Qigong Æfing á Klambratúni í Reykjavík nú á dögunum. Fólk ræktar líkama og sál hvert með sínu móti.
Qigong Æfing á Klambratúni í Reykjavík nú á dögunum. Fólk ræktar líkama og sál hvert með sínu móti. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sálin! Andleg líðan Íslendinga hefur haldist í jafnvægi á COVID-tímum. Sálfræðingar fylgjast þó vel með. Fastir liðir í dagskránni minnka hættu á vanlíðan ungmenna.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hvernig geðheilsa þjóðarinnar þróast á næstu misserum fer eftir ótal þáttum, til dæmis hvernig COVID mun þróast hér á landi, hversu lengi samstaða mun vera meðal þjóðarinnar og hvernig efnahagsástandið verður,“ segir Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og forseti íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík.

„Í rannsókn sem ég og kollegi minn, dr. Linda Bára Lýðsdóttir, gerðum meðal starfandi sálfræðinga kom í ljós að 85% töldu að COVID myndi hafa áhrif á geðheilsu þjóðarinnar. Þá sagði svipað hlutafall aðspurðra að áhrifin kæmu fram innan tólf mánaða. Samkvæmt sömu rannsókn jókst eftirspurn eftir sálfræðiaðstoð á þessum tímum ekki. Reyndar þvert á móti. Nú er þessi eftirspurn hins vegar að aukast segja kollegar mínir mér,“ segir Hafrún við Morgunblaðið.

Skilaboð heyrist áfram

Áberandi hefur verið nú á tímum veirunnar að fólk hefur verið duglegt að hreyfa sig. Hafrún telur því að ekki sé endilega þörf á því átaki til að auka hreyfingu og virkni. Samkvæmt alþjóðlegri rannsókn sem íþróttafræðideild HR tók þátt í að gera meðan fyrsta bylgja COVID gekk yfir kom í ljós að fólk sem stundaði ekki líkamsrækt og hreyfði sig ekkert fór þá af stað. Fólk sem hreyfði sig lítið jók við sig, fór í auknum mæli út að ganga, hlaupa og svo framvegis. Fólk sem fyrir var mjög duglegt í hreyfingu minnkaði hins vegar frekar við sig. Ber þá að taka fram að þessi rannsókn var gerð þegar líkamsræktarstöðvar og sundlaugar voru lokaðar.

„Samkvæmt þessu þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af minni virkni og hreyfingu vegna COVID og samkomubanns. Samt er nauðsynlegt að fylgjast vel með, því virkni er mjög mikilvæg fyrir geðheilsu okkar. Í fyrstu bylgjunni var þríeykið og aðrir duglegir að minna á mikilvægi virkni, þar með talið hreyfingu. Þau skilaboð þurfa að heyrast áfram, óháð aðstæðum,“ segir Hafrún.

Af leikmönnum hefur verið haldið fram að lán í óláni sé að kórónuveiran hafi fyrst komið upp að vori; á tímum þegar sólargangur lengist dag frá degi sem gjarnan gerir fólk bjartsýnna og skapar eftirvæntingu. En nú þegar veiran er komin á kreik að nýju er daginn að stytta og haustið er handan við hornið. Hverju má búast við þá?

Geðheilbrigðiskerfið sé undirbúið

„Við höfum engin fordæmi til að miða við í spám okkar en nærtækt er að skoða efnahagshrunið árið 2008,“ segir Hafrún. „Flestir sem unnu innan geðheilbrigðiskerfisins þá bjuggust við holskeflu fyrst eftir fall bankanna. Svo varð ekki raunin. Áhrifin komu mikið síðar, þá kannski helst vegna afleiddra vandamála. Því er ekkert víst að geðheilsa versni til mikilla muna strax í haust en geðheilbrigðiskerfið verður þó að vera undirbúið.“

Umræðan um áhrifin af völdum COVID hefur öðru fremur snúið að efnahagslegum þáttum, svo sem ferðaþjónustu. Þó hefur veiran leitt af sér altækt ástand með áhrifum á öllum sviðum þjóðlífsins. Þannig lagðist íþróttastarf að mestu leyti niður í vetur og starf grunnskóla raskaðist verulega, þótt ýmsu hafi verið haldið í horfinu.

„Vissulega er aldrei gott að rútína fari úr skorðum og æfingar falli niður. Út frá svo mörgu er börnum og ungmennum mikilvægt að hitta vini og félaga og komast í tómstundir og skóla,“ segir Hafrún. Engin gögn hafa verið birt sem benda til þess að líðan íslenskra barna hafi breyst, til hins verra eða betra, í og eftir fyrstu bylgju COVID. Þá hafi brottfall í íþróttum ekki aukist, skv. Sportabler sem er gagnagrunnur íþróttafélaganna í landinu með upplýsingar um 40.000 íslensk ungmenni og íþróttaiðkun þeirra.

Halda eðlilegu lífi

„Yngriflokkaþjálfarar unnu þrekvirki í fyrstu bylgju COVID þegar íþróttastarf barna lá niðri. Við sjáum í Sportabler hve virkir þjálfarar voru að senda iðkendum æfingar og hvatningu og einmitt halda þeim í eins mikilli rútínu og hægt var. Þessir þjálfarar eiga hrós skilið. Augljóst er að svona ástand gengur þó ekki til lengdar. Þá er ólíklegt að grunnskólabörn þurfi að fara í gegnum þetta ástand aftur, enda segir þríeykið að börn smiti lítið. Daglegt líf grunnskólabarna ætti því ekki að fara mikið úr skorðum í vetur miðað við núverandi þekkingu,“ segir Hafrún og að síðustu:

„Öðru gildir með framhaldsskólanema. Það er til mikils að vinna að halda þeirra lífi sem eðlilegustu. Við vitum að fastir liðir og að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf dregur úr líkum á alls kyns óæskilegri hegðun hjá krökkum á þessum aldri og dregur úr vanlíðan. Það er til mikils að vinna að halda þeirra lífi sem eðlilegustu bæði hvað varðar skóla og skipulagt íþrótta- og tómstundastarf.“