Ógnarvinsæl Dirty Dancing sló í gegn árið 1987, kostaði 5 milljónir dollara í framleiðslu en skilaði um 218 milljónum.
Ógnarvinsæl Dirty Dancing sló í gegn árið 1987, kostaði 5 milljónir dollara í framleiðslu en skilaði um 218 milljónum.
Rómantíska dansdramamyndin Dirty Dancing , eða Í djörfum dansi , hefur nú ratað aftur á lista yfir best sóttu kvikmyndir Bretlands eftir að bíóhús voru opnuð þar að nýju í júlí.

Rómantíska dansdramamyndin Dirty Dancing , eða Í djörfum dansi , hefur nú ratað aftur á lista yfir best sóttu kvikmyndir Bretlands eftir að bíóhús voru opnuð þar að nýju í júlí. Og nú berast fréttir af því að framhaldsmynd sé væntanleg og ekki nóg með það heldur mun ein af stjörnum upphaflegu myndarinnar, Jennifer Grey, leika í henni og að sjálfsögðu sjálfa Baby. Jon Feltheimer, forstjóri Lionsgate Films sem framleiða mun myndina, heitir því að myndin muni svala þörfum aðdáenda frummyndarinnar hvað varðar rómantík og fortíðarþrá. Fyrir þá sem ekki vita fjallar Í djörfum dansi um Frances „Baby“ Houseman, unga stúlku sem fellur fyrir danskennaranum Johnny Castle, sem leikinn var af Patrick heitnum Swayze, á meðan hún er í sumarfríi með fjölskyldu sinni. Castle kennir Baby að elska og dansa, eins og sagði í gagnrýni Sæbjörns Valdimarssonar í Morgunblaðinu í nóvember 1987. Spáði hann því síðar að myndin myndi njóta mikilla vinsælda þegar hún kæmi út á VHS-spólu og reyndist heldur betur sannspár.

Um framhaldsmyndina er lítið vitað en þó það að Jonathan Levine mun leikstýra henni. Eitt er þó víst að í henni verður stiginn djarfur dans enn og aftur.