Auk þess að halda úti einum vinælasta hlaðvarpsþætti í heimi lýsir Rogan UFC-bardögum og flytur uppistand.
Auk þess að halda úti einum vinælasta hlaðvarpsþætti í heimi lýsir Rogan UFC-bardögum og flytur uppistand. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinn umdeildi Joe Rogan er einn áhrifamesti fjölmiðlamaður í heimi, hvort sem hann tekur undir það eður ei. Hann skrifaði nýlega undir samning við Spotify um réttinn á hlaðvarpsþætti hans sem metinn er á um 14 milljarða króna. Böðvar Páll Ásgeirsson bodvarpall@mbl.is

Undir lok árs 2009 byrjaði Joe Rogan með hlaðvarpsþátt sinn sem nokkrum mánuðum seinna var nefndur The Joe Rogan Experience og komst um svipað leyti á topp 100 lista yfir vinsælustu hlaðvarpsþættina á iTunes. Á þessum tíma hafði Rogan getið sér orð sem uppistandari, þáttastjórnandi FearFactor og sjónvarpsþulur hjá UFC-bardagasamtökunum.

Þættinum var streymt ókeypis á netinu og til að byrja með settist Rogan niður einu sinni í viku með vini sínum Brian Redban og spjallaði við hann um allt milli himins og jarðar. Eftir því sem vinsældir þáttanna jukust mættu sífellt fleiri í spjall til Rogans; fyrst aðrir vinir en síðar grínistar, bardagamenn, vísindamenn, íþróttamenn og fleiri. Til umræðu í þáttunum hefur alltaf verið það sama: allt milli himins og jarðar.

Í dag er hlaðvarpsþátturinn, sem streymt er í myndbandsformi beint á YouTube, einn sá vinsælasti, ef ekki sá vinsælasti, í heimi. Nokkuð erfitt er að fá áreiðanlega tölfræði um niðurhal hlaðvarpsþátta en Rogan hefur sjálfur sagt að náð sé í þætti hans 190 milljón sinnum í mánuði á hlaðvarpsveitum. Við þetta má bæta fjölda fólks sem horfir á YouTube en þar eru fylgjendurnir 9,2 milljónir og hver þáttur fær milljónir áhorfa.

Óformlegt og langt spjall

Ástæður þessara gífurlegu vinsælda eru margþættar og erfitt að komast að fullu til botns í þeim. Vinsældirnar virðast vinda upp á sig; þ.e.a.s. því vinsælli sem Rogan verður því auðveldara á hann með að fá gesti í þátt sinn sem draga hlustendur og áhorfendur að.

Form þáttanna skiptir miklu máli. Oftast situr Rogan með viðmælanda sínum í tvo til þrjá tíma og spjallið er mjög óformlegt. Auðvitað er það rætt sem viðkomandi hefur frá að segja en ekkert viðfangsefni er heilagt. Oft talar Rogan ofan í viðmælanda sinn svo ekki er hægt að segja að um eiginlegt viðtal sé að ræða.

Þetta form, þar sem rætt er vandlega um hlutina í langan tíma, er einmitt á skjön við þá þróun sem átt hefur sér stað í miðlun upplýsinga síðustu árin með tilkomu snjallsíma og annarra snjalltækja. Sífellt erfiðara er að ná athygli fólks og halda henni og því hafa sjónvarpsstöðvar, sérstaklega vestanhafs, leitað í mjög stutt viðtöl þar sem viðmælandinn nær að koma takmarkað miklu frá sér.

Ef rökfærslu viðmælandans er ábótavant kemur það oft ekki fram í fimm mínútna innslagi. Þegar viðmælandinn situr hins vegar fyrir framan Joe Rogan í tvo tíma og þarf að útskýra mál sitt vel og vandlega er ekki það sama uppi á teningnum.

Segir það sem honum sýnist

Rogan er óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós. Á tímum þar sem lítið þarf til að móðga aðra hafa fjölmiðlamenn lent í því að missa vinnuna vegna skoðana sinna. Rogan er hins vegar ekki í vinnu hjá neinum og getur því sagt það sem honum sýnist þó margir séu honum ósammála um margt.

Þetta frelsi hefur orðið til þess að hlaðvarpsþættir verða sífellt vinsælli. Hver sem er getur gefið út hlaðvarpsþátt og, líkt og Rogan, orðið geysivinsæll án þess að nokkur ráði efnistökum þátta þeirra, líkt og raunin hefur verið í gegnum tíðina. Engin tímamörk eru sett og hægt er að spjalla um viðfangsefnin eins lengi og þarf.

