Kristin M. Shepard og Joð Err Ewing meðan allt lék í lyndi.
Kristin M. Shepard og Joð Err Ewing meðan allt lék í lyndi. — CBS
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öll munum við eftir Joð Err, Bobby, Pamelu, Sue Ellen, Miss Ellie og Cliff en persónugalleríið í Dallas var miklu stærra. Hvernig væri að dusta rykið af nokkrum aukapersónum úr sápunni? Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Lífið var miklu einfaldara í gamla daga. Það var bara ein sjónvarpsstöð og á miðvikudögum bara einn leikinn þáttur að horfa á – Dallas. Og þjóðin horfði, eins og hún lagði sig; meira að segja menningarspjótin sem þóttust ekki horfa horfðu samt. Í laumi. Ástir og örlög hinnar vellauðugu Ewing-fjölskyldu, sem barst á í olíuheiminum í Texas á áttunda og níunda áratugnum og fram á þann tíunda, gagntóku sálarlíf heillar þjóðar á norðurhjara veraldar. Þegar yfir lauk voru þáttaraðirnar af Dallas fjórtán talsins.

Ekki þarf að hafa mörg orð um lykilpersónurnar sem nefndar eru hér að ofan; allar voru þær fjölskylduvinir á íslenskum heimilum, eða þá fjölskylduóvinir í tilviki Joð gamla Err. Hann var svolítið seintekinn, karlinn, og sat oftar en ekki undir rammíslenskum blótsyrðum heima í stofu sem ekki verða höfð eftir hér.

Aukapersónur komu og fóru í Dallas, miseftirminnilegar eins og gengur. Tilgangur þessarar greinar er að rifja nokkrar af þeim bitastæðustu upp og kanna hvort þið, lesendur góðir, munið enn þá eftir þeim. Og eftir atvikum fleyta þeim aftur inn í líf ykkar ef þið voruð búin að gleyma þeim.

Hver skaut Joð Err?

Alræmdasta aukapersónan í Dallas er án efa Kristin M. Shepard; sú sem skaut og særði Joð Err í lok þriðju seríu. Óhætt er að kalla það frægasta „cliffhanger“ sjónvarpssögunnar. Hinn siðmenntaði heimur engdist um og leið vítiskvalir sumarlangt af forvitni, þar til svarið fékkst um haustið. Hér í efri byggðum vorum við reyndar einhverjum misserum á eftir en það breytti litlu enda gúgglið ekki komið til sögunnar og fokdýrt að hringja vestur um haf til að spyrja frétta. Flosi Ólafsson gerði þó heiðarlega tilraun til að draga sannleikann upp úr Cliff Barnes, þegar kappinn kom hingað í boði SÁÁ, en allt kom fyrir ekki.

Kristin þessi var yngri systir Sue Ellenar, eiginkonu Joð Err, og frilla hans um tíma. Hún var nemi í arkitektúr þegar hún kom fyrst til skjalanna en Joð Err gerði hana að ritara sínum og notaði hana óspart til að draga mögulega viðskiptamenn sína á tálar. Eftir það voru þeir að vonum eins og bráðið smjer í höndunum á hinum ósvífna olíujöfri.

Næst komum við að kúrekanum knáa Dusty Farlow, ástmanni Sue Ellenar til langs tíma. Hann var skörp andhverfa Joð Err; ljúfmenni og drengur góður og Sue Ellen yfirgaf bónda sinn um tíma fyrir hann. Skömmu síðar lenti Dusty í flugslysi; var upphaflega talinn af en reyndist vera á lífi og lamaður. Eftir það fjaraði undan sambandi þeirra Sue Ellen fyrir þær sakir að Dusty þótti hún eiga betra skilið í þessu lífi en að annast um hann. Hann fékk að vísu fótmáttinn á ný en þá reis nýtt vandamál; Dusty var getulaus. Loks var fullreynt með samband þeirra Sue Ellenar og hún sneri aftur til Joð Err. Einhver gæti þó með rökum haldið því fram að Dusty hafi verið stóra ástin í lífi hennar.

