— Colorbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útvarpið hefur aldrei staðið frammi fyrir meiri samkeppni sem miðill, eigi að síður hefur gróskan líklega aldrei verið meiri, alltént ef marka má fjölda útvarpsstöðva á Íslandi.

Útvarpið hefur aldrei staðið frammi fyrir meiri samkeppni sem miðill, eigi að síður hefur gróskan líklega aldrei verið meiri, alltént ef marka má fjölda útvarpsstöðva á Íslandi. Í úttekt Sunnudagsblaðsins kemur meðal annars fram að þetta helgist ekki síst af því hversu þægilegur og persónulegur miðill útvarpið sé, auk þess sem það á gott með að bregðast hratt við þegar vá ber að dyrum eða ná þarf eyrum almennings af öðrum ástæðum. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Áðan, í útvarpinu heyrði ég lag, sagði skáldið. Haldiði að ég hafi ekki lent í því sama á dögunum? Í mínu tilviki var lagið Video Killed the Radio Star með svuntupoppurunum í The Buggles frá árinu 1979. Ár og dagur síðan ég heyrði þetta ágæta lag og án nokkurs fyrirvara fór hugurinn á flug. Vídeóið gekk af útvarpsstjörnunni dauðri. Hverslags dómadagsþvæla er það eiginlega? hugsaði ég með mér um leið og ég skimaði í kringum mig í örvæntingarfullri leit að vídeótæki á heimilinu. Fann ekkert. Nóg var hins vegar af útvörpum – lagið ómaði úr einu slíku – auk þess sem sjónvarpið mitt og tölvan eru líka útvarp. Meira að segja síminn. Hver hefði trúað því á því herrans ári 1979?

41 ári síðar er óhætt að fella þann dóm að útvarpið hafi lifað vídeóið af. Síðarnefnda græjan er á hinn bóginn svo gott sem horfin, fyrir utan einn og einn sérvitring, eins og Aðal-Reyni Maríuson á Klapparstígnum, sem hermt var af hér í blaðinu á vordögum. DVD-tækið leysti vídeóið af hólmi og nú sjá hinar og þessar efnisveitur um að svala þörf almennings fyrir gláp utan línulegrar dagskrár.

En hefur það haft einhver áhrif á útvarpið? Stutta svarið er nei og nægir í því sambandi að horfa til fjölda útvarpsstöðva á Íslandi. Þegar Video Killed the Radio Star kom út var ein útvarpsstöð starfandi í landinu. Gamla góða Gufan. Nú eru þær um tuttugu talsins, ef allt er talið.

Farsæll og stöðugur miðill

„Já, já, gamli Buggles-slagarinn,“ segir dr. Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistarfræðingur og aðjunkt við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, og skellir upp úr þegar ég ber þessa Video Killed the Radio Star-pælingu undir hann. „Þetta voru ákveðnir umbrotatímar;“ segir hann, „byrjað að hilla undir að tónlistarfólk færi í stórum stíl að gera myndbönd við lög sín. MTV kom svo til sögunnar 1981 og upp frá því varð til mikill myndbandskúltúr sem hefur verið viðloðandi allar götur síðan. Mín kynslóð ólst því upp við að sjá bæði Michael Jackson og Madonnu en ekki bara heyra í þeim.“

Arnar Eggert segir marga hafa spáð því að þessi þróun ætti eftir að reynast útvarpinu, ekki síst tónlistarstöðvunum, þung í skauti en annað hafi komið á daginn. „Útvarpið hefur verið alveg ótrúlega stöðugur miðill allar götur síðan og raunar gott betur. Á Íslandi höfum við aldrei upplifað dauðan tíma í útvarpi, eins og hefur til dæmis gerst í bókaútgáfu eða kvikmyndagerð. Ástæðan fyrir því að útvarpið lifir enn þá svona góðu lífi er öðru fremur sú að það er svo einfalt. Að kveikja á útvarpi er bara eins og að skrúfa frá krana. Þú ýtir bara á einn takka og útvarpið streymir fram. Það hentar mannskepnunni ákaflega vel, þar sem hún hefur tilhneigingu til að hafa hlutina þægilega og auðvelda.“

Til samanburðar bendir hann á, að það hafi kostað mun fleiri skref að horfa á vídeó enda þurfti að fara úr húsi til að leigja spólu – og jafnvel tækið líka. Ef það var þá á annað borð inni. Það kostaði líka smá fyrirhöfn að hlusta á plötu; sækja þurfti plötuna, setja hana á grammófóninn og jafnvel strjúka af henni mesta rykið áður en nálin var sett á.

