Ingveldur Anna Pálsdóttir var fædd á Hofi í Höfðahreppi 12. apríl 1935. Hún lést 6. ágúst 2020.

Hún var dóttir hjónanna Sigríðar Guðnadóttur, f. 1900, d. 1964, húsfreyju frá Hvammi í Holtum og Páls Jónssonar, f. 1899, d.1979, frá Balaskarði í Laxárdal, kennara og skólastjóra á Skagaströnd.

Ingveldur var alin upp á Hofi og á Skagaströnd í stórum systkinahópi. Systkini hennar eru: Kristinn, kennari á Blönduósi, látinn, Guðný húsmóðir í Kópavogi, látin, Jón, kennari og skólastjóri á Skagaströnd og Húnavöllum, býr nú í Mosfellsbæ, Guðfinna, hjúkrunarfræðingur á Blönduósi, látin, Ásdís, póststarfsmaður í Hafnarfirði, býr nú á Selfossi, Edda, verslunarmaður á Skagaströnd, látin.

17. júní 1959 giftist hún Sigmundi Þráni Jónssyni, f. 5. okt 1930, d. 11. des 2007, þá bónda í Gunnhildargerði í Hróarstungu. Þau eignuðust 5 börn: Jón vélvirki, búsettur á Seltjarnarnesi, f. 7. mars 1960, kvæntur Írisi Margréti Þráinsdóttur og eiga þau 2 börn og 1 barnabarn. Sigríður, matreiðslu- og framreiðslumaður, búsett í Fellabæ, f. 5. des 1961, gift Þór Ragnarssyni og eiga þau 3 syni og 4 barnabörn. Anna Birna, fædd 18. jan 1963, d. 23. feb. 1965. Anna Birna lögfræðingur, búsett undir Eyjafjöllum, f. 25. des 1967, gift Sigurði Jakob Jónssyni, f. 30. ág. 1956, og eiga þau 2 börn. Þórhalla, kennari og matvælafræðingur, búsett í Fellum, f. 22. feb 1969, gift Þorgils Torfa Jónssyni og eiga þau samtals 6 börn og 2 barnabörn.

Ingveldur Anna lauk prófi frá Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði 1952 og frá Húsmæðrakennaraskóla Íslands 1956. Sama ár fluttist Ingveldur Anna austur á Fljótsdalshérað og réð sig til starfa sem kennari í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað.

Eftir giftingu bjuggu Ingveldur Anna og Þráinn í Gunnhildargerði til 1963 en fluttu þá að Hallormsstað hvar Ingveldur réð sig til starfa á ný við Hússtjórnarskólann, sem kennari og síðar skólastjóri. Árið 1968 fluttu Ingveldur Anna og Þráinn á Egilsstaði og stuttu síðar í Fellabæ hvar þau byggðu sér reisulegt hús að Lagarfelli 3 og bjuggu þar alla tíð síðan fyrir utan að Ingveldur flutti eftir andlát Þráins 2007 að Dalbrún 1 í Fellabæ og bjó þar þangað til hún flutti á Dyngju, dvalarheimili aldraðra á Egilsstöðum, 2018.

Frá 1968 ráku Ingveldur Anna og Þráinn margvíslega ferðaþjónustu. Bílaleigu og veitingaþjónustu ráku þau í áratugi á Egilsstaðaflugvelli, meðfram þeim rekstri ráku þau einnig Ásbíó á Egilsstöðum í nokkur ár og síðar fyrsta grillskálann á Austurlandi í Vegaveitingum í Fellabæ.

Útför fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 13. ágúst 2020, kl. 14 og verður streymt í mynd fyrir aðra en nánustu fjölskyldu og boðsgesti. Aðgangur að myndstreymi fæst hjá fjölskyldunni.

Það er margs að minnast eftir aldarfjórðungs samleið með tengdamóður minni Ingveldi Önnu Pálsdóttur. Hún var rólynd kona með einstakt jafnaðargeð og mikla jafnréttiskennd.

