Sjúkrabílar Rauði krossinn á Íslandi hefur tekið fyrstu skref í stórtækri endurnýjun sjúkrabílaflotans.
Sjúkrabílar Rauði krossinn á Íslandi hefur tekið fyrstu skref í stórtækri endurnýjun sjúkrabílaflotans. — Morgunblaðið/Eggert
Rauði krossinn á Íslandi hefur fest kaup á 25 nýjum sjúkrabifreiðum sem er liður í stórtækri endurnýjun flotans. Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri RKÍ, segir að það hafi verið mjög hátíðlegt að veita nýju bílunum viðtöku.

Rauði krossinn á Íslandi hefur fest kaup á 25 nýjum sjúkrabifreiðum sem er liður í stórtækri endurnýjun flotans.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri RKÍ, segir að það hafi verið mjög hátíðlegt að veita nýju bílunum viðtöku. RKÍ hafi í 90 ár komið að rekstri sjúkrabíla og það sé hluti af „DNA-mengi“ félagsins. Hún segir það löngu tímabært að endurnýja gamla flotann sem sé úr sér genginn, en nýr bíll hefur ekki bæst við síðan 2015. Einhver rekistefna hafi verið í samningum við ríkið en það hafi verið leyst með góðu samstarfi allra aðila. RKÍ er eigandi bílanna en heilbrigðisstofnanir og slökkvilið um allt land sjái um akstur þeirra í gegnum þjónustusamning við ríkið.

Sex bílar hafa þegar þegar verið teknir í gagnið og nýir munu bætast ört í flotann. Kristín segir að á næsta ári verði keyptir 35 bílar til viðbótar og því um gríðarmikla fjárfestingu að ræða. Kaupverð hvers bíls er um 25 milljónir króna en að hennar sögn er öll fjármögnun tryggð og frágengin.

Nýtt útlit og betri aðstaða

Bílarnir hafa nýtt útlit og eru með svokölluðu „Battenburg“-mynstri. Kristín segir að mörgum finnist þeir komnir í heim kvikmynda við þá ásýnd, en bílarnir séu mun sýnilegri í umferðinni og góð reynsla sé af slíkum merkingum.

Bílarnir hafa aukið burðarþol og betri akstureiginleika en þeir eldri og eru búnir loftfjöðrun sem auðveldar mjög akstur á sjúkrabörum inn og úr afturrými. Ný hönnun að innan skapar betra umhverfi bæði fyrir sjúkraflutningamenn og sjúklinga. sighvaturb@mbl.is