Þægilegur bakgrunnur

Arnar Eggert hefur sjálfur starfað við útvarp og segir kollega sína á Rás 2 sammála um að flestir hlustendur kveiki á viðtækinu meðan þeir séu að gera eitthvað allt annað. Í stað þess að setjast beinlínis niður klukkan 16.15 og hlusta á tiltekinn þátt þá séu menn líklegri til að opna fyrir útvarpið meðan þeir séu úti að keyra, að fá sér í svanginn, taka til í bílskúrnum eða eitthvað slíkt. „Í huga margra er útvarp þægilegur bakgrunnur og hverfist meira um hljóð en innihald. Útvarpið er eins og notalegur lækur sem streymir áreynslulaust fram.“

Hann segir upplifun fólks af útvarpi þó geta verið mjög ólíka. „Þegar ég var við nám í Skotlandi spurði prófessorinn, Simon Frith, okkur nemendur sína hvað við hugsuðum þegar við heyrðum minnst á útvarp. Við Evrópubúarnir áttum flest góðar minningar, ekki síst úr barnæsku, meðan Suður-Ameríkumennirnir áttu í allt annars konar tilfinningasambandi við útvarpið. Þegar hlustað var á það var eitthvað alvarlegt á seyði; herinn kominn og jafnvel búið að setja útgöngubann. Mörg þeirra tengdu útvarpið við voðalega hluti.“

Í þessu sambandi minnir Arnar Eggert á öryggishlutverk Ríkisútvarpsins sem sé enn fyrir hendi jafnvel þótt það hafi auðvitað ekki eins mikla þýðingu eftir að miðlum fjölgaði svo mjög í landinu og netið ruddi sér til rúms.

Þurfa að búa yfir dínamík

Spurður um útvarpsstjörnur segir Arnar Eggert þær klárlega enn þá til. „Það er alveg bein lína frá Helga Hjörvar, Jóni Múla, Jónasi Jónassyni og þessum gömlu stjörnum yfir í yngra fólk á borð við Veru Illugadóttur á Rás 1 sem er sannarlega útvarpsstjarna af gamla skólanum. Aðrar útvarpsstjörnur sem koma upp í hugann eru til dæmis Þorgeir Ástvaldsson á Bylgjunni og Ólafur Páll Gunnarsson á Rás 2; menn sem hafa verið lengi að og eiga sína tryggu hlustendur. Til að endast eins lengi og þeir hafa gert þurfa menn að búa yfir ákveðinni náðargáfu og ekki síður dínamík.“

Hlaðvarpið nýtur vaxandi vinsælda en það er vitaskuld eins konar framlenging á útvarpinu. Arnar Eggert segir sömu lögmál gilda þar; þættir standi og falli með stjórnandanum. Séu þeir ekki góðir og höfði ekki til fólks eigi þættirnir litla möguleika.

Sjálfur á hann betra með að hlusta á tóna en tal þegar hann er að sýsla við annað í leiðinni. „Unga fólkið er mikið að hlusta á hlaðvörp og segist gjarnan gera það meðan það er úti að hlaupa eða í ræktinni. Þessu hef ég ekki náð tökum á sjálfur; verð að geta einbeitt mér að textanum, sérstaklega ef hann er fræðilegur og krefjandi.“

Að áliti Arnars Eggerts er útvarpið háðara því að endurnýja sig reglulega nú en áður. Í gamla daga hafi Rás 1 lítið þurft að velta því fyrir sér. „Þetta er bara útvarp. Punktur.“ Með Rás 2, sem stofnuð var 1983, kom krafa um meiri léttleika og með aukinni samkeppni þurfi menn reglulega að vega og meta til hvaða hópa þeir ætli að höfða.