Dusty var sem kunnugt er sonur Claytons Farlow, sem varð seinni eiginmaður Miss Ellie og flutti inn á Southfork, Joð Err til ofboðslega afmarkaðrar gleði.

Látum okkur nú sjá, hvað viljið þið meira? Eigum við að segja Afton Cooper? Já, endilega. Hún tengdist Ewingunum gegnum Lucy; var systir eiginmanns hennar, Mitch Cooper. Eins og svo margar kvenpersónur í Dallas átti Afton til skamms tíma í ástarsambandi við Joð Err. Lengst af var hún þó heitmey Cliff Barnes sem alla tíð átti vont með að skuldbinda sig. Upp úr sambandi þeirra flosnaði líka á endanum eftir að Afton sló í gegn sem söngkona. Eftir sambandsslitin ól Afton Cliff dóttur sem hann vissi ekki um til að byrja með. Þegar hann fékk veður af barninu neitaði Afton á hinn bóginn að hann væri faðirinn. Nafnið kom þó illilega upp um hana en dóttirin var vatni ausin og látin heita Pamela Rebecca í höfuðið á móður Cliffs og systur. Kennir manni það, að ætli maður að fela barn fyrir föður þess þá er líklega affarasælast að skíra það ekki í höfuðið á hans nánustu. Það vekur óhjákvæmilega grunsemdir.

Talandi um faðernismál þá muna ugglaust hörðustu Dallas-aðdáendur að Digger Barnes var bara blóðfaðir Cliffs en ekki Pamelu. Eiginlegur faðir hennar var viðhald Rebeccu, Hutch McKinney, kaupamaður hjá Jock og Miss Ellie Ewing, sem Digger drap með byssunni hans Jocks og gróf á landareign Southfork. Líkið fannst ekki fyrr en löngu síðar og var Jock þá tekinn höndum. Gömul samviska tók sig hins vegar upp hjá Diggernum á dánarbeðinum og hann gekkst við glæpnum. Og Jock var hólpinn.

Brá meira í móðurkynið

Það voru ekki bara friðlar og frillur á kantinum í Dallas. Flestir muna sjálfsagt að Joð Err og Bobby áttu bróður, Gary, sem flutti ungur að heiman enda þótti föður hans, Jock, honum bregða meira í móðurkynið og leit fyrir vikið á hann sem veikan hlekk. Gary batt sitt trúss snemma við Bakkus konung og átti erfiða ævi en eftir að faðir þeirra féll frá sá Joð Err samviskusamlega um að halda honum niðri. Hann skaut þó annað veifið upp kollinum í þáttunum og hlýtt var milli þeirra Bobbys enda sá síðarnefndi mannvinur af gamla skólanum. Frægastur er Gary þó líklega fyrir að vera faðir hinnar tápmiklu Lucyar sem ólst upp hjá ömmu sinni og afa á Southfork.

Eiginkona Garys, Valene, kom einnig annað veifið við sögu í þáttunum. Til að byrja með voru þau skilin en náðu saman á ný. Þau skötuhjú enduðu loks í sinni eigin sápu, Knots Landing, sem vann aldrei hylli lýðsins hér um slóðir.

Gary var skírður í höfuðið á móðurbróður sínum, Garrison Southworth, einkabróður Miss Ellie, sem talið var að hefði farist í heimsstyrjöldinni síðari. Garrison reyndist á hinn bóginn sprelllifandi sem hafði heilmiklar flækjur í för með sér, þar sem hann var eldri og gat fyrir vikið gert tilkall til Southfork. Miss Ellie, höfðinginn sem hún var, bauð bróður sínum raunar búgarðinn en hann afþakkaði eftir að hafa verið móðgaður heiftarlega af þið vitið hverjum. Garrison var á þessum tíma dauðvona og féll frá skömmu síðar, eftir að hafa búið undir það síðasta hjá systur sinni á Southfork.

Blessuð sé minning hans.