[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir liljahrund@mbl.is Viðbrögð Svía við heimsfaraldri kórónuveirunnar hafa sætt mikilli gagnrýni víða um heim. Dánartíðni í Svíþjóð er ein sú hæsta í Evrópu miðað við höfðatölu, en yfir 5.

Baksvið

Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir

liljahrund@mbl.is

Viðbrögð Svía við heimsfaraldri kórónuveirunnar hafa sætt mikilli gagnrýni víða um heim. Dánartíðni í Svíþjóð er ein sú hæsta í Evrópu miðað við höfðatölu, en yfir 5.500 hafa látist af völdum veirunnar frá upphafi faraldursins.

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, hefur viðurkennt að of margir hafi látist af völdum veirunnar í landinu, en segir þó, að ekkert bendi til þess að útgöngubann hefði skilað annarri útkomu. Aðgerðir yfirvalda í Svíþjóð hafa að mestu leyti miðað að því að hvetja íbúa til að gæta að einstaklingsbundnum smitvörnum, ásamt því að samkomutakmörk hafa verið við 50 manns. Yfirvöld í Svíþjóð hafa margsinnis talað um baráttuna við veiruna sem maraþon en ekki spretthlaup og því hafi verið gripið til aðgerða sem raunhæft er að viðhalda til lengri tíma.

Segir faraldrinum lokið

Sænski læknirinn Sebastian Rushworth ritaði nýverið pistil sem birtist á vefsíðu breska miðilsins Spectator. Þar greinir Rushworth frá því að hann hafi ekki sinnt sjúklingi með COVID-19-öndunarfærasjúkdóminn í meira en mánuð og að faraldrinum sé svo gott sem lokið í Svíþjóð. „Fjölmiðlar hafa haldið því fram að aðeins lítil prósenta þjóðarinnar sé með mótefni og þar með sé það ómögulegt að hjarðónæmi myndist. Ef hjarðónæmi hefur ekki myndast, hvar er allt veika fólkið? Af hverju hefur tíðni smita lækkað svona?“ spyr Rushworth.

90% næm fyrir veirunni

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir ummæli Rushworth „óvarleg og gáleysisleg“. „Á Stokkhólmssvæðinu til dæmis, þar sem aðgerðir hafa verið frekar afslappaðar, hafa í mesta lagi 10% fengið veiruna, sem þýðir að um 90% eru enn næm fyrir veirunni. Jafnvel þó að veiran hafi tímabundið dottið niður í Stokkhólmi, þýðir það ekki að íbúar þar séu sloppnir fyrir horn. Á meðan þorri þjóðarinnar er næmur fyrir veirunni, þá getur smit breiðst út, nema þú gerir ráðstafanir í samfélaginu eins og við höfum gert hér á landi,“ segir Már.

Mikið hefur verið talað um það hér á landi að samfélagið þurfi að læra að lifa með veirunni. Spurður hvort það geti þýtt svipaðar ráðstafanir og gerðar voru í Svíþjóð segir Már: „Það er ekki víst að þótt við myndum grípa til sömu aðgerða og í Svíþjóð væri atburðarásin sú sama. Hún gæti verið það, hún gæti verið verri eða hagfelldari. Ef þorri þjóðarinnar er næmur og smitefni kemst inn, þá er voðinn vís. Ég hugsa að það sé viðbúið að það verði staðan þar til tekst að þróa bóluefni. Við sem samfélag á Íslandi verðum bara að sammælast um hvað hentar best til að reyna að takmarka það,“ segir Már.

Töluverður samdráttur

Þrátt fyrir að Svíar hafi gripið til vægari sóttvarnaaðgerða en hin norrænu ríkin, virðist það ekki hafa skilað neinum eftirtektarverðum árangri þegar kemur að því að takmarka afleiðingar faraldursins fyrir hagkerfi Svíþjóðar.

Aðgerðir í Svíþjóð miðuðu ekki sérstaklega að því að takmarka efnahagslegt tjón en yfirvöld hafa þó sagt að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til væru til þess fallnar að stemma stigu við atvinnuleysi og milda áhrif faraldursins á rekstur fyrirtækja.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC mun hagkerfi landsins dragast saman um 5% vegna faraldursins, sem er svipað og gert er ráð fyrir annars staðar á Norðurlöndunum, þrátt fyrir að könnun skandinavíska bankans SEB bendi til þess að Svíar hafi eytt að meðaltali meira fé til almennrar neyslu síðustu mánuði en íbúar annarra Norðurlanda. Þá er atvinnuleysi á Norðurlöndunum mest í Svíþjóð, um 9%.