[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gréta María Grétarsdóttir er fædd 13. ágúst 1980 í Reykjavík en ólst upp á Flateyri. „Pabbi var skipstjóri á togaranum Gylli á Flateyri.

Gréta María Grétarsdóttir er fædd 13. ágúst 1980 í Reykjavík en ólst upp á Flateyri. „Pabbi var skipstjóri á togaranum Gylli á Flateyri. Reykjavík togaði alltaf í mömmu sem er alin upp í Reykjavík og þegar yngstu systkini mín fæðast þá flytjum við fljótlega suður. Ég fer þá í Seljaskóla sem var þá fjölmennasti grunnskóli á landinu eftir að hafa verið í Grunnskóla Flateyrar þar sem voru um 60 nemendur.“

Gréta gekk síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð og varð stúdent þaðan frá eðlisfræðibraut 2001. Hún lauk B.Sc.-gráðu í vélaverkfræði 2004 og M.Sc-gráðu í iðnaðarverkfræði 2008 frá Háskóla Íslands. Hún lauk einnig prófi í verðbréfaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík 2019.

Gréta var ráðgjafi í upplýsingatækni og sérfræðingur í gæðamálum hjá Kögun/VKS 2004-2007, sérfræðingur við fjárstýringu hjá Sparisjóðabankanum 2007-2009 og sérfræðingur í lausafjárstýringu hjá Seðlabankanum 2009-2010. Hún var forstöðumaður Hagdeildar hjá Arion banka 2010-2016, fjármálastjóri Festi 2016-2018 og framkvæmdastjóri Krónunnar 2018-2020. Hún hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2019 fyrir að hafa markvisst lagt áherslu á umhverfis- og lýðheilsumál í rekstri Krónunnar. Hún hefur sinnt kennslu bæði við HÍ og HR. Gréta var í júní skipuð formaður stjórnar hins nýstofnaða Matvælasjóðs.

„Bakgrunnurinn úr verkfræðinni hefur komið sér vel í því að takast á við þessi ólíku verkefni og ég hef kynnst frábæru fólki á hverjum stað. Það sem drífur mig áfram er að geta hjálpað öðru fólki að vaxa og ég held að með því að byggja upp gott lið þar sem allir fá að vinna á sínum styrkleikum þá komi aðrir hlutir nánast af sjálfu sér. Ég hef verið virk í LeiðtogaAuði í Félagi kvenna í atvinnulífinu og er líka í frábærum félagsskap úr verkfræðinni sem nefnist Saumavélin, þar sem flestar okkar vorum í vélaverkfræði.“

Gréta er fyrrverandi Íslandsmeistari og landsliðskona í körfubolta og var valin efnilegasti leikmaðurinn árið 1994. „Það er mikill áhugi á íþróttum í bæði móður- og föðurfjölskyldu og það skilaði sér. Ég prófaði ásamt systkinum mínum margar íþróttir en að lokum varð karfan fyrir valinu. Við unnum alla titla upp yngri flokkana í ÍR þar sem ég var í góðu liði þar sem kjarninn var stelpur úr sama árgangi í Seljaskóla. Eftir yngri flokkana í ÍR skipti ég yfir í KR þar sem við urðum tvö ár í röð Íslands- og bikarmeistarar.“ Þær urðu Íslands- og bikarmeistarar 2001 og 2002.

„Ég hætti reyndar snemma í körfunni þar sem ég meiddist og sneri mér þá að þjálfun meistaraflokks KR aðeins 23 ára en ég var þó með mikla reynslu enda búin að þjálfa í 10 ár.“ Gréta var valin þjálfari ársins strax á sínu fyrsta ári.

„Í gegnum íþróttirnar er maður svo lánsamur að hafa kynnst mjög mörgu fólki og þar á meðal manninum mínum en við kynntumst úti á körfuboltavelli í Seljahverfinu. Við eigum þrjú börn, tvo stráka sem eru 14 og 9 ára. Við gerum ekkert skemmtilegra en að fylgja strákunum okkar eftir í þeirra íþróttum. Við eigum svo eina stelpu sem verður 1 árs í september. Við höfum grínast með það og samt í smá alvöru að hún fari í körfuna eins og foreldrarnir.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Grétu er Jón Viðar Ágústsson, f. 25.6. 1977, þjónustufulltrúi. Þau eru búsett í Reykjavík. Foreldrar Jóns Viðars: Hjónin Ágúst Guðjónsson, f. 20.3. 1943, kokkur, búsettur í Reykjavík, og Ragnheiður Ágústsdóttir, f. 21.12. 1948, d. 5.7. 2020, matráður.

Börn Grétu og Jóns Viðars eru Daði Berg Jónsson, f. 11.6. 2006, Ari Berg Jónsson, f. 22.5. 2011, og Ásta María Jónsdóttir, f. 15.9. 2019.

Systkini Grétu eru Herdís Gústavs, f. 5.6. 1969 (hálfsystir sammæðra), búsett í Dúbaí; Eva María Grétarsdóttir, f. 6.4. 1983, í fæðingarorlofi, búsett í Reykjanesbæ; Daníel Berg Grétarsson, f. 15.5. 1985, sjómaður, búsettur í Kópavogi; Daði Berg Grétarsson, f. 5.4. 1991, sjómaður, búsettur í Þorlákshöfn, og Daníela Grétarsdóttir, f. 5.4. 1991, búsett í Þorlákshöfn.

Foreldrar Grétu eru hjónin Grétar Már Kristjánsson, f. 8.12. 1945, skipstjóri, og Lára Sigurlaug Þorsteinsdóttir, f. 9.9. 1952, húsmóðir og verslunarkona. Þau eru búsett í Reykjavík.