Grensásvegur 1 Svona sjá arkitektarnir fyrir sér útlit nýbygginga.
Grensásvegur 1 Svona sjá arkitektarnir fyrir sér útlit nýbygginga. — Tölvuteikning/Rýma arkitektar
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is „Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

„Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.“ Þannig hljóðar nýlegur bráðabirgðaúrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna fyrirhugaðrar byggingar á lóðinni Grensásvegi 1 í Reykjavík.

Vesturgarður ehf., lóðarhafi Skeifunnar 15 og Faxafens 8, Reykjavík, kærði þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. júní 2020 að samþykkja leyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 50 íbúðum, tveimur stigahúsum og geymslu- og bílakjallara á lóð nr. 1 við Grensásveg. Gerði kærandi þá kröfu að þessi ákvörðun verði felld úr gildi og framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Rekur fasteignir í Skeifunni

Kærandi benti á að hann eigi og reki fasteignir í Skeifunni og eigi hann ríka hagsmuni tengda þeim breytingum sem gerðar séu á heim- ildum til uppbyggingar á lóðinni Grensásvegi 1 með hinum kærðu ákvörðunum. Sé með þeim horfið frá áformum um byggingu hótels á lóðinni og þess í stað heimilað að reisa þar 204 íbúðir. Slík breyting muni hafa veruleg áhrif á næsta nágrenni, m.a. vegna aukinnar bílaumferðar og bílastæðanotkunar á svæðinu.

Leyfishafi Grensásvegar mótmælti kröfunni. Kærandi hafi í engu leitast við að sýna fram á að ekki hafi verið gætt lögmætra og málefnalegra sjónarmiða við ákvörðun Reykjavíkurborgar.

Í úrskurðinum segir að lóðir kæranda séu í talsverðri fjarlægð frá lóðinni Grensásvegi 1. Verði því ekki séð að mögulegir grenndarhagsmunir kæranda knýi á um stöðvun umdeildra framkvæmda.

„Hvað sem líður gildi umdeildrar deiliskipulagsbreytingar ætti heimilað byggingarmagn samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi stoð í eldra deiliskipulagi,“ segir meðal annars í úrskurðinum.