Rogan hefur sjálfur sagt að ástæða vinsælda hans, og annarra hlaðvarpsþáttastjórnanda, sé sú að hægt er að hlusta á hlaðvarpsþætti þegar ekki er hægt að lesa, vera í símanum eða horfa á myndbönd. Hægt er að hlusta á þættina þegar við keyrum, eldum, æfum, tökum til, hengjum upp þvott og svo framvegis. Á sama tíma hefur önnur fjölmiðlun orðið undir í baráttunni við samfélagsmiðla, streymis- og myndbandsveitur.

Fríar sig ábyrgð

Margir eru þó uggandi yfir vinsældum hlaðvarpsþátta eins og Rogans. Þó hann hafi gefið sig út fyrir að feta meðalveginn milli þess sem hann kallar öfgahægri- og öfgavinstrivæng stjórnmála gefur hann nánast hverjum sem er tækifæri til að koma í þáttinn. Menn eins og Alex Jones, stjórnandi InfoWars, sem heldur uppi alls kyns samsæriskenningum, hafa fengið að tjá skoðanir sínar fyrir milljónum hlustenda Rogans.

Margir eru ósáttir við það og vilja ekki veita slíkum mönnum brautargengi. Rogan fríar sig hins vegar ábyrgð, hefur margoft sagst vera „bara grínisti“, ekki fjölmiðlamaður. Hann fái einungis fólk til sín í spjall, ef aðrir vilja fylgjast með þessu spjalli sé það þeirra mál.

Veðja á Rogan og hlaðvarpið

Spotify hefur síðasta eitt og hálfa árið eða svo fært sig upp á skaftið í hlaðvarpsiðnaðnum. Í fyrra keypti sænski streymisrisinn, sem þar til hafði einblínt á tónlist, hlaðvarpsfyrirtækin Gimlet Media og Anchor. Fyrr á þessu ári keypti fyrirtækið íþróttasíðuna The Ringer, sem Bill Simmons stofnaði 2016. The Ringer heldur úti um 30 hlaðvarpsþáttum, þar á meðal The Bill Simmons Podcast sem er einn vinsælasti íþróttaþátturinn á þessu sviði.

Næsta skref var að semja við Joe Rogan um réttinn á þætti hans. 20. maí tilkynnti hann að hinn 1. september yrðu þættir hans gefnir út á Spotify, bæði á myndbands- og hlaðvarpsformi. Þar til í lok árs verður þáttunum einnig streymt á YouTube en eftir áramót einungis á Spotify.

Wall Street Journal heldur því fram að Rogan fái um 100 milljónir bandaríkjadala, jafngildi tæplega 14 milljarða íslenskra króna, fyrir samninginn. „Þeir verða ókeypis og þetta verða nákvæmlega sömu þættirnir,“ sagði Rogan á Instagram við tilefnið. „Þetta er bara leyfissamningur, þannig að Spotify fær ekki að stjórna efnistökum,“ sagði hann ennfremur en mikilvægt hefur verið fyrir Rogan að halda frelsi sínu við þáttagerðina.

Samningurinn er talinn vera mjög áhrifamikill. Rogan á dygga aðdáendur (sumir bera jafnvel húðflúr af andliti hans eða hundsins hans, sem á eigin Instagram-síðu) sem munu að öllum líkindum elta hann yfir á Spotify, til að mynda frá Apple, þar sem flestir hlusta á hlaðvarpsþættina. Þegar fólk er á annað borð komið á Spotify til að hlusta á Rogan vona stjórnendur Spotify að þeir hlusti á aðra hlaðvarpsþætti þar og tónlist einnig. Það geti fært þeim auglýsingatekjur eða jafnvel nýja áskrifendur.

Spotify virðist ætla að veðja á hlaðvarpið fremur en að treysta einungis á tónlist til að borga reikningana. Þó tekjurnar séu miklar og tónlistarmenn kvarti oft sáran undan lágum streymisgjöldum hefur fyrirtækið aðeins nýlega farið að skila hagnaði. Þegar Rogan skrifaði undir var bent á að tónlistarmaður þyrfti tugi milljarða streyma á veitunni til að hala inn eins mikið og Rogan fær fyrir samninginn. Spurning er hversu vel tónlistariðnaðurinn tekur í það.