Hún lagði sig alla fram um að fylgja börnum sínum vel eftir til vegs og virðingar og lagði sig síðar einnig fram um að fylgjast vel með barnabörnum sínum og gladdist mjög við hvern þeirra áfanga.

Ingveldur leyndi oft á sér og var allnokkuð pólitísk, þótt hún léti Þráni sínum það eftir út á við, en var honum stoð og stytta í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hún hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, en fór afar vel með þær skoðanir sínar. Það var oft þegar við komum til hennar, að hún nefndi eitthvað athyglivert um menn eða málefni í Mogganum, sem við lásum bæði daglega og vildi þá vita viðhorf mitt til þess. Oftar en ekki vorum við nú blessunarlega sammála, en ógleymanlegt verður mér samt alltaf góðlátlega brosið hennar, þegar henni þótti að hún hefði hreyft hressilega við mér hvort sem við vorum nú alveg sammála eða ekki í það og það skiptið.

Ingveldur var mikil handverkskona og liggur eftir hana margt einstakt handverkið, sem hún m.a. gaf okkur í gegnum tíðina og er okkur ómetanlegt. Hún var líka mikill náttúruunnandi og lagði mikið upp úr því að njóta náttúrunnar og nýta landsins gögn og nauðsynjar. Hún hafði mikla ánægju af því að tína ber í guðsgrænni náttúrunni okkar góðu og gerði úr þeim margs konar góðgæti. Hrútaberjahlaupið hennar er mér ógleymanlegt og var mikið veislufang.

Hún gaf mér svo margt og ekki er ég í nokkrum vafa um að ég er betri manneskja eftir að hafa átt þessa ánægjulegu samleið með henni, sem aldrei verður fullþökkuð.

Seinustu árin þegar þegar hún var flutt á Dyngju og átti ekki gott um mál hafði ég að uppi hálfgerða einræðu um fjölskylduhagina og það sem helst var í fréttum hverju sinni. Þá var gott að þekkja brosið hennar og látbragðið, sem sagði allt sem segja þurfti.

Elsku Ingveldur, ég er þakklátur fyrir allar góðu stundirnar með þér og minnist þín með hlýju og einlægri virðingu fyrir öllu því sem þú gafst mér og fjölskyldu minni.

Ég óska þess að þú megir hvíla í friði í draumalandinu þínu og njóta þar samverunnar með Þráni þínum og Önnu Birnu litlu.

Þorgils Torfi Jónsson.

Ingveldur er látin eftir alvarlegan heilsubrest síðustu árin. Minning mín um hana nær langt aftur, þegar ég var ekki hár í lofti. Ég man góðviðrisdag að sumri, þau koma akandi í hlað, Þráinn, Ingveldur, Nonni og Sigga. Anna Birna og Þórhalla fæddar talsvert síðar. Það var sól á himni og bjart var yfir minningunni sem ég hygg að hafi verið mín fyrsta um þetta heiðursfólk og fjölskylduvini. Það var bjart yfir öllum minningum sem síðar komu, Ingveldur var mér sem önnur móðir og ég tíður gestur á heimilinu þar sem við Nonni urðum æskuvinir. Ingveldur var einstök geðprýðismanneskja sem ekki þurfti að hækka róminn til að hlustað væri og þau Þráinn einstaklega samrýnd hjón sem gerðu mannlífið miklu betra. Þau voru í ýmsum atvinnurekstri, til dæmis veitingarekstri á Egilsstaðaflugvelli, sem segja mætti að hafi ekki síður verið menningarmiðstöð þar sem dreif að alla flóru mannlífsins og málin voru rædd. Ingveldur var um tíma kennari og skólastjóri húsmæðraskólans á Hallormsstað og hef ég fyrir satt að henni hafi farist það starf vel úr hendi og undrast ekki.

Ég hef hitt nemendur hennar sem nú eru vel við aldur og héldu sambandi við sinn gamla meistara alla tíð. Það verður fámennt við útförina vegna aðstæðna í landinu en þeir eru margir, líkt og ég, sem verða þar í huga og minnast Ingveldar með innilegu þakklæti og virðingu fyrir að hafa verið sú sem hún var. Ég sendi öllum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Stefán Þormar.