Dimmuborgir Skútustaðahreppur hefur farið illa út úr veirufaraldrinum.
Dimmuborgir Skútustaðahreppur hefur farið illa út úr veirufaraldrinum. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er mjög víðtæk vinna. Við erum að skoða alls konar áskoranir sem sveitarfélögin glíma við,“ segir Hanna Dóra Másdóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er mjög víðtæk vinna. Við erum að skoða alls konar áskoranir sem sveitarfélögin glíma við,“ segir Hanna Dóra Másdóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Hanna Dóra situr í samráðsteymi sveitarfélaga vegna kórónuveirunnar sem ráðuneytið skipaði til að vinna með þeim sex sveitarfélögum sem talið er að verði fyrir mestu tekjutapi vegna faraldursins. Alþingi samþykkti 150 milljóna framlag til þessa verkefnis í fjáraukalögum fyrr í sumar.

Upphaflega var áætlað að niðurstöður lægju fyrir í júlí. Það reyndist ekki unnt og nú er stefnt að því að kynna niðurstöður fyrir ríkisstjórn á næstunni.

„Starfshópurinn er að klára að vinna þetta með þessum sex sveitarfélögum. Við fengum knappan tíma í byrjun sumars, aðeins tíu virka daga. Við funduðum með öllum sveitarstjórunum í gegnum Teams og fórum yfir stöðuna hjá hverjum og einum. Það ætti að skýrast núna fyrir helgi hvernig fjármagnið skiptist,“ segir Hanna Dóra.

Þau sveitarfélög sem talið er að hafi orðið verst úti vegna tímabundins hruns í ferðaþjónustu eru Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur, Skútustaðahreppur, Bláskógabyggð, Sveitarfélagið Hornafjörður og Rangárþing eystra. Fyrir liggur að innan þeirra eru á bilinu 36%-52% vinnandi einstaklinga með störf í ferðaþjónustu sem aðalstarf svo ljóst þykir að niðursveiflan kemur sérstaklega illa við þau. Kallað var eftir tillögum frá sveitarfélögunum að atvinnuskapandi aðgerðum eða sértækum aðgerðum til að styðja við atvinnulíf og samfélagið.

„Við erum að skoða það sem snýr að atvinnu og samfélagslegum úrræðum. Við erum ekki að fara inn í fjárhag sveitarfélaganna. Þessar 150 milljónir eru einskonar smurning til að koma hjólunum af stað en svo vinnur allt kerfið með þessu. Það þarf að stilla saman strengina,“ segir Hanna Dóra en í minnisblaði vegna vinnu teymisins kemur fram að skoðað sé hvernig margvíslegar mótvægisaðgerðir stjórnvalda hafi nýst sveitarfélögunum svo sem á sviði vinnumarkaðsaðgerða, menntunar og atvinnumála.

„Samhliða eru einnig rýndar ráðstafanir sem sveitarfélögin sjálf hafa gripið til [er] nýtast til verndar og viðspyrnu fyrir íbúa og atvinnulíf svæðisins. Skoðuð tækifæri tengd öðrum áætlunum ríkisins svo sem byggðaáætlun, samgönguáætlun og öðrum fjármögnuðum aðgerðum stjórnvalda sem hægt er að tengja sveitarfélögin við. Teymið greindi áskoranir sveitarfélaga og stöðu og [tekur] saman hugmyndir sveitarfélaganna að aðgerðum til viðspyrnu til skemmri og lengri tíma,“ segir í áðurnefndu minnisblaði.