Hann er þeirrar skoðunar að almennt gangi þetta vel hér á landi og fyrir vikið sé ekki ástæða til annars en bjartsýni fyrir hönd útvarpsins. Og útvarpsstjörnunnar. Vídeótækið er hann löngu búinn að afskrifa.

Rödd fyrir Morgunblaðið

„Man ég eftir Video Killed the Radio Star? Hvort ég man! Ég söng þetta lag hástöfum í tölvuleiknum Sing Star í gamla daga,“ segir Anna Marsibil Clausen, dagskrárgerðarkona á Rás 1. Það er til marks um lífseiglu lagsins en Anna Marsibil er fædd áratug eftir að það kom út.

„Ég man hvað mér fannst textinn sniðugur; sérstaklega fyrir þá sem eru með andlit fyrir útvarp og rödd fyrir Morgunblaðið,“ segir hún hlæjandi og greinarhöfundur tengir óþægilega vel við mál hennar.

Sjálf ætlaði Anna Marsibil ekki að vinna við útvarp; hafði ung spreytt sig á blaðamennsku og þegar hún hélt til Bandaríkjanna í framhaldsnám í faginu, hugðist hún einbeita sér að skrifum með áherslu á rannsóknarblaðamennsku. „Strax í fyrsta tíma var okkur hins vegar kennt hvernig gera á hlaðvarp og eftir það var ekki aftur snúið; ég heillaðist gjörsamlega af hljóðmiðlum. Sjálf var ég nýbyrjuð að hlusta á hlaðvarp á þessum tíma en hafði ekki áttað mig á þessum miklu möguleikum sem miðillinn býr yfir,“ segir Anna Marsibil en fyrsta verkefni hennar var að hljóðrita heimilislausan mann sem var að selja dagblöð á götum úti.

Mín köllun að segja sögur

„Mín köllun í fjölmiðlun er að segja sögur og þarna gerði ég mér grein fyrir því hversu vel hlaðvarp hentar til þess. Sama máli gegnir um útvarp enda er hlaðvarpið í raun og veru bara framhald af því. Fram að þessu var útvarp í mínum huga aðallega spjall í beinni útsendingu en ekki fyrirframunnið efni sem er meira mín gerð af útvarpi.“

Þegar hún sneri heim úr námi var enginn staður betur viðeigandi fyrir dagskrárgerð af þessu tagi en Rás 1 enda var eina skrifaða hlaðvarpið að koma þaðan á þeim tíma. Og þar fékk Anna Marsibil vinnu.

„Annars er það svo skemmtilegt við hlaðvarpið að hvaða Jón og Jóna sem er getur haslað sér þar völl. Yfirbyggingin er svo lítil. Hitt er annað mál að fólk þarf að búa yfir hæfileikum og geta höfðað til hlustenda til að halda uppi dagskrárgerð til lengdar; samkeppnin er mikil og ef hlustendur tengja ekki við það sem maður er að gera þá leita þeir bara eitthvað annað. Það er ekki eins auðvelt og margir halda að vera sífellt sniðugur; jafnvel þótt maður sé bara að spjalla við vini sína.“

Íþróttahlaðvörp hafa náð miklum hæðum hér á landi, ekki síst þau sem hverfast um knattspyrnu. „Ég er svo sem ekki manna fróðust um íþróttir en get ekki annað en dáðst að þessu. Menn virðast hreinlega ekki verða saddir af fótboltahlaðvörpum. Fyrst horfa þeir á níutíu mínútna leik og hlusta svo strax á eftir á þrjá sextíu mínútna hlaðvarpsþætti, þar sem leikurinn er krufinn til mergjar. Fyrir vikið stýra hlaðvarpsþættir eins og Dr. Football umræðunni í landinu mun meira en stærri íþróttamiðlarnir, hvort sem það er útvarp, sjónvarp eða blöðin. Þetta segir okkur að það er heilmikið gildi í því að hlusta á fólk spjalla saman, þótt það sé ekki mín nálgun.“

