í sumar. — AFP
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, ákallaði þjóð sína er hún kynnti ásamt Bent Høie heilbrigðisráðherra nýjar ráðstafanir í rimmunni við kórónuveiruna á blaðamannafundi í Ósló í gær.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, ákallaði þjóð sína er hún kynnti ásamt Bent Høie heilbrigðisráðherra nýjar ráðstafanir í rimmunni við kórónuveiruna á blaðamannafundi í Ósló í gær. Lagði hún að landsmönnum sínum að fara stíft eftir ráðstöfunum sem ætlað er að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Norsk stjórnvöld telja stöðuna ískyggilega og ákváðu að flýta frekari takmörkunum til ferðalaga.

Meðal ákvarðana Norðmanna er að frá og með miðnætti á föstudagskvöld fær Ísland rauða stöðu á kórónuveirukorti norskra stjórnvalda ásamt Hollandi, Póllandi, Möltu, Kýpur og Færeyjum. Frá þessum löndum þurfa ferðemenn að fara í 10 daga sóttkví við komuna til Noregs.

Svæði og bæir í Svíþjóð og Danmörku falla einnig í rauða flokkinn, svo sem Värmland, Östergötland, Örebro, Blekinge, Uppsala og Dalarna í Svíþjóð, Sjáland utan Kaupmannahafnar og Mið-Jótland. Fyrr á árinu nutu Danir þess að verða fyrsta landið sem Norðmenn afléttu ferðabanni til.

Solberg sagðist fyrir alla muni vilja komast hjá því að loka fyrirtækjum og stöðva framleiðslugreinar eins og fyrr á árinu. Hún sagði ástandinu hafa hrakað í Noregi og öðrum Evrópulöndum undanfarið og hefði vaxandi veirusmit knúið á um nýju ráðstafanirnar. Sagði hún það og eindregna ósk stjórnar sinnar að fólk legðist ekki í ónauðsynleg ferðalög. Gilda þau tilmæli til 1. október nk.

Áhugaverð reynsla á Íslandi

Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, hvatti Norðmenn í samtali við norska Dagblaðið í gær til að fresta sumarleyfum til haustsins og njóta þeirra í heimalandinu.

„Það öruggasta er að verja fríinu innanlands. Augljóslega verðum við að forðast óþarfa ferðalög til útlanda. Smitstaðan breytist hratt, í gulu löndunum gæti hún breyst bæði áður en farið er í frí og meðan á haustfríi stendur,“ segir Høie.

Hann undirstrikar að ríkisstjórnin vilji ekki þvinga fólk sem kemur frá löndunum í gula flokknum til að fara í veirupróf eftir heimkomuna og segir reynsluna frá Íslandi í því sambandi áhugaverða.

„Það er áhugavert nú að skoða reynsluna frá Íslandi, sem skyldaði ferðamenn í próf og er nú í rauðum flokki. Við munum skoða vel reynsluna þaðan áður en við gerum eitthvað álíka í Noregi,“ sagði ráðherrann. agas@mbl.is