— Ljósmynd/Nero
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rétt fyrir síðustu helgi tilkynnti CrossFit að heimsleikarnir í íþróttinni færu fram að hluta á netinu í ár.

Rétt fyrir síðustu helgi tilkynnti CrossFit að heimsleikarnir í íþróttinni færu fram að hluta á netinu í ár. Munu 30 hraustustu konur og 30 hraustustu karlar heims keppa í sínu heimalandi um að vera í hópi þeirra fimm efstu í hvorum flokki sem er síðan boðið til Kaliforníu í Bandaríkjunum í lokakeppnina. Sunnudagsblaðið heyrði í Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur og Björgvini Karli Guðmundssyni sem munu keppa á Íslandi. Böðvar Páll Ásgeirsson bodvarpall@mbl.is

Miðað við ástandið er þetta besta útkoman,“ segir Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, oftast kölluð Sara, um nýja fyrirkomulagið. „Ég viðurkenni að ég var ekki sérlega spennt fyrir því að ferðast til Bandaríkjanna í þessu hræðilega ástandi. Kalifornía búin að loka aftur en við samt að fara út. Maður var bara farinn að hugsa, „Hvað gerist ef ég fæ vírusinn og er bara föst þarna?““

Sara er ein tveggja íslenskra kvenna sem er í hópi þeirra 30 sem fengu keppnisrétt á leikunum. Auk hennar verður Katrín Tanja Davíðsdóttir einnig meðal keppenda, ef marka má heimasíðu heimsleikanna í crossfit, en hún er búsett í Bandaríkjunum og keppir því þar. Þá tryggði Annie Mist Þórisdóttir sér einnig þátttökurétt á mótinu en verður ekki með því hún eignaðist sitt fyrsta barn á dögunum.

Þyrftu að sæta sóttkví

Dagsetningar fyrir keppnina voru tilkynntar á fimmtudag. Keppnin hefst föstudaginn 18. september á netinu en lokakeppnin mun fara fram vikuna 19. til 25. september. Sara segir keppendur hafa fengið að kjósa um tímasetningu bæði netkeppninnar og hinna eiginlegu heimsleika í Kaliforníu. Áætlað er að netkeppnin, þar sem keppendur streyma myndböndum af sér að gera æfingarnar sem gera á í keppninni, taki þrjá daga.

Þeim, sem eru ekki bandarískir ríkisborgarar eða með dvalarleyfi þar í landi, er meinað að fara til Bandaríkjanna eins og staðan er í dag. Sara segir að keppendurnir muni fá inngöngu í landið á sérstakri vegbréfsáritun fyrir íþróttamenn sem CrossFit hefur sótt um. Þeir þurfi þó að sæta tveggja vikna sóttkví við komuna þangað og því þyrfti Sara að komast til Bandaríkjanna tímanlega komist hún í lokakeppnina.

Ekki fyrsta netmótið

Björgvin Karl Guðmundsson verður eini íslenski keppandinn í karlaflokki. Honum líst ágætlega á fyrirkomulagið. „Það var verið að pæla í að hafa keppnina án áhorfenda á búgarði Dave Castros í Kalifroníu þar sem allir yrðu með,“ segir Björgvin. „En það kom fljótlega í ljós að það voru ekkert allir að fara að komast þangað og svo yrði erfitt að fara eftir öllum reglunum í sambandi við Covid.“

Rouge Invitational-mótið var haldið með svipuðu sniði í júní og því eru heimsleikarnir ekki þeir fyrstu til fara fram í gegnum netheima. Bæði Björgvin og Sara tóku þátt í því móti. „Svo lengi sem staðið verður vel að öllu og allir fari eftir öllum reglum og noti rétta búnaðinn þá ætti þetta að ganga upp,“ segir Björgvin.

„Þetta veltur svolítið á því hvort CrossFit sendi keppendum allan búnað eða hvort þú getir notað þinn eigin búnað. Það þarf að vera svolítið á hreinu, þyngdirnar og þetta allt,“ segir Björgvin en einhverjir keppendur eru vanir að nota lóð mæld í kílóum, aðrir í pundum.

„Það er spurning hversu nákvæmt þetta verður því þetta veltur oft á einhverjum sekúndubrotum á milli manna. En ég hef fulla trú á þessu og þetta er spennandi.“

Mögulega ekki þau bestu efst

Sérstakur dómari frá CrossFit mun sjá til þess að hver og einn keppandi muni framkvæma æfingarnar rétt. „Ég veit ekki hvort hann verður íslenskur en okkur verður úthlutað dómara,“ segir Sara.

„Það var þannig á Rouge-mótinu,“ segir Björgvin. „Þá þurfti ég líka að hafa „operation manager“ til að vera á bak við myndavélina og sjá til þess að þetta gengi smurt fyrir sig.“

Í fyrra voru leikarnir með breyttu sniði frá því sem var áður. Var keppendum fækkað mun fyrr í keppninni en fólk átti að venjast og margir sterkir keppendur duttu snemma úr leik. Vildu einhverjir þeirra meina að aðeins hefðu íþróttamennirnir verið prófaðir í hluta þeirra tegunda æfinga sem crossfit byggir á og því ekki þeir sterkustu sem fóru áfram í 10 manna úrslit til að mynda.

