Vinningstillagan Pálmatrjám verður komið fyrir í turnlaga gróðurhúsum.
Vinningstillagan Pálmatrjám verður komið fyrir í turnlaga gróðurhúsum. — Teikning/hönnun/Karin Sander
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Til stendur að framkvæma raunhæfismat á framkvæmd við gerð listaverksins Pálmatré eftir Karen Sander, sem til stendur að reisa á Vörputorgi í Vogabyggð.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Til stendur að framkvæma raunhæfismat á framkvæmd við gerð listaverksins Pálmatré eftir Karen Sander, sem til stendur að reisa á Vörputorgi í Vogabyggð.

Þetta kemur fram í svari Örnu Schram, sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins. Spurning Vigdísar var svohljóðandi: Hvað er að frétta af pálmatrjánum í Vogabyggð?

Fram kemur í svari Örnu að borgarráð hafi samþykkt að fyrrnefnt raunhæfismat yrði framkvæmt. Í kjölfarið hafi umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar verið falið að vinna úttekt og sé áætlað að vinna hana með óháðum ráðgjafa í tengslum við hönnun Vörputorgs, þar sem verkinu er ætlaður staður.

Fylgir frágangi opinna svæða

„Gert er ráð fyrir að framkvæmd við gerð verksins, þ.m.t. að planta trjám, fylgi frágangi opinna svæða í hverfinu og er hönnun torgsins og uppbygging háð annarri uppbyggingu við torgið og unnin í samráði við lóðareigendur. Ekki eru tafir á framkvæmd,“ segir Arna.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir, lagði fram svohljóðandi bókun í borgarráði:

„Listasafni Reykjavíkur er í raun vorkunn að þurfa að svara þessari fyrirspurn enda ber safnið enga ábyrgð á ákvörðuninni. Pálmatrén í Vogabyggð eru algjört flopp og eru á pari við dönsku Braggastráin og grjóthrúgurnar úti á Granda. Hvers vegna valdi dómnefndin „listaverk“ sem þarf að fara í raunhæfismat? Komi í ljós að listaverkið Pálmatré er ekki raunhæft – sem það er ekki – er Reykjavíkurborg þá ekki skaðabótaskyld gagnvart listamanninum? Það er lenska hjá borginni að byrja sífellt á röngum enda – sérstaklega í gæluverkefnum sínum.“

Tillaga þýska listamannsins Karin Sander, sem nefnist Pálmatré, bar sigur úr býtum í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð í Reykjavík. Þetta var ein viðamesta samkeppni um útilistaverk sem efnt hefur verið til í Reykjavík.

Þrettán tillögur bárust og var dómnefndin einhuga um sigurvegarann. Niðurstaða dómnefndar var kynnt var í janúar 2019 og vakti athygli og umtal. Verk Sander gerir ráð fyrir að tveimur pálmatrjám verði komið fyrir í stórum turnlaga gróðurhúsum og að frá þeim stafi ljós og hlýja, að því er fram kemur á síðu Listasafns Reykjavíkur.

„Pálmatré bera með sér andblæ suðrænna landa, eins og höfundur tillögunnar bendir á. Þau eru tákn heitra og framandi staða og menningar og fela um leið í sér minni um útópíu þar sem paradísarástand ríkir. Hér skjóta þau rótum í köldu og hrjóstrugu landi – rétt eins og fólk frá framandi slóðum sem hefur sest hér að,“ sagði dómnefndin m.a.