Mótmæli Andstæðingar Ljúkasjenkó mótmæla í Minsk.
Mótmæli Andstæðingar Ljúkasjenkó mótmæla í Minsk. — AFP
Er henni var sleppt úr fangelsi í Minsk kvaðst stærðfræðikennarinn Yana Bobrovskaja, sem er 27 ára, aldrei hafa búist við að sleppa lifandi úr dýflissunni í Hvíta-Rússlandi. „Við héldum að við yrðum jarðsett hér.

Er henni var sleppt úr fangelsi í Minsk kvaðst stærðfræðikennarinn Yana Bobrovskaja, sem er 27 ára, aldrei hafa búist við að sleppa lifandi úr dýflissunni í Hvíta-Rússlandi.

„Við héldum að við yrðum jarðsett hér. Þeir geta gert hvað sem er því maður er sviptur öllum rétti,“ sagði hún snöktandi í gær.

Bobrovskaya var ein nokkur hundruð mótmælenda og hlutlausra áhorfenda sem voru látnir lausir í gær, en þeir voru fangelsaðir í vikubyrjun í aðgerðum lögreglunnar gegn pólitískum andstæðingum Alexanders Lúkasjenkó, í kjölfar umdeilds sigurs hans í forsetakosningunum á sunnudag.

Hundruð angistarfullra vina og vandamanna biðu við fangelsið í Minsk og fjölda sjúkrabíla dreif að og flutti slasaða mótmælendur á brott. Margir hinna fangelsuðu sögðu skelfilegar sögur af barsmíðum, niðurlægingu og pyntingum. Konum var hótað nauðgun, karlmenn klæddir úr öllum fötunum og síðan lúbarðir með kylfum, að sögn Amnesty International.

Maður einn sagði fréttaveitunni AFP að hann hefði verið brenndur með logandi sígarettum og annar lýsti hvernig hann var laminn með prikum og gefið rafstuð á meðan.

Margir virtust óhræddir við að segja allt af létta og nokkrir menn fækkuðu fötum til að sýna blaðamönnum AFP blámarin læri, þjóhnappa og maga.

Bobrovskaja sagðist hafa verið handtekin þótt hún hafi alls ekki tekið þátt í mótmælunum. Mátti hún dúsa í þrjá sólarhringa án matar ásamt um 50 öðrum konum í fangaklefa sem ætlaður var fjórum. Bæðu þær um tíðatappa og salernispappír var þeim sagt að þurrka sig með fötunum sínum, sagði hún. „Það er erfitt að gera sér í hugarlund að svona nokkuð skuli gerast á 21. öld,“ sagði hún og bætti við að Hvíta-Rússland væri friðsælt land.

Gerum það sem okkur sýnist

Olesjaa Stogova, rússneskur borgari á fertugsaldri, sagðist hafa verið meðhöndluð grimmdarlega eins og aðrir. Hún er búsett í Pétursborg í Rússlandi en var í heimsókn í Hvíta-Rússlandi. Var hún hrifsuð af götum Minsk í herferð lögreglu og hers. Sagðist hafa sætt spörkum og kylfuhöggum. Þegar hún tjáði fangelsisvörðum að hún væri Rússi rigndi yfir hana fúkyrðum og hótunum. „Við gerum það sem okkur sýnist. Við munum afmynda þig – þú munt ekki þekkja sjálfa þig,“ sagði hún verðina hafa hótað sér. Í klefanum sem hún deildi með tugum kvenna var einungis rennandi vatn að hafa. „Við vorum eins og sardínur í dós, allar kófsveittar,“ sagði Stogova við AFP. Og bætti við: „Þetta var pyntingaklefi.“

Helsti mótframbjóðandi Lúkasjenkó, Svetlana Tíkhanovskaja, hefur hvatt til fjölmennra mótmæla gegn forsetanum um helgina. Víða lögðu starfsmenn iðnfyrirtækja niður vinnu í mótmælaskyni í gær.

agas@mbl.is