Styður hvort við annað

Hlaðvarpið er í tísku en að sögn Önnu Marsibilar mun það ekki ganga af útvarpinu dauðu. Ekkert frekar en efnisveitur á borð við Netflix hafi drepið línulega dagskrá í sjónvarpi. „Þetta styður klárlega hvort við annað, á því leikur enginn vafi, og hlaðvarpsstjörnur eins og Joe Rogan hafa dregið glænýjan hóp að miðlinum.“

Að áliti Önnu Marsibilar er styrkur útvarpsins öðru fremur fólginn í þrennu.

Í fyrsta lagi hvað það er persónulegur miðill. „Persónulegri miðill er ekki til, að mínu mati. Þegar við hlustum á útvarp líður okkur gjarnan eins og að við séum að hlusta á vini okkar tala saman; þeir gætu þess vegna verið í sófanum við hliðina á okkur.“

Í öðru lagi hvað útvarpið er þægilegur miðill og einfaldur í notkun, sem gerir okkur mjög auðveldlega kleift að gera eitthvað allt annað á meðan við erum að hlusta; keyra bíl, vaska upp og annað þess háttar. „Eigi að síður er áhugavert að útvarp getur haft mikil áhrif á okkur, koma skoðanamyndandi áhrif Útvarps Sögu til dæmis upp í hugann í því sambandi. Skoðanir sem eru oft og tíðum á skjön við meginstrauminn en hlustendur tengja við og upplifa sem staðreyndir þótt öll vísindi bendi til hins gagnstæða. Nægir að nefna loftslagmálin í því sambandi.“

Þriðja atriðið sem Anna Marsibil nefnir er hversu sjónrænn miðill útvarpið er. „Það hefur allt annars konar aðgengi að ímyndunaraflinu en sjónvarpið og blöðin. Miklar lýsingar geta kallað fram heljarstóra mynd í huga hlustenda. Fyrstu línurnar í laginu Rómeó og Júlía eftir Bubba Morthens eru gott dæmi um þetta.

Uppi í risinu sérðu lítið ljós

Heit hjörtu, fölnuð rós.

Matarleifar, bogin skeið

Undan oddinum samviskan sveið.

Þarna er lítið sagt en skýr mynd dregin upp. Margir telja sig til dæmis vita nákvæmlega hvar þetta ris er.“

Mun lifa okkur öll

Án þess að gera það í svo mörgum orðum er Anna Marsbil auðvitað löngu búin að svara spurningunni um það hvort vídeóið hafi orðið útvarpsstjörnunni að fjörtjóni. „Það er hreinlega ekki satt. Það er löngu ljóst. Útvarpið lifir enn þá mjög góðu lífi. Það á ekki síst við um sögur og fróðleik, eins og rásin sem ég vinn hjá sérhæfir sig í. Sumir eru viðkvæmir fyrir því að kalla Rás 1 gömlu Gufuna en mér finnst alltaf svolítil hlýja í því. Manni þykir alltaf vænt um gömlu góðu Gufuna sína, þótt ég hafi ekki byrjað að hlusta á hana að neinu gagni fyrr en fyrir nokkrum árum. Mikil og góð vinna hefur verið unnin í dagskránni á síðustu árum og sóknarfærin mörg. Frásögnin á sér hvergi lengri sögu og betri hefð en á Rás 1, hlustendahópurinn er dyggur og ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi tegund af dagskrárgerð hefur enn mikið gildi.“

– Verður útvarpið enn þá eins vinsælt eftir fjörutíu ár?

„Já, það myndi ég ætla. Útvarpið á eftir að lifa okkur öll.“

Gullöld útvarpsins er núna

Stórt bros færist yfir andlit Sigurðar Þorra Gunnarssonar, dagskrárstjóra K100, þegar Video Killed the Radio Star ber á góma. Frábært lag, segir hann, en fullyrðingin úti á túni.

