Dr. Wolfgang Edelstein fæddist 15. júní 1929. Hann lést 29. febrúar 2020.

Útför hans fór fram hér á landi í kyrrþey.

„(Að) búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi.“

Í námi mínu við Freie Universität í Vestur-Berlín kynntist ég tveimur mönnum sem lögðu stund á hagfræði menntunar, sem þá naut ekki mikillar athygli innan hagfræðasviðsins. Vinnuafl var aðföng til framleiðslu og skólunum var ætlað að búa þau til. Þessir menn tengdust nýrri stofnun innan þýska Max-Planck-vísindafélagsins, Institut für Bildungsforschung, sem valin hafði verið staður í Vestur-Berlín.

Þeir kynntu mig fyrir landa mínum Wolfgang Edelstein, einum af fyrstu fræðimönnum þeirrar stofnunar og einn af stjórnendum hennar til starfsloka.

Með okkur Wolfgang tókst vinátta sem entist vel og dýpkaði með árunum. Frjó hugsun hans og þau viðhorf til menntunar að hún hafi sjálfstætt gildi fyrir mótun einstaklings og samfélags, hafði mikil áhrif á sýn mína á hagfræði.

Ég vann með honum að söfnun og úrvinnslu upplýsinga um íslenska skólakerfið og hóf að námi loknu störf í menntamálaráðuneytinu.

Wolfgang var þá ráðgjafi ráðuneytisins og frumkvöðull margra umbóta. Hann hafði beitt sér fyrir stofnun deildar innan þess sem sinnti skólarannsóknum og námsefnisgerð og hann kom að gerð laga um grunnskóla sem sett voru 1974. Orðin hér í upphafi um markmið grunnskóla má tileinka Wolfgang Edelstein. Hann var merkisberi þeirrar stefnu og þeirri hugsunar sem þar kemur fram.

Aðrir munu gera fræðastörfum Wolfgangs skil. Ég minnist hér vináttu hans, hjálpsemi og hlýju. Á Berlínarárunum reyndist hann okkur, fjárlitlum stúdent og fjölskyldu, vel með útvegun vinnu í skólafríum, aðstoð í húsnæðismálum o.fl. en mest virði var sú vinátta sem batt okkur ævilangt. Til heiðurs honum völdum við yngsta barni okkar nafn sem vísar til hans. Vináttu við okkur deildi kona hans og samstarfsmaður Monika Keller.

Þeirrar vináttu naut Júlíana tuttugu árum síðar þegar hún var í Berlín í tónlistarnámi og Rakel í námsleyfi sínu enn síðar. Wolfgang og Monika voru ætíð til staðar með hjálp og hlýju og góðan félagsskap.

Wolfgang var mikill Íslendingur og sjö áratuga búsetu erlendis var ekki að merkja á máli hans. Tengsl hans við landið voru mikil. Rætur hans í menningu og mannlífi landsins voru sterkar og hann fylgdist alla tíð með því sem hér gerðist í stjórnmálum, félagsmálum og menningarmálum. Monika og börn þeirra, Anna Lilja og Benjamín, deildu þessum rótum með honum og eiga hér vensla- og vinafólk og voru hér tíðir gestir.

Síðari árin dvöldu Wolfgang og Monika hér á landi nokkrar vikur sumar hvert. Þótt sá tími hafi verið ásettur vegna vinafjölda reyndum við ætíð að finna tíma til stuttra ferða með þeim um landið því náttúran og fjalladýrðin var þeim kær. Ferðir að Fjallabaki, um Suðurland og Snæfellsnes og síðast að Gjánni í Þjórsárdal og nágrenni eru í huganum baðaðar sólskini.

Við sendum Moniku, Önnu Lilju og Benjamín innilegar samúðarkveðjur. Það er sárt að kveðja góðan vin en gott að eiga um hann bjartar minningar.

Indriði, Rakel, Júlíana Rún, Indriði Haukur og Úlfhildur Ösp.

Á jiddísku er orðið „Mensch“ iðulega notað um góðan mann. Wolfgang Edelstein var sannarlega mikill „Mensch“. Hann fluttist til Íslands drengur að aldri eftir að fjölskyldu hans, sem átti eftir að auðga íslenskt samfélag, var bjargað frá Þýskalandi nasismans árið 1938. Faðir hans, Heinz Edelstein sellóleikari, var einn þeirra sem lagði grunn að tónlistarlífi í landinu, og Wolfgang sjálfur helgaði drjúgan hluta starfsævi sinnar rannsóknum og fræðslu um málefni skóla, náms, þroska og samfélags hér á landi þótt hann hafi aðeins haft hér fasta búsetu í um áratug. Wolfgang þekkti af eigin reynslu hvernig það er að vera hjálparlaus, rótlaus og mállaus í nýju landi. En það var tekið vel á móti honum í hinu nýja og framandi landi og hann eignaðist fljótt trausta vini sem áttu eftir að vera honum trúir til æviloka.

Þegar við vorum við nám í Berlín var Wolfgang einn forstöðumanna Max-Planck-stofnunarinnar í menntarannsóknum sem þá var talin flaggskip menntavísinda í Þýskalandi. Sjálfur hafði Wolfgang átt þátt í að þróa hugmyndina að stofnuninni, ásamt fleirum og m.a. vini sínum heimspekingnum Jürgen Habermas. Báðir voru þeir af þeirri kynslóð þýskra fræðimanna sem beið það risavaxna hlutverk að endurhugsa nám og menntun eftir hörmungar nasismans og heimsstyrjaldarinnar. Hvað hafði gert að verkum að þjóð hugsuðanna og skáldanna veitti þeim atburðum sem leiddu til helfararinnar ekki meira viðnám en raun bar vitni? Hvernig þurfum við að mennta og valdefla ungt fólk til að það geti orðið virkir og myndugir borgarar í friðsamlegu lýðræðissamfélagi? Þessi spurning átti eftir að verða leiðarstef í lífi og starfi Wolfgangs. Hann hugsaði sögulega en gerði sér jafnframt skýra grein fyrir þeim gríðalegu áskorunum sem hefðarrof og ör nútímavæðing allra sviða samfélagsins hafa fyrir uppalendur, kennara og skóla.

