Útgefandi Guðjón Baldvinsson hér með nýjustu tölublöð Heima er bezt.
Útgefandi Guðjón Baldvinsson hér með nýjustu tölublöð Heima er bezt. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Útgáfan á Heima er bezt, einu elsta tímariti landsins, er nú til sölu. Guðjón Baldvinsson ritstjóri og útgefandi hyggst nú snúa sér að öðrum viðfangsefnum og hefur látið boð út ganga um að reksturinn sé falur.

Útgáfan á Heima er bezt, einu elsta tímariti landsins, er nú til sölu. Guðjón Baldvinsson ritstjóri og útgefandi hyggst nú snúa sér að öðrum viðfangsefnum og hefur látið boð út ganga um að reksturinn sé falur. Síðasta blaðið frá hans hendi kom út fyrir þremur vikum. „Nokkrir hafa sýnt áhuga með kaup í huga en ekkert er frágengið enn þá. Að undanförnu hef ég fundið vel að margir hafa sterkar tilfinningar til blaðsins og telja mikilvægt að útgáfunni sé haldið áfram,“ segir Guðjón.

Saga Heima er bezt nær allt aftur til ársins 1951. Fyrstu árin var blaðið gefið út af Norðra, forlagi Sambands íslenskra samvinnufélaga. Fáum árum síðar tók Bókaforlag Odds Björnssonar á Akureyri við útgáfunni og var með í áratugi. Eftir það bókaútgáfan Skjaldborg, þá með Guðjón sem ritstjóra. Hann gerðist svo útgefandi blaðsins fyrir 17 árum.

„Efnið er fjölbreytt; fróðleikur úr ýmsum áttum og þá ekki síst þjóðlegt efni. Viðtöl, ferðagreinar, framhaldssögur, frásagnir af merkum atburðum og stöðum, efni sem fólki finnst vert að skrá og geyma öðrum til fróðleiks, og svona gæti ég haldið áfram. Heima er bezt er líklega eina ritið á þessu sviði um þessar mundir, sem kemur jafn oft og reglulega út, en frá upphafi hafa alltaf komið út 12 tölublöð á ári. Þegar litið er til baka þá er í Heima er best ómetanlegur fróðleikur um líf og störf þjóðarinnar á löngum tíma,“ segir Guðjón Baldvinsson að síðustu. sbs@mbl.is