„Menn hafa raunar spáð dauða útvarpsins mun lengur; fyrst þegar sjónvarpið kom til sögunnar og síðan með vídeóinu, DVD-tækninni, MP3-spilaranum, iPodnum og hvað þetta nú allt heitir. Ég spyr bara: Hvar eru þessar græjur nú?“ segir Sigurður og bætir við að útvarpinu hafi gengið prýðilega að lifa með netinu og öllum lystisemdunum sem því fylgja.

Í seinni tíð hafa efnisveitur á borð við Spotify rutt sér til rúms en Sigurður segir þær vinna með útvarpinu en ekki gegn því. „Það hefur alltaf verið til fólk sem vill taka uppáhaldstónlistina sína upp á kasettur, brenna hana á geisladiska og búa sér til lagalista. Það breytir ekki því að útvarpið er enn þá sá staður þar sem fólk uppgötvar aðallega nýja tónlist. Fólk leitar alltaf á náðir útvarpsins.“

Persónulegasti miðillinn

Skýringin felst öðru fremur í eðli miðilsins. „Útvarpið er persónulegasti miðill sem til er; hlustendum líður gjarnan eins og þeir séu aðilar að samtalinu sem á sér stað og að þeir sem eru að tala séu jafnvel staddir heima í stofu hjá þeim. Það er meiri hópupplifun að horfa á sjónvarp.“

Sigurður er raunar þess sinnis að hafi einhvern tíma verið hægt að tala um gullöld útvarpsins þá sé það núna. „Hefðbundið línulegt útvarp hefur haldið sínu og svo hefur hlaðvarpið bæst við en það er auðvitað ekkert annað en ólínulegt útvarp. Í dag getur hver sem er gert útvarpsþátt heima hjá sér og þjónað þrengri hópum en hægt er að gera í línulegri dagskrá, þar sem óhjákvæmilega þarf að taka mið af markaðnum. Þess utan eru hljóðbækur, sem njóta sívaxandi vinsælda, ekkert annað en útvarp.“

Sigurður segir rannsóknir staðfesta að enginn miðill hafi staðist tímans tönn eins vel og útvarpið en til að mynda hlusta yfir 80% Íslendinga eitthvað á útvarp í viku hverri. „Útvarpið er þeirrar náttúru að það smýgur alls staðar inn; það er alltumlykjandi og í dag erum við flest með það í vasanum. Það hefur líka þann eiginleika að hægt er að gera ýmislegt annað meðan maður er að hlusta; slá garðinn, vaska upp eða keyra bílinn. Raunar má færa fyrir því gild rök að bíllinn sé höfuðvígi útvarpsins. Auðvitað getur fólk núorðið tengt Spotify og lagalista í símanum við hátalarana í bílnum en er útvarpið samt ekki og verður besti ferðafélaginn? Hvort sem það er létt spjall eða bara hreinar tónlistarstöðvar eins og Retro.“

Blússandi gangur og nýsköpun

Hann fylgist vel með í Bretlandi og segir hvert auglýsingasölu- og hlustunarmet af öðru nú falla þar í útvarpi enda sé stöðvaflóran fjölbreytt og mikill metnaður lagður í dagskrárgerð. „Það er mikil fjárfesting og nýsköpun í gangi í bresku útvarpi og nefna mætti fleiri lönd í því sambandi.“

Þrátt fyrir að rétt losa þrítugt hefur Sigurður verið viðloðandi útvarp í nítján ár. „Ég var ekki gamall þegar ég heyrði og sá Gest Einar Jónasson, nágranna minn, á RÚVAK og á því augnabliki ákvað ég að leggja útvarpsmennsku fyrir mig. Fyrstu stöðina stofnaði ég tólf ára gamall og menntaði mig síðar í þessum fræðum; er með meistaragráðu frá Háskólanum í Sunderland á Englandi.“

Sigurður hefur haldið marga fyrirlestra um útvarp og þegar hann spyr viðstadda hvort þeir hafi verið að lesa, horfa eða hlusta fara jafnan flestar hendur á loft þegar hann nefnir síðastnefnda kostinn. „Á endanum fara yfirleitt allar hendur upp, þar sem þeir sem ekki hafa verið að hlusta á útvarp hafa annaðhvort verið að hlusta á hlaðvarp eða hljóðbók.“