Wolfgang var einlægur upplýsingamaður í besta skilningi þess orðs, gagnmenntaður, fróðleiksfús, bjartsýnn og alltaf opinn fyrir nýjum hugmyndum. Það var leitun að skemmtilegri samræðufélaga því hann gaf alltaf svo mikið af sér og hafði svo lifandi áhuga á því sem aðrir höfðu til málanna að leggja. Það var dæmigert að Wolfgang, sem var frábær skíðamaður, byrjaði hverja einustu ferð í Alpafjöllin á að fara til kennara. Því með opnum hug er alltaf hægt að læra meira, gera betur, ná lengra.

Það var mikið lán að hafa fengið að vera samferða Wolfgang, bæði í störfum við Max-Planck-stofnunina um árabil og sem persónulegir vinir í fjóra áratugi. Wolfgang var okkur alla tíð einstakur velgjörðarmaður og mentor sem aldrei brást. Þegar fyrirhuguð svarakona forfallaðist og komst ekki í giftingarathöfn okkar stökk Wolfgang til eins og ekkert væri sjálfsagðara. Og bauð svo á fínasta ítalska veitingahúsið í Berlín á eftir. Hann var alltaf boðinn og búinn að hjálpa, strákslegur, hlýr, glaður og léttur í lund.

Við kveðjum Wolfgang Edelstein með þakklæti og virðingu og vottum Moniku, Önnu Lilju og Benjamín ásamt fjölskyldum okkar innilegustu samúð.

Magnús D. Baldursson og Sigríður Þorgeirsdóttir.

Wolfgang Edelstein var einstakur maður. Hann var orkumeiri, ákveðnari, gáfaðri og ástríðufyllri en flestir sem ég hef kynnst á langri ævi. Það var mikið lán að fá að vera samferða honum í um 45 ár, fyrst sem samstarfsmaður og síðan vinur. Á þá vináttu bar engan skugga. Samverustundir voru ekki margar í seinni tíð en þær voru alltaf gefandi og góðar.

Upphaf kynna okkar má rekja til þess að ég fékk boð um að taka þátt í rannsóknarvinnu með Wolfgang og Sigurjóni Björnssyni, þegar ég var í sálfræðinámi í HÍ 1973-77.

Ég þáði boðið og við tóku ár þar sem farið var milli skóla og ferðast um landið til að taka viðtöl við börn í langtímarannsókninni Þroskarannsókn, sem var á vegum Háskóla Íslands og Max-Planc-Institut für Bildungsforschung í Berlín. Auk þess var ég ritari rannsóknarinnar um tíma og vann því náið með Wolfgang, einkum þegar hann var hér á landi en einnig með bréfaskriftum og símtölum eins og tíðkaðist.

Wolfgang hafði ótrúlegt vinnuþrek, hann var svo kappsamur til vinnu að maður mátti hafa sig allan við. Ég sagði stundum að miðað við fyrri störf þyrfti ég að vinna á 150% afköstum þegar hann væri á staðnum. Hann handritaði öll bréf og önnur skjöl, en gerði það jafnhratt og ég vélritaði. Það var mikill lærdómur að vélrita fyrir hann meðmæli og umsagnir um ýmsa, sem leituðu til hans eftir slíku. Hann vann umsagnir af slíkri alúð og ígrundun að unun var að og kunni þá list að lesa manneskjur og lýsa persónuleika og hæfileikum hverrar manneskju þannig að kostir hennar voru óvéfengjanlegir. Það var því eðlilegt að þegar hann gaf fimm starfsmönnum Þroskarannsóknar meðmæli vegna umsókna í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, að þeir kæmust allir inn og lykju námi eins og til var ætlast.

Ég minnist ekki umræðna við Wolfgang um jafnréttismál á þessum árum, þrátt fyrir að þau væru í brennidepli þjóðfélagsumræðunnar og hljóta því að hafa verið rædd eins og öll önnur þjóðfélagsmál og stjórnmál. En Wolfgang var jafnréttissinni í verki. Hann var mjög hvetjandi fyrir þær konur sem unnu hjá honum og hann efaðist ekki um að þær ættu erindi í erlenda háskóla af bestu gerð. Ég hafði ekki séð fyrir mér að fara utan í nám en eftir nokkurra ára samstarf við Wolfgang var það ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær ráðist skyldi í slíkt verkefni.

Síðast hitti ég hann á kaffihúsi í Reykjavík, eftir löng og erfið veikindi. Hann var svo glaður yfir að enn hittist fólk á Íslandi nánast fyrirvaralaust. Við áttum notalega stund saman fjórir vinir yfir kaffibolla og þegar ég kvaddi lagði hann af stað í margra kílómetra langa göngu meðfram strandlengjunni, tæplega níræður maðurinn.

Það er margs að minnast og margt að þakka. Hann var áhrifavaldur í lífi mínu, góður vinur og fyrirmynd. Ég er honum innilega þakklát fyrir vináttuna, áhugann og hlýjuna alla tíð.

Ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til Moniku, Benjamíns, Önnu Lilju, fjölskyldna þeirra og allra hans góðu vina og samstarfsmanna. Minningin um Wolfgang Edelstein mun lifa með okkur öllum.

Ingibjörg Elsa

Guðmundsdóttir.

Vinur minn Wolfgang