— Morgunblaðið/Eggert
Menn voru mældir hundruðum saman eða þúsundum og reyndust sumir neikvæðir, sem auðvitað var jákvætt. En því miður mældust sumir jákvæðir sem var auðvitað neikvætt.

Menn voru mældir hundruðum saman eða þúsundum og reyndust sumir neikvæðir, sem auðvitað var jákvætt. En því miður mældust sumir jákvæðir sem var auðvitað neikvætt. En um 9% höfðu fengið bullandi veiru og fengið smitið staðfest og veikin var vond og eftirköstin mikil, en samt voru þessir menn nú mældir neikvæðir sem var auðvitað fjarri því að vera jákvætt og jafnvel allt að því að vera ósvífið.

Þótt fjárbúum hafi fækkað í landinu frá því sem mest var og laustengt nútímafólk hafi stundum horn í síðu sauðkindarinnar er annar tími ekki langt undan.

Vitsmunafé

Bréfritara þykir sauðfé fara fallega í landinu og kvikfé almennt breyta því sem fyrir ber í kvikmynd.

Frá því að hann fór fyrst að fylgjast með því í Svartárdalnum og víðar tók hversdagsleg mynd smám saman að breytast í undur. Um hásumartíð var hlíðin beggja vegna gullkista þess sem sauðfé sækir í. Maður mundi ætla þegar horft var á þessa mynd að féð hefði getað verið eins og bullur á bar, með allt sem magi og draumheimar þráðu innan seilingar. Því þá í ósköpunum að færa sig úr þessu nægtarbúri? Rollurnar litu þó augljóslega ekki þannig á það. Þegar maður gaut næst upp til þeirra auga frá snúningum, sem manni sjálfum eða hinum hundunum hafði verið sigað í, höfðu þær fært sig með lömbin sín hundruð metra og jafnvel hátt upp í hlíð þar sem minnst virtist vera að hafa.

Það varð ekki betur séð en hver og ein rolla væri hokin af sambærilegri þekkingu og doktor í matvælafræði, náttúru- og jarðvegssérfræðingur hefðu þurft að leggja saman í til að standa jafn vel að vígi.

Og allt þetta hafði rollan lært um örstutt sumarskeið þegar hún fór þarna um eða svipaða slóð með henni mömmu sinni. Hún vissi það sjálfsagt ekki þá að það var upp á líf og dauða að fylgjast með fyrirlestrunum hennar mömmu. En hún sveikst samt ekki um það.

Og nú var það hún, Dísa dósent í náttúrufræði, sem hafði alla athygli síns ungviðis.

Aðgát skal höfð

Bréfritara, sem vissi ekkert um þetta þá og enn minna nú, þótti augljóst vera, eftir því sem litla samhenta fjölskyldan flutti sig til í brattri hlíð, að öll væri sú ferð byggð á sundurgreindri þekkingu á náttúrunni, niður í það allra smæsta, og hávísindalegri aðferð og var ekki önnur betri til. Öllu hafði verið til haga haldið og miðlað til hverrar kynslóðar, þótt ungviðið hefði aðeins hina misviðrasömu sumarglennu til að nema hin flóknu fræði.

Eftir því sem meira er girt í hugsunarleysi er gengið á þennan ómetanlega þekkingargrunn.

Um þetta veit bréfritari auðvitað nægilega lítið til þess að geta látið gamminn geisa og heldur því áfram í sama dúr. Sauðfé, eins og hross, gerir mannamun í sínu samfélagi og ekki kæmi á óvart þótt það eignaðist ævilanga vini og saknaði þeirra sárt, eins og hrossin gera, þegar tilfinningasljóir óðagotsmenn flytja þau tilviljanakennt burt frá besta vininum og það þótt engin efni standi til þess.

Þá syngja augu hrossanna hendingu Davíðs: „Ég heyri álengdar hófadyninn, ég horfi langt á eftir þér....“

Sendiherrar í sveit

Löngu fyrir daga uppeldisfræðinganna voru börn, einkum strákar, send í sveit, jafnvel sumar eftir sumar. Rítalín uppeldisbiskup var þá ekki til, enda var hans síður þörf á þessum árum. Á veturna var amma heima í peysufötunum með skotthúfuna og strákarnir gátu spurt um sumt sem þeir hefðu ekki spurt aðra um. Kynslóðirnar gengu að þessu vísu: „Hún trúði þessu hún amma mín, ég efaði ei það, að allt það væri satt er hún sagði um þann stað.“

Á þeim tíma þóttu 350 kílómetrar töluverðar fjarlægðir og fæstum datt í hug að sækja „sendiherrana“ heim um sumartímann. Og það var ekki gert ráð fyrir því þá að börn væru að hringja langlínusímtöl og síst í sveitasímanum eins og var þar hjá góðu fólki.