Hann segir styrk útvarpsins ekki síst fólginn í því að aðlögunarhæfni þess sé mikil. „Sjálfsagt verður svokallað lagalistaútvarp ekki til að eilífu en þá lagar útvarpið sig bara að þeim breytingum, eins og það hefur alltaf gert.“

Hann segir gamla góða óskalagið heldur á útleið enda sé orðið svo auðvelt að nálgast alla mögulega og ómögulega tónlist. Og þó. „Það er alltaf einhver sjarmi yfir því að fá lag leikið sérstaklega fyrir sig í útvarpi.

Þá hefur spjall við hlustendur enn þá ótvírætt gildi í útvarpi, þar sem þeir fá að segja sínar sögur.“

Hámhlustað á nóttunni

Tæknin hefur líka verið vatn á myllu útvarpsins. Missti maður af þætti hér áður var ekkert við því að gera en nú lifa þeir mun lengur. Sigurður nefnir síðdegisþáttinn sem hann stjórnar ásamt Loga Bergmann á K100 sem dæmi. Auk þess að vera í beinni útsendingu á K100 eru þeir félagar í mynd á mbl.is meðan á útsendingu stendur. Að þætti loknum er hann klipptur til og settur í bútum inn á vefinn, auk þess sem hann er aðgengilegur í heild sinni sem hlaðvarp. „Þetta þýðir að við erum stundum að fá viðbrögð frá hlustendum nokkrum dögum síðar; einhverjum sem var að hámhlusta á þáttinn á næturvaktinni eða annars staðar.“

Það er einnig áhugaverð þróun að sjónvarp og prentmiðlar eru farnir að leita inn í hljóðvarpið, gegnum hlaðvörp. „Það verður æ algengara að prentmiðlar haldi úti hlaðvörpum, auk þess sem sjónvarpið er að færa sig upp á skaftið; láta leikara spjalla um þættina sem þeir leika í og þar fram eftir götunum. Allt vinnur þetta saman.“

Sigurður hafnar því ekki að frelsi hlaðvarpsins hafi skapað ákveðna fordóma í garð hefbundinna fjölmiðla og línulegrar dagskrár; sumum þyki orðið útvarp til dæmis ekki nægilega kúl. Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur brugðist við þessu en útvarpshluti þess heitir nú BBC Audio í stað BBC Radio áður.

Að sögn Sigurðar þykjast sumir aldrei hlusta á útvarp né horfa á sjónvarp en þegar kafað er niður í hegðun þeirra kemur í ljós að þeir eru að nota þessa miðla; ef ekki þá hefðbundnu þá eitthvert afsprengið. „Þess vegna mun útvarpið aldrei deyja.“

Getur brugðist strax við

Fréttaflutningur í útvarpi stendur býsna styrkum fótum, jafnvel þótt samkeppnin hafi aldrei verið meiri. Þetta er skoðun Valgerðar Jóhannsdóttur, sem hefur umsjón með meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

„Útvarpið hefur alltaf haft þá sérstöðu að það getur brugðist strax við. Um leið og stórtíðindi verða, náttúruhamfarir eða annað, þá er hægt að ganga út frá því að umfjöllun sé hafin í útvarpinu,“ segir hún.

Auðvitað á þetta einnig við um sjónvarp og vefmiðla en það sem útvarpið hefur fram yfir þá er að hægt er að gera sitthvað annað á meðan tekið er á móti upplýsingum. Til dæmis er hægt að kveikja á útvarpinu meðan maður er undir stýri, þegar útilokað er að horfa á sjónvarpið eða bruna um netið. „Þegar hamfarir eiga sér stað eða önnur stórkostleg tíðindi hefur fólk enn þá tilhneigingu til að leita á náðir útvarpsins, ekki síst eldra fólkið,“ segir Valgerður.

Sjónvarpið frekara á athyglina

Með bættri tækni og aukinni þekkingu er minna fyrir beinni útsendingu í sjónvarpi haft, svo sem fundir almannavarna vegna heimsfaraldursins eru gott dæmi um, og enda þótt það að sjá það sem fram fer hafi alltaf aðdráttarafl þá bendir Valgerður á að sjónvarpið sé í eðli sínu mun frekara á athygli fólks en útvarpið. „Það fer minna fyrir útvarpinu; það er ekki eins ágengt. Þess vegna er útvarpið enn þá mest notaði miðillinn í heiminum. Það er svo einfalt og þægilegt; allt sem þú þarft er viðtæki og sendir og að ýta á einn takka.“

Valgerður segir útvarpið hafa gengið í endurnýjun lífdaga gegnum hlaðvarpið. Það sé framlenging á útvarpinu og njóti vaxandi vinsælda; ekki síst fréttatengt efni, þar sem menn velta vöngum yfir málefnum líðandi stundar. „Það er líka áhugavert hversu vel hlaðvarpið er að ná til yngri hlustenda og um leið að opna heim hljóðvarpsins fyrir þeim.“

Ýmsar íslenskar útvarpsstöðvar eru með fasta fréttatíma, má þar nefna Rás 1 og Rás 2, Bylgjuna og K100. Valgerður segir þessa fréttatíma enn þá hafa prýðilega hlustun, þrátt fyrir að línuleg dagskrá eigi almennt séð undir högg að sækja, bæði í útvarpi og sjónvarpi.

Hvað stutta fréttatíma á heila og jafnvel hálfa tímanum varðar telur Valgerður líklegra að þeir nái fyrst og fremst til fólks sem er þegar að hlusta á útvarpið. Fáir rjúki til og hendi öllu frá sér til að kveikja á fréttum klukkan tvö. Öðru máli gegni um hádegis- og kvöldfréttir sem margir geri sér enn þá far um að heyra og kveikja á sérstaklega. „Þetta á ekki síst við um eldri kynslóðina. Hún ýmist kveikir eða hækkar í útvarpinu þegar fréttatíminn byrjar. Þannig að útvarpið hefur enn þá hlutverki að gegna þegar kemur að miðlun frétta og fréttatengds efnis.“

K100 á mikilli siglingu

Rás 2 hefur mesta hlutdeild meðal þeirra útvarpsstöðva á Íslandi sem mældar eru í rafrænum ljósvakamælingum Gallup. Samkvæmt nýjustu mælingunni, fyrir vikuna 27. júlí til 2. ágúst 2020, er hún með 32,9% hlutdeild í aldurshópnum 12 til 80 ára. Bylgjan kemur næst með 28,3%, Rás 1 með 20,2% og þá K100 með 9,5%. Aðrar stöðvar eru með mun minni hlustun í þessum breiða aldurshópi.

K100, sem Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, á og rekur, hefur sótt mjög í sig veðrið á þessu ári en um síðustu áramót var hlutdeild stöðvarinnar 6,2%. Í ársbyrjun 2019 var K100 með 3,9% hlutdeild.

Markhópurinn 12 til 49 ára er mældur sérstaklega og þar hefur Bylgjan vinninginn, er með 31,1% hlutdeild. K100 hefur á hinn bóginn verið á mikilli siglingu í þeim markhópi; farið úr 13,9% um síðustu áramót í 23,6% nú sem er sama hlutdeild og Rás 2. FM957 er í fjórða sæti með 8,3% hlustun.

Ekki kemur á óvart að Rás 1 er með mun meiri hlustun í eldri aldurshópnum en hlutdeild hennar í markhópnum 12 til 49 ára er aðeins 3,7%.

Í ársbyrjun 2019 var Bylgjan með mesta hlutdeild í báðum markhópum, 33,3% í 12 til 80 ára og 37,8% í 12 til 49 ára. Hún hefur því tapað á bilinu 5 til 6,7 prósentustigum á liðlega einu og hálfu ári. Hlutfallsleg hlustun á Rás 1 hefur líka minnkað um tæp 3 prósentustig á sama tíma en Rás 2 hefur á hinn bóginn um 3 prósentustiga meiri hlustun nú en í ársbyrjun 2019. Var með 29,8% þá.