[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótboltinn Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Pepsi Max-deild karla í fótbolta sneri aftur eftir tæplega þriggja vikna frí í gærkvöld með tveimur leikjum.

Fótboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Pepsi Max-deild karla í fótbolta sneri aftur eftir tæplega þriggja vikna frí í gærkvöld með tveimur leikjum. FH-ingar voru sigurvegarar gærkvöldsins því þeir eru komnir í alvörutoppbaráttu eftir 2:1-útisigur á Íslandsmeisturum KR í Vesturbænum. Á sama tíma missteig Stjarnan sig á heimavelli á móti nýliðum Gróttu og þurfti að sætta sig við eitt stig, 1:1.

Daníel hetja FH-inga

KR átti fleiri skot en andstæðingurinn úr Hafnarfirðinum, en Daníel Hafsteinsson reyndist hetja FH og gerði bæði mörkin. Hefur hann verið einn besti leikmaður FH í sumar.

„Vel var staðið að báðum mörkum FH og Daníel sýndi að hann er hættulegri í sókninni en margan grunar. Hefur maður frekar litið á hann sem varnarsinnaðan miðjumann en hann tímasetti hlaupin inn í teiginn afar vel og skoraði bæði mörkin. Eggert Gunnþór kemur með líkamlegan styrk og reynslu inn á miðjuna. Hann skilaði boltanum ekki alltaf vel frá sér en allir vita að hann er mjög sterkur í návígjum og getur tengt saman vörn og miðju,“ skrifaði Kristján Jónsson m.a. um leikinn á mbl.is.

* Eggert Gunnþór Jónsson spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild og sinn fyrsta leik hér á landi síðan hann lék með Fjarðabyggð í 2. deild 2005.

Grótta bítur frá sér

Gróttumenn eru töluvert kátari með eitt stig en Stjarnan eftir 1:1-jafntefli á Samsung-vellinum. Grótta hefur sýnt fína takta á köflum í sumar og má ekki stíga af bensíngjöfinni gegn sprækum Seltirningum. Stjarnan er enn taplaus en hefur ekki unnið í síðustu tveimur og aðeins tvo af síðustu fimm. Stjörnumenn urðu kærulausir eftir að Guðjón Pétur Lýðsson kom þeim yfir og Gróttumenn nýttu sér það og fengu að lokum verðskuldað stig eftir jöfnunarmark Karls Friðleifs Gunnarssonar . Vinni Stjarnan þá leiki sem liðið á inni fer það í toppsætið, en til þess að það verði að veruleika verða Garðbæingar að spila betur.

„Það var ákveðin værukærð sem greip um sig hjá Stjörnumönnum í stöðunni 1:0. Þeir voru yfir móti nýliðunum á heimavelli á fallegu föstudagskvöldi og héldu eflaust einhverjir Stjörnumenn að um þægilegt kvöld yrði að ræða. Sú var heldur betur ekki raunin,“ skrifaði undirritaður m.a. um leikinn á mbl.is.

*Guðjón Pétur Lýðsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Stjörnuna í átjánda deildarleiknum. Hefur hann skorað 46 mörk í 208 leikjum í efstu deild.

KR – FH 1:2

0:1 Daníel Hafsteinsson 15.

1:1 Kristján Flóki Finnbogason 42.

1:2 Daníel Hafsteinsson 75.

MM

Daníel Hafsteinsson (FH)

M

Gunnar Nielsen (FH)

Guðmundur Kristjánsson (FH)

Guðmann Þórisson (FH)

Eggert Gunnþór Jónsson (FH)

Þórir Jóhann Helgason (FH)

Kennie Chopart (KR)

Finnur Orri Margeirsson (KR)

Atli Sigurjónsson (KR)

Óskar Örn Hauksson (KR)

Dómari : Ívar Örn Kristjánsson – 7.

Áhorfendur : Ekki heimilt.

STJARNAN – GRÓTTA 1:1

1:0 Guðjón Pétur Lýðsson 26.

1:1 Karl Friðleifur Gunnarsson 75.

M

Jósef Kristinn Jósefsson (Stjörnunni)

Guðjón Pétur Lýðsson (Stjörnunni)

Hilmar Árni Halldórsson (Stjörnunni)

Þorsteinn Már Ragnarss. (Stjörnunnni)

Heiðar Ægisson (Stjörnunni)

Arnar Þór Helgason (Gróttu)

Patrik Orri Pétursson (Gróttu)

Axel Sigurðarson (Gróttu)

Kristófer Melsted (Gróttu)

Karl Friðleifur Gunnarsson (Gróttu)

Kristófer Orri Pétursson (Gróttu)

Dómari : Þorvaldur Árnason – 8.

Áhorfendur : Ekki heimilt