Margs að sakna

Það má vel vera að stundum hafi ekki tekist vel um sambúð sumarbarna og þeirra sem tóku þau að sér og nýttu til léttra snúninga og veittu útrás og vinnu sem ekki var völ á í þéttbýlinu. En dæmin eru hins vegar mörg um að sendingin í sveitina reyndist giftudrjúgt innlegg í að gera dreng að manni í besta skilningi orðsins og vitnisburðir um það eru víða til. Sennilega eru þeir þó um það bil að týnast.

Sumarfríið úr skólum var langt í þann tíð, svo að kennarar gátu jafnvel bætt sér upp heildarlaun með aukavinnu, og helst vildu margir fást við útivinnu til að hressa og stæla kyrrsetumanninn.

Þjóðfélagsgerðin tók svo breytingum og allt í sömu átt. Vélvæðing sveitanna gerði þær ekki eins öruggar og barnvænar og áður og þrýstingur á að báðir forsvarsmenn barna kæmust sem fyrst í launaða vinnu utan heimilis eða lykju námi sem tryggði slíkt.

Og þótt ýmsum hafi þótt þessar breytingar koma hægt og hikandi þá voru þær næsta fljótar í förum, að minnsta kosti þegar horft er til baka yfir aldanna skeið.

Þjóðfélag, sem hafði lítið breyst, fór eins og í gegnum margar byltingar á örfáum áratugum þótt ekki væru þær beinlínis blóðugar.

En það má ekki gleyma því að fyrirvinnur heimilanna höfðu ætíð verið tvær. Þannig var það auðvitað á hefðbundinni búskapartíð og vinnudagur hinnar „heimavinnandi húsmóður“ var langur og hlífðarlítill. Hið stutta milliskeið hér á landi, þar sem konur voru heimavinnandi í þéttbýli, var annar hlutur. En þó er vafalaust að einnig þá tryggði hlutur heimavinnandi makans einnig miklu meiri efnahagslega búbót en látið hefur verið og mætti sjálfsagt renna traustum stoðum undir þá fullyrðingu.

Inn á þann reikning kæmi fjölmargt sem liggur ekki í augum uppi án athugunar og mætti þá ekki láta uppskafningslega fordóma nútímans rugla sig við slíkt mat.

Það breytir ekki hinu að þróunin var í senn tímabær, óhjákvæmileg og þörf og hún gaf fólki mun víðfeðmari tækifæri en áður þekktust.

En það má ekki láta á móti sér að viðurkenna að verðleikum fyrri tíðar hætti, sem ekkert hefur komið í staðinn fyrir og tók flestu fram.

Endurtekið efni

Á tímum kórónuveiru (tilgerðarmenn kalla hana Covid-19!) verður margur háðari sjálfum sér um kompaní en endranær. Og það hefur komið í ljós að ýmsir hafa uppgötvað að þeir voru fyrir löngu orðnir ófærir um að þola samlífið með sjálfum sér um svo langa hríð án þess að fá það brotið upp reglulega.

Menn hafa verið svo miklar félagsverur að þeir hafa komist hjá því að sitja uppi með sjálfan sig nema örskamma stund hvers dags, svo sem á snyrtingunni. En þar hjálpaði að í mörgu var að snúast sem hentaði ekki fyrir fjölmenni. Nú er sagt að veiran vonda nái til þeirra sem hún smitar ekki með því að koma í þá ósýnilegum þræði þunglyndis úr órafjarlægð. Þeir, sem næmastir eru fyrir, geta jafnvel farið verr út úr þessum ve(i)ruleika en hinir sem smitast beint, en þá er ekki verið að tala um öndunarvélar og þaðan af meiri átök.