Sara viðurkennir að hún sé smeyk við að svipað gæti verið uppi á teningnum í ár. „Fimm efstu. Þetta er rosalega mikill skurður. Þú mátt ekki gera ein mistök og þá ertu farin. En þau hafa alla vega afsökun þetta árið ef þau ná ekki réttu aðilunum inn á heimsleikana. Kórónuveiran er ekki að gera þeim auðvelt fyrir að geta prófað fólk í öllu.“

Mismunandi aðstæður

Björgvin segir að aðstæður verði öðruvísi en í venjulegri keppni. „Það eru einhverjir sem standa sig illa fyrir framan áhorfendur og aðrir sem standa sig betur,“ segir hann. Á Rouge Invitational-mótinu hafi ekkert mátt heyrast í áhorfendum og engin tónlist spiluð þar sem æfingarnar voru gerðar. „En þau eru búin að segja að það verði ekki svoleiðis. Það verða áhorfendur eins og reglur leyfa í sambandi við samkomubann. Það er strax miklu betra.“

Hann segir möguleika á að þau Sara taki æfingar sínar á sama staðnum. „Ef það er fólk að koma þá hef ég litlar áhyggjur af þessu. Við erum svona að skoða hvernig við ætlum að snúa okkur í því.“

Takmarkað er hvaða æfingar er hægt að láta keppendur gera ef allir eru í sínu landi við mismundandi aðstæður. Einhverjir keppa í 40 gráðu hita í Kaliforníu á meðan aðrir, t.d. á Íslandi, eru í mun kaldara loftslagi. „Það er ekkert hægt að láta okkur hlaupa úti. Á ég þá að gera það í 20 metrum á sekúndu? Það yrði aldrei sanngjarnt. Þau eru samt sem áður að spyrja okkur hvar næsta 400 metra braut sé. Það eru margir sem hafa gert athugasemdir við það. Það mun aldrei ganga, held ég.“

Kemur lygilega vel undan veirunni

Æfingatímabilið fór allt úr skorðum hjá crossfit-köppum vegna veirufaraldursins. Líkamsræktarstöðvum hér á landi var lokað og bæði mót og æfingabúðir erlendis var blásið af.

„Stöðinni okkar [í Hveragerði] var lokað þannig að ég var sá eini þarna,“ segir Björgvin. „Þetta hafði því mjög takmörkuð áhrif á mig annað en að óvissan var mikil. Maður reyndi að láta það ekki á sig fá, það vissi enginn neitt hvort eð er.“

Hann segir gott að Rouge Invitational-mótið hafi verið haldið. „Ég missti annars bara af einu móti úti sem ég hefði farið á,“ segir Björgvin.

Þá hefur tekjutapið ekki verið mikið vegna kórónuveirunnar. Crossfit-kappar fá þorra sinna tekna frá styrkaraðilum sem auglýsi mikið í gegnum netmiðla þótt tekjur frá mótum skipti líka máli. „Maður er lygilega vel kominn undan þessu og ef þetta fer að batna fljótlega hefur þetta líklega ekki mikið að segja í heildina.“

Andrúmsloftið gott hér

Hann segir að það yrðu vonbrigði að komast ekki til Kaliforníu á heimsleikana eftir að hafa náð þriðja sæti í fyrra og verið í toppbaráttu síðan 2015. Hann var í fjórða sæta í undankeppni leikanna, Open, í fjórða sæti á Dubai-meistaramótinu og í öðru sæti á Rouge Invitational. Allt eru þetta mjög sterk mót.

Einhverjir innan crossfit-heimsins vilja meina að Mat Fraser, meistari síðustu fjögurra heimsleika, gefi nú betra færi á sér en áður. Björgvin gefur lítið fyrir það. „Ég tek þessu öllu með fyrirvara. Hann er pottþétt staðráðinn í að vinna þetta oftar en Rich Froning [sem vann fjórum sinnum í röð]. En það er náttúrulega fullt af öðrum gaurum sem eiga möguleika á að komast í efstu fimm. Ég gæti talið upp 10 eða 15 sem eiga möguleika. Ég þarf þá bara að vera betur í stakk búinn,“ segir Björgvin sem hefur fulla trú á að hann komist í lokakeppnina.

