Brons Vala Flosadóttir vann bronsið í Sydney.
Brons Vala Flosadóttir vann bronsið í Sydney. — Morgunblaðið/Sverrir
Nú er mér nóg boðið! Síðasta hlaðvarpið sem Vera Illugadóttir gaf út undir nafninu Í ljósi sögunnar kom út fyrir rúmlega tveimur mánuðum. Auðvitað þarf Vera sitt sumarfrí eins og við öll, en er nú ekki komið gott? Hversu langt þarf eitt sumarfrí að...

Nú er mér nóg boðið! Síðasta hlaðvarpið sem Vera Illugadóttir gaf út undir nafninu Í ljósi sögunnar kom út fyrir rúmlega tveimur mánuðum. Auðvitað þarf Vera sitt sumarfrí eins og við öll, en er nú ekki komið gott? Hversu langt þarf eitt sumarfrí að vera? Mér er löngu farið að leiðast í bílferðum og göngutúrum þar sem engin Vera Illugadóttir getur stytt mér stundir. Ég er auðvitað löngu búinn að hlusta á alla þætti Í ljósi sögunnar og haft einstaklega gaman af, en nú vantar mig meira. Það er ákveðinn tómleiki sem fylgir því að fá ekki nýtt hlaðvarp frá Veru.

Nóg um það. Samstarfsfólk hennar hjá RÚV hitti heldur betur í mark með þáttunum Ólympíukvöld sem voru á dagskrá fyrir stuttu síðan. Voru þættirnir framleiddir á sama tíma og Ólympíuleikarnir í Tókýó áttu að fara fram, en leikunum var frestað eins og flestum öðrum stórviðburðum árið 2020 vegna heimsfaraldurs. Þættirnir voru einstaklega fræðandi og gestirnir bæði skemmtilegir og fróðlegir. Þá var gríðarlega skemmtilegt að rifja upp gamalt myndefni og stærstu augnablik í sögu stærsta íþróttamóts heims. Að sjá Völu Flosadóttur henda sér yfir 4,50 metra í Sydney 2000 og Vilhjálm Einarsson stökkva 16,26 metra í Melbourne 1956 var sérstaklega skemmtilegt.

Jóhann Ingi Hafþórsson