Við þetta afbrigði veirunnar hafa menn ríka þrá og sterkan vilja til að lyfta sér upp. Og þegar flest skemmtilegt er lokað og hálfbjálfalegt að fara um eins og bankaræningi og með bláa hanska vikum saman, er fátt eftir nema skjárinn. „Auðvitað opnar maður ekki tölvupóst frá Kína“ er þreyttasti brandarinn á netinu og hinir eru skammt undan. En þá bregður svo við að á skjánum er ekkert nema endurtekið efni, svo eins mætti sitja undir endurvarpi á útsendingum þríeykisins og reyndar er hver þeirra funda nú orðinn með þeim brag og ekki gott við að gera. Tölur um smit, tölur um einangrun, tölur um sóttkví og fæstir muna hver er munurinn á þessu tvennu, og rakin smit og ekki rakin smit. Menn voru mældir hundruðum saman eða þúsundum og reyndust sumir neikvæðir, sem auðvitað var jákvætt. En því miður mældust sumir jákvæðir sem var auðvitað neikvætt. En um 9% höfðu fengið bullandi veiru og fengið smitið staðfest og veikin var vond og eftirköstin mikil, en samt voru þessir menn nú mældir neikvæðir sem var auðvitað fjarri því að vera jákvætt og jafnvel allt að því að vera ósvífið. Allt þetta tal er auðvitað ekki hjálplegt fyrir þá sem fengu þunglyndisveiruafbrigðið sem engin sóttkví eða einangrun virkar gegn.

Endurtekið efni endurtekið

Það er einmitt þá sem þarf að fá létta dagskrá á skerminn. En þar er ekkert nema endurtekið efni. Hercule Poirot er auðvitað frábær, en þegar hver þáttur með honum hefur verið endursýndur 10 sinnum þurfa menn ekki að vera illa haldnir af þunglyndisveirunni til að fara að trúa því að dagskrárstjórar sjónvarpanna séu morðingjar sem starfa í hóp og minnir óþægilega á hópsmit þríeykisins.

Hinn síþreytti Wallander, misheppnaður kvennabósi, með kulnun í starfi og að minnsta kosti forstig öldrunarsýki og að auki keyrandi fullur, þolir illa tíu endursýningar eða meir. Það myndu jafnvel þeir, sem eru betur fyrir kallaðir, ekki gera heldur. Og sama gildir um fleiri slíka.

En það leiðir hugann að því að þeir eru til sem telja fínt að líta niður á þá sem skrifa bækur, sem „lýðurinn“ kaupir af ákefð. Þetta minnir dálítið á stjórnmálamenn og handbendi þeirra innan háskólagirðinganna, sem tala um „popúlistana“. Það er svo sérkennilegt að vinstrisinnaðir fræðimenn háskólanna, sem eru þar í kippum, á meðan aðrar tegundir eru fágætar þar (hví er ekki skrifuð doktorsritgerð um það?) tala mest um popúlista og lýðskrumara. (Komist menn í ham þá endar formúlan undra fljótt óþægilega nærri Adolf, þótt gasofnum sé enn sleppt).

Allir íslenskir stjórnmálaflokkar sem eitthvað geta reiða sig algjörlega á spunameistara í aðdraganda kosninga og reyndar sumir árið um kring. En allir þræta þeir fyrir að vera popúlistar, svo ekki sé minnst á skætingsorðið lýðskrumarar. En almennt séð er varla hægt að hugsa sér þrálátari lýðskrum (og þá popúlisma) en þeirra sem telja sér og öðrum trú um að ríkisvaldið geti leyst allra vanda og fé frá því getið komið í staðinn fyrir það sem atvinnulífið skaffar.

Auðvitað er það svo að ríkisvaldið getur með lánstrausti sínu og aðkomu seðlabanka „búið til fé“ sem um skamma hríð kemur í veg fyrir að almenningur finni fyrir tekjufalli þjóðarinnar. En tekjurnar hurfu. Það er ekki plat. Nú er reynt að dreifa áfallinu yfir á lengri tíma. Það þýðir, að afkoma þjóðarinnar verður verri sem því nemur eftir að áhrif veiru og veirulokana verða úr sögunni.

Vinstri menn trúa (sem er auðvitað dapurlegt) og segja það (sem er í samræmi við meinlokuna) að þeir myndu nota opinbert fé til að bæta öllum allt það sem tapast við það að öllu sé meira eða minna lokað með tilskipunum.

Á engum tíma á Íslandi hafa verið á ferðinni aðrir eins popúlistar og lýðskrumarar og þessir og það í orðsins fylltu merkingu.

Heimskan er vissulega skýringin.

En hún afsakar ekkert.

Ekkert.