Hann segist í enn betra formi en í fyrra. „Maður nær einhvern veginn að komast í betra og betra form. En það er mikið af þáttum sem þarf að smella. Mér finnst andrúmsloftið búið að vera gott hérna heima miðað við það sem hefur verið úti.“

Verður að fara ef maður fær boðið

Sara lenti í 19. sæti á síðustu heimsleikum sem voru mikil vonbrigði eftir að hafa náð fjórða sæti 2017 og verið á palli árin tvö þar á undan. „Ég var bara ekki að gera réttu hlutina,“ segir Sara sem ákvað að vera ekki með þjálfara sem sæi um allar æfingar hennar eins og áður og fá þess í stað aðstoð úr ýmsum áttum.

„Ég var ekki með rétta þjálfarann fyrir mig. Við vorum búin að gera allt sem við gátum gert saman. Ég lærði helling af því en ég þurfti að gera ákveðnar breytingar. Ég þurfti að slíta mig frá honum. Ég þurfti að bæta næringuna og talaði við næringarfræðing. Ég ákvað að gera miklar breytingar eftir heimsleikana og ég hefði aldrei gert þessar breytingar ef ég hefði ekki lent í þessu áfalli að ná ekki niðurskurði. Þetta var ákveðið áfall. Maður fer í þetta mót og ætlar sér að vinna það. Svo kemstu allt í einu ekki í efstu 10.“

Gengið hefur vel á þessu keppnistímabili. Sara varð efst á Open þar sem allir crossfit-kappar heims fá að spreyta sig. Hún varð í fyrsta sæti á Dubai-meistaramótinu sem fram fór fyrir jól og varð í öðru sæti á eftir Tia Clair-Toomey, meistara síðustu þriggja heimsleika, á Rouge Invitational.

„Mér finnst ótrúlega gaman að keppa og ég fæ sjálfstraustið mitt á því. Ég ákvað því að keppa svolítið mikið í ár og ég sé ekkert eftir því núna alla vega. Mér finnst mjög spennandi að sjá hvernig mér mun ganga á leikunum þetta árið miðað við hvernig mér hefur gengið á öðrum mótum,“ segir Sara sem er að eigin sögn í betra formi en í fyrra.

„Sérstaklega andlega. Andlega hliðin er svona 80% af árangrinum. Það eru allir með líkamlegu hliðina á hreinu þegar þú ert komin á heimsleikana en það er þessi andlega hlið sem setur þig í réttan gír. Hún var ekki til staðar í fyrra en er það núna alveg 150%.“

Markmið Söru er að ná einu af efstu fimm sætunum og fara út. Til þess þurfi hún þó auðvitað að taka áhættuna á því að sýkjast af veirunni umtöluðu. „Ég yrði örugglega með þrjár grímur á mér í fluginu,“ segir Sara sposk. „Það er auðvitað hætta á því að ferðast, og þá sérstaklega til Bandaríkjanna. En ef maður er kominn með boð á heimsleikana þá held ég að maður verði bara að fara.“

Það besta fyrir crossfit

Um svipað leyti og Rouge Invitational-mótið fór fram fór allt upp í háaloft í crossfit-heiminum. „Þá byrjaði allt þetta bull með CrossFit og Greg Glassman,“ segir Sara og á þar við rasísk ummæli Glassman, framkvæmdastjóra CrossFit sem fjallað var mikið um í júní. Það virtist vera kornið sem fyllti mælinn en löngum hafði verið kvartað undan stjórnarháttum hans. Afsökunarbeiðni Glassman í kjölfarið féll í grýttan jarðveg. Fólk vildi breytingar.

Voru nokkrir hátt skrifaðir keppendur, þar á meðal Katrín Tanja, sem sögðust ekki ætla að keppa undir merkjum CrossFit fyrr en eignarhaldi og stjórnarháttum yrði breytt. Endaði það með því að Glassman sagði af sér sem framkvæmdarstjóri og seldi fyrirtækið, sem á einkaréttinn á notkun crossfit-orðsins yfir íþróttina, til Eric Roza.

„Það var frekar erfitt að mótivera þegar það var allt í gangi. Maður vissi ekki hvort heimsleikarnir yrðu, hvort það yrði eitthvað annað, hvað maður ætti að gera í þessu ástandi. Maður var svolítið fram og til baka,“ segir Sara.

Hún segist ánægð með nýjan mann í brúnni. „Þetta er held ég það besta sem hefði getað komið fyrir crossfit. Það er loksins kominn fagaðili í þessa stöðu sem þurfti,“ segir Sara.

„Hann hefur alla vega góða sögu á bak við sig. Hann er milljarðamæringur sem byrjaði frá grunni þannig hann veit hvað hann er að gera og hvað þarf að gera. Hann hefur verið í crossfit í 10 ár og átt fjölda stöðva og alltaf verið draumurinn hans að kaupa CrossFit. Á blaði lítur hann mjög vel út. Ég hef talað við hann í síma og hann virðist mjög hógvær. Hann vill að crossfit verði íþrótt en ekki bara áhugamál. Hann vill að það séu atvinnumenn í kringum þetta. Ekki að einungis fólk sem eigi stöð geti æft allan daginn. Það er mjög sjaldgæft að vera atvinnumaður í þessu.“