Martin Birch var vel liðinn í málmheimum.
Martin Birch var vel liðinn í málmheimum. — ultimateclassicrock.com
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Málmheimar hafa í vikunni drúpt höfði til minningar um breska upptökustjórann og hljóðblandarann Martin Birch sem lést um liðna helgi, 71 árs að aldri. Banameins hans var ekki getið.

Málmheimar hafa í vikunni drúpt höfði til minningar um breska upptökustjórann og hljóðblandarann Martin Birch sem lést um liðna helgi, 71 árs að aldri. Banameins hans var ekki getið. Birch var kunnur fyrir samstarf sitt við margar af ástsælustu sveitum málmsögunnar, svo sem Iron Maiden, Black Sabbath, Deep Purple, Rainbow, Whitesnake og Blue Öyster Cult. Þá vann Birch með Fleetwood Mac og Jeff Beck í upphafi ferils síns á árunum í kringum 1970.

„Martin Birch átti snaran þátt í því að skapa hljóðheim þungarokksins eins og við þekkjum hann,“ sagði í grein á vefmiðlinum Classic Rock og fleiri rokkmiðlar hafa minnst hans á svipuðum nótum.

David Coverdale, leiðtogi Whitesnake, var fyrstur til að minnast Birch á samskiptamiðlum; sagði hann hafa verið kæran vin og að hann hefði skipað veglegan sess í sínu lífi allt frá fyrstu kynnum en Birch stjórnaði seinast upptökum á Slide It In 1984.

Geezer Butler, bassaleikari Black Sabbath, minntist Birch líka og sagði hann hafa verið bráðsnjallan upptökustjóra. „Það voru forréttindi að vinna með honum að gerð Black Sabbath-platnanna Heaven and Hell og Mob Rules,“ skrifaði hann á Twitter.

Þetta voru einmitt plöturnar sem Sabbath gerði með Ronnie James Dio við hljóðnemann og Wendy Dio, ekkja söngvarans, vottaði Birch einnig virðingu sína; mjög kært hefði verið með þeim Ronnie.

Frægastur er Birch þó líklega fyrir samstarf sitt við Iron Maiden en hann tók alls upp átta breiðskífur frá og með Killers og tvær tónleikaplötur með Járnfrúnni. Eftir þá síðustu, Fear of the Dark, sem kom út 1992, settist hann í helgan stein, aðeins 43 ára.

Einfaldlega snillingur

„Hann var einfaldlega snillingur,“ sagði Steve Harris, bassaleikari og stofnandi Iron Maiden. „Hann var ekki bara upptökustjóri, heldur frábær hljóðmaður líka, þannig að hann vissi upp á hár hvernig fá mátti besta sándið. Hann var líka snjall í að brýna menn og draga fram það besta í þeim. Þess utan mikið ljúfmenni og húmoristi, þannig að það var mjög auðvelt að vinna með honum. Samband okkar var einstakt og bandið í heild er í sárum vegna þessara tíðinda.“

Bruce Dickinson, söngvari Maiden, sagði Birch hafa verið lærimeistara sinn í söng og þerapista í lífsins ólgusjó. Þá hafi hann haft hæfileika til að skila böndum eins og þau voru í raun og sann. „Hann var enginn brúðumeistari sem falsaði hljóm bandanna. Þess utan var hann yndisleg, hlý og fyndin manneskja,“ sagði hann.

Sjálfur leit Birch á vináttu og langt samstarf sem kost. „Sú staðreynd að ég gjörþekki böndin sem ég vinn með hjálpar mér að átta mig strax á því hverju þau vilja ná fram og jafnvel hverju þau geta áorkað jafnvel þótt þau geri sér ekki alveg grein fyrir því sjálf,“ hefur breska ríkisútvarpið, BBC, eftir honum.

Og Iron Maiden var í mestu uppáhaldi hjá honum. „Samstaðan er svo mikil og enginn reynir að skyggja á annan í liðinu,“ hefur breska blaðið The Guardian eftir honum.