Kamilla Guð-brandsdóttir fæddist 29. ágúst 1926. Hún lést 14. júlí 2020.

Útförin fór fram 14. ágúst 2020.

Það er sárt að kveðja fallega og góða sál. Sýnu verra er að kveðja ástvin hinstu kveðju. Ljóslifandi myndir af samverustundum streyma um hugann og minningarnar fyssa fram og tárin steypast úr hvörmum. „Amma er amma,“ var hún vön að segja. Já, hún var sönn amma, falleg og góð fyrirmynd, leiðbeinandi um trúna og lífið; drengur góður. Hún hafði stórt hjarta, þar sem hún bjó ástvinum sínum stað. Ég finn hlýju hennar enn í dag.

Ég hugsa, að Húsmæðraskólanámið hafi mótað hana, dregið fram hæfileikana. Hún var mikil hannyrðamanneskja, heklaði og saumaði út og hafði fallega hönd. Saumaskapurinn vakti athygli.

Eitt sinn spurði gestur á Hótel Valhöll, hvaðan hún hefði svuntuna sína. Hún leysti hnútinn, braut saman og rétti gestinum að gjöf. Sjálf hafði hún saumað. Oft lásum við saman bækurnar, uppskriftir og reglur skólans. Amma var reglusöm og mikið snyrtimenni. Aldrei lögðum við aftur augun fyrr en fötin voru samanbrotin, sálmur sunginn, bænirnar þuldar, brjóstið signað og ennið kysst. Þá fyrst mátti svefninn guða á gluggann. Ég hlýddi á sögur um æskuna, foreldra og forfeður, og í gamalli bók á rykfallinni hillu geymi ég minningar hennar.

Jóladagsboðin voru með miklum kræsingum, smurbrauði og brauðtertum. Í miðju stóð aspassúpan hennar, klassísk velouté flauelsrjómasúpa; einstök, soðin af ást og ástríðu. Súpugerðin tók ár og var soðinu safnað milli jóla. Áhuginn á töfrunum vaknaði við eldavélina hjá ömmu, mestur á súpunni góðu. Hún sagði síðar, að ég hefði tekið fram úr henni við súpugerðina. Hún var alla tíð lítillát.

Undir lokin sat hún við borðið og mærði kokkinn. Það var ljúft. Síðustu jólin féll það í minn hlut að bjóða henni til veislu, í fyrsta og hinsta sinn.

Minnisstæðar eru veiðiferðir, vorferðir í leit að lóunni, en mest ferðalög til Garda á Ítalíu. Kvöld eitt sátum við úti við vatnið og sólin var að hverfa. Þá sagði ég: „Sjáðu, amma, það er eins og Ólafsvíkur-Enni vaki yfir okkur!“ Fjallið minnti vissulega á æskuslóðirnar. Ólafsvík, Enni og jökullinn hennar áttu alltaf vísan stað í hjartanu.

Hún bað fyrir okkur og var kletturinn í lífinu. „Ömmu þykir vænt um þig,“ sagði hún, líka í síðasta ferðalagi okkar saman, í sjúkrabílnum.

Sorglega leiddi fall og eftirköst þess að endalokunum.

Hún kenndi mér að meta sönginn, þessi fallega sópran, einkum kórverk og sóttum við tónleika. Eitt ljóð söng hún oft fyrir mig og tók af mér loforð. Amma tók annars af mér mörg loforð. Einu sinni svaf ég ófriðlega og dreymdi, að hún væri öll. Þegar sá dagur kæmi, mátti ég syrgja um stund en síðar ekki meir. Mörg loforðin hef ég haldið, ýmis svikið. Sárast þykir mér nú að geta ekki haldið loforð mitt um ljóðið, hennar hinstu kveðju. Hún vildi, að það yrði sungið við útförina við sálminn Amazing Grace. Ljóðið er horfið, minningin lifir. Það geymir kveðju til ástvina, sem hún ann svo heitt, en minnir á, að enginn fái hlutunum breytt. Söngur hennar ómar enn í höfði mér. Svo fyrnist yfir og glefsur standa eftir. Hún hughreystir og biður okkur að syrgja ekki, enda mætumst við aftur á ný. Ég hef alltaf haft trú á orðum hennar.

Og í dag kveð ég hana ömmu Millu hinstu kveðju. Því fær enginn breytt. Hún unni mér og ég henni. Í minningu um fallega og góða sál, bið ég fyrir henni og þeim, sem nutu gæfunnar að kynnast henni og þeirri hlýju, sem hún gaf af sér.

Elsku amma Milla, góða nótt!

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Hrannar Már.

Ég man ekki eftir okkar fyrstu kynnum enda þú og afi búin að vera í sambúð í um áratug áður en ég fæddist en ég man vel eftir öllu því sem þú gerðir fyrir mig.

Það voru ófáar veiðiferðirnar þar sem þú sast inni í bílnum að bíða eftir að afi kláraði yfirferð um hyljina á meðan ég og fleiri vorum úti að fylgjast með eða jafnvel að leika okkur við eitthvað allt annað en að veiða.

Alltaf gat maður stólað á að þegar maður kom í bílinn þá varst þú til staðar og tilbúin að bjóða manni samlokur, kökur og drykki ásamt því að hlýja litlum fingrum sem voru orðnir bláir af kulda.

Ekki minnkaði hlýjan frá þér þegar ég eignaðist börnin mín en Guðrún Lilja og Katrín Harpa munu alltaf muna eftir þér og hversu mikið þú spilaðir við þær og lékst eftir bestu getu þessi seinustu ár.

Ég náði sem betur fer að hitta þig með Guðlaugu Kristínu skömmu áður en þú lést og þó svo að hún hafi verið of ung til þess að muna þessa heimsókn þá kemur hún til með að þekkja bæði þig og afa af sögunum sem ég kem til með að segja henni.

Í hvert skipti sem ég kem í hyljina þína í Stóru-Laxá verður mér hugsað til þín og afa og rifjast sögurnar ennþá mjög vel upp þó svo að sumar þeirra hafi ég ekki heyrt síðan á seinustu öld.

Nú fáið þið afi að hvíla saman héðan í frá.

Hvíl í friði, elsku amma Milla.

Guðmundur (Mummi).