Eitt mikilvægasta hlutverk þingmanna og ráðherra að hlusta á þjóðina.

Þær umræður, sem spruttu upp fyrir skömmu á milli Gylfa Zoëga, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra, um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kórónuveirunni, eru af hinu góða. Hvorki ráðherrar né einstakir þingmenn eru handhafar hinnar einu réttu skoðunar á því, hvernig takast eigi á við faraldurinn.

Það er heldur ekkert athugavert við að hagsmunaaðilar láti til sín heyra. Það er fullkomlega eðlilegt að talsmenn ferðaþjónustunnar geri grein fyrir sjónarmiðum atvinnugreinarinnar og hver hennar sýn er á þá stöðu mála, sem upp er komin.

Og kannski má segja, að við núverandi aðstæður sé eitt mikilvægasta hlutverk ráðherra og þingmanna að hlusta. Þeir verði að átta sig á mörgum mismunandi sjónarhornum til þess að komast að viðunandi niðurstöðu, þegar kemur að ákvörðunum um aðgerðir eða aðgerðarleysi.

Hið sama á við um stjórnarandstöðuflokkana. Það skiptir máli í lýðræðisríki, að þeir komi að þessu borði.

Í því sambandi má minna á viðbrögð Viðreisnarstjórnarinnar síðla sumars 1968 vegna þeirra efnahagserfiðleika, sem þá steðjuðu að. Hún óskaði eftir viðræðum við stjórnarandstöðuflokkana til þess að láta á það reyna, hvort hægt væri að ná víðtækri samstöðu um aðgerðir vegna þeirrar djúpu efnahagslægðar, sem þá gekk yfir landið. Þeim viðræðum lauk þegar vika var liðin af nóvembermánuði það ár án þess að samkomulag tækist en engin spurning er um að það eitt að boðið var til slíkra viðræðna hafði jákvæð áhrif.

Og að sjálfsögðu skiptir náið samráð við aðila vinnumarkaðarins máli. Fram undan eru viðræður þeirra í milli um hvort forsendur hafi brostið vegna lífskjarasamningsins, sem gerður var fyrir nokkrum misserum.

Væntanlega er öllum ljóst að aðstæður eru nú gjörbreyttar frá því að þeir samningar voru gerðir. Ferðaþjónustan er í raun í rúst og mikið hefur dregið úr verzlun og þjónustu í sumum greinum, þótt hún hafi aukizt í öðrum.

Það sem hins vegar á ekki við í þessari stöðu er að bölsótast út í sjónarmið og viðhorf annarra. Það leysir engan vanda. Vafalaust eru einhverjir í hópi atvinnurekenda þeirrar skoðunar að þeir eigi að segja lífskjarasamningunum upp vegna forsendubrests og að innan verkalýðshreyfingarinnar séu að rísa upp óróaöfl, sem hafi ekkert skynsamlegt fram að færa.

Þeir hinir sömu eru ekkert betur settir með því að beina stóryrðum að verkalýðshreyfingunni.

Og hið sama má segja um verkalýðsforystuna. Hún verður að horfast í augu við að fyrirtækin, sem skapa störfin í landinu, standa frammi fyrir stöðu, sem þau hafa aldrei áður lent í og að eina leið þeirra kann að vera sú að fækka fólki.

Alveg með sama hætti og heimsbyggðin öll er í sama bát, þegar kemur að því að takast á við faraldurinn erum við eyjaskeggjar hér norður í höfum í sama bát, þegar kemur að því að takast á við afleiðingar faraldursins.

Kannski er eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnar við slíkar aðstæður að stuðla að því að skapa samstöðu meðal þjóðarinnar gagnvart þessum vágesti. Það tókst vel í upphafi en þegar frá líður upphefst gamalkunnugt rifrildi.

Eins og áður hefur verið vikið að hér á þessum vettvangi er nauðsynlegt að gæta sérstaklega að einum þjóðfélagshópi við núverandi aðstæður en það er unga fólkið.

Þeir í þeim hópi, sem eru að ljúka háskólaprófi, eru að leita fyrir sér á vinnumarkaði við erfiðari aðstæður en nokkur ung kynslóð frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari, þegar Evrópa var í rúst. Það sama á við það æskufólk, sem leitar út á vinnumarkaðinn á næstu árum.

Það er ekki of mikil krafa til stjórnvalda, að þau hugi sérstaklega að þessu unga fólki og leiti leiða til að rétta því hjálparhönd við erfiðar aðstæður.

Þótt húsarústir blasi ekki við þessu unga fólki er það að fást við annars konar rústir. Og eitt er víst: Þessi lífsreynsla mun móta ævi þessara kynslóða meira en nokkuð annað.

Alveg eins og kalda stríðið mótaði kynslóð greinarhöfundar mun kórónuveiran og efnahagslegar afleiðingar hennar móta þær kynslóðir, sem nú eru að leggja út í lífið að háskólanámi loknu.

Það er fyrirsjáanlegt að allt verður ekki aftur eins og það var. Daglegt líf fólks breytist. Það mun draga stórlega úr endalausum ferðalögum á milli landa. Það mun aftur hafa miklar breytingar í för með sér í uppbyggingu atvinnulífs. Flugfélög munu ekki skipta jafn miklu máli og áður. Fjarfundatæknin mun ryðja sér til rúms í ríkara mæli í samskiptum á milli þjóða og innan samfélaga. Það verður meira um að fólk vinni heima hjá sér eða stundi fjarnám í skólum. Og líklegt má telja að eftirspurn eftir vörum og þjónustu dragist saman vegna þess að fólk átti sig á að það kemst vel af án margs, sem hefur hingað til þótt eftirsóknarvert.

Í aðdraganda þingkosninga á næsta ári kemur í ljós, hvort stjórnmálaflokkarnir átta sig á þessum breytingum og laga stefnu sína og málflutning að þeim eða hvort þeir birtast kjósendum eins og einhvers konar risaeðlur.

Það er ekki auðvelt að sjá hverjir þeirra skynja þessar breytingar eða hverjir sitji fastir í gömlum tíma, sem er liðinn.

Hitt fer ekki á milli mála að samfélagsumræður mótast enn um of af gamla skólanum.

Þeir sem vilja kynnast honum betur ættu að lesa ritling eftir Jónas Jónsson frá Hriflu, sem út kom 1955 og ber heitið: Jón Hreggviðsson og glímukappi Austurstrætis.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is