[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Faxaflóahafnir ætla á næstunni að ráðast í dýpkunarframkvæmdir á Viðeyjarsundi, utan Vatnagarða og nýs Sundabakka.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Faxaflóahafnir ætla á næstunni að ráðast í dýpkunarframkvæmdir á Viðeyjarsundi, utan Vatnagarða og nýs Sundabakka. Skip Eimskips leggjast að þessum bakka og þar sem félagið er að taka í notkun ný og stór flutningaskip er talið nauðsynlegt að tryggja 10,7 metra dýpi á snúningssvæði fyrir skipin fyrir utan bakkann.

Sem kunnugt er af fréttum er það fyrra af tveimur stórum gámaskipum Eimskips, Dettifoss, komið í þjónustu félagsins. Seinna skipið, Brúarfoss, er væntanlegt til landsins síðar á árinu. Þetta eru stærstu skip íslenska kaupskipaflotans, 180 metra löng og 31 metri á breidd. Þau mælast 26.169 brúttótonn og rista fullhlaðin rétt rúmlega 10 metra.

Þær upplýsingar fengust hjá Faxaflóahöfnum að stefnt væri að því að auglýsa útboð í september nk. og verkið yrði svo unnið næsta vetur.

Fjarlægja laust efni

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að fyrirhuguð dýpkun skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Fram kemur að framkvæmdin felist að langmestu leyti í því að fjarlægja laust efni en búast megi við klöpp á afmörkuðu svæði í jaðri dýpkunarsvæðisins. Að öllum líkindum verður notuð grafa á pramma til dýpkunar en þó gæti verið að dæluskip yrði notað sem losar efni í einum klumpi eins og um pramma væri að ræða, en það veldur minni gruggmyndun en þegar efni er dælt úr skipi. Klöppin verður fleyguð eða sprengd.

Dýpkunarefnið verður losað í aflagða efnisnámu á hafsbotni suðaustur af Engey en þar hefur verið losað efni síðan árið 2005. Alls hafa þegar verið haugsettir rúmlega 1.000.000 rúmmetrar af dýpkunarefni í þessa námu sem hætt var að nýta til efnistöku fyrir meira en 20 árum.

Í framlögðum gögnum Faxaflóahafna kemur fram að botn á fyrirhuguðu dýpkunarsvæði sé að mestu leyti myndaður úr setlögum. Áður hefur verið dýpkað á stærstum hluta svæðisins og hefur botni því þegar verið raskað. Árið 2016 voru tekin sýni úr botni á svæðinu og styrkur mengunarefna greindur í samræmi við áætlun sem Umhverfisstofnun samþykkti. Teknir voru borkjarnar og efni greint af mismunandi dýpi. Samkvæmt niðurstöðum greininga á þungmálmum og PCB-efnum úr efsta hluta setlaganna innan fyrirhugaðs dýpkunarsvæðis eru efnin á fyrirhuguðu dýpkunarsvæði í flokkum I-III en efni í þeim flokkum má almennt séð varpa í hafið samkvæmt leiðbeinandi reglum um dýpkunarefni sem Umhverfisstofnun hefur gefið út. Ljóst sé að efnið sem losað verður er lítið mengað og ekki þörf á að meðhöndla það sérstaklega áður en því er varpað í hafið. Ekki verði dýpkað á svæðum þar sem mengun kann að vera meiri.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur til 7. september 2020.