Teflt Fjallið hefur sótt einkatíma hjá bandaríska stórmeistaranum Hikaru Nakamura, sem hafa borið góðan árangur.
Teflt Fjallið hefur sótt einkatíma hjá bandaríska stórmeistaranum Hikaru Nakamura, sem hafa borið góðan árangur. — Skjáskot/Twitch
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

„Ég hef alltaf haft mjög gaman af skák og tefli með vinum og vandamönnum,“ segir Hafþór Júlíus Björnsson, betur þekktur undir viðurnefninu „Fjallið“, eftir leik sinn í þáttaröðinni Game of Thrones.

Það vakti athygli margra þegar Hafþór hóf að streyma frá taflmennsku sinni á netinu á streymisveitunni Twitch, þar á meðal eins sterkasta skákmanns heims, Hikaru Nakamura.

„Síðan var haft samband við mig og ég spurður hvort ég vildi fá skákkennslu hjá Nakamura,“ segir Hafþór, sem játaði því, enda um að ræða stigahæsta skákmann sem skráður er á skákvefnum Chess.com þar sem notendur eru ríflega 30 milljónir talsins.

Hafþór undirbýr sig nú fyrir alþjóðlega netskákmótið Pogchamps 2, þar sem vinsælir streymendur og sterkir skákmenn etja kappi. Samhliða keppninni fá hinir þekktu streymendur þjálfun frá sterkum skákmönnum og hefur Hafþór því notið leiðsagnar Hikaru Nakamura og alþjóðlega meistarans Levy Rozman. Öllum viðureignunum verður streymt í gegnum vef chess.com 21. ágúst.

„Þetta er auðvitað mjög gaman, að fá kennslu frá svona sterkum manni. Manni finnst þetta svolítið mikið oft - hann er náttúrulega á allt öðru stigi en ég. En hann hefur kennt mér margt sem hefur reynst mér vel,“ segir hann.

Á milli stífra æfinga er ágætt að geta hvílt líkamann en stundað annars konar þjálfun í leiðinni - þess vegna er Hafþór með skákborð bæði heima við og í líkamsræktinni.

„Ég er búinn að vera að æfa svolítið, reyni að taka skák á hverjum degi og reyni eins og ég get að fá kennslu frá öðrum stórmeisturum.“

Hjálpar ekki líkamlega formið í skákinni?

„Vöðvarnir hjálpa ekki mikið í skákinni. Það er alveg sama hvað þú ert með stórar „byssur“,“ segir hann í léttum tón.

„Allir geta lært að tefla“

Skákin hefur fylgt Hafþóri lengi. Faðir hans kenndi honum að tefla og síðan þá hefur hann af og til gripið í taflborðið.

„Ég tefli svolítið við vini mína og ég var vanur að tapa fyrir þeim. En eftir að ég byrjaði að æfa mig markvisst þá vinn ég eiginlega alltaf, sem er bara skemmtilegt. Hver sem er getur teflt skák og aldur skiptir ekki neinu máli.“