Húsnæði Áhrif kórónuveirufaraldursins á íbúðaútleigu til ferðamanna, sem og uppbygging almennra leiguíbúða, er talin skýra lækkunina.
Húsnæði Áhrif kórónuveirufaraldursins á íbúðaútleigu til ferðamanna, sem og uppbygging almennra leiguíbúða, er talin skýra lækkunina. — Morgunblaðið/Arnþór
Alexander Kristjánsson alexander@mbl.is Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% í júní frá mánuðinum á undan. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Áður hafði leiguverð lækkað um 0,9% á höfuðborgarsvæðinu í...

Alexander Kristjánsson

alexander@mbl.is

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% í júní frá mánuðinum á undan. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Áður hafði leiguverð lækkað um 0,9% á höfuðborgarsvæðinu í maí. Árshækkun leiguverðs mælist nú 1,1% eða undir verðbólgu.

Hækkun á landsbyggðinni

Sömu sögu er þó ekki að segja af leiguverði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en þar undir falla bæir á borð við Akranes, Keflavík, Hveragerði og Selfoss. Á því svæði hækkar leiguverð annan mánuð í röð og mældist árshækkun 2,9% í júní. Þá hækkar leiguverð um 4% á milli mánaða annars staðar á landsbyggðinni og er 12 mánaða hækkun þar 6,5%. Sá varnagli er þó sleginn að fáir leigusamningar geta verið að baki útreikninga þar og geta sveiflur því verið talsverðar milli mánaða.

Þinglýstum leigusamningum fyrir íbúðarhúsnæði hefur á sama tíma fjölgað til muna. 57% fjölgun var á þinglýstum leigusamningum á höfuðborgarsvæðinu í júní, en sé annar ársfjórðungur borinn saman við síðasta ár er fjölgunin 16% höfuðborgarsvæðinu, 15% í nágrannasveitarfélögum og 17% á öðrum svæðum landsbyggðarinnar.

Covid og almennar leiguíbúðir

Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur hagdeildar HMS, segir að ljóst sé að framboð á leiguhúsnæði hafi aukist á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðir sem áður voru leigðar ferðamönnum á Airbnb skipti þar að öllum líkindum miklu. „En það má ekki gleyma að fjölmargar íbúðir eru að koma í leigu í almenna íbúðakerfinu,“ segir Ólafur og vísar til íbúða sem óhagnaðardrifin leigufélög á borð við Bjarg standa að.

Aðspurður segir Ólafur að ekki sé hægt að segja til um hvort áframhald verði á þróuninni. „Það er mjög erfitt að segja til um og veltur allt á því hvernig þessi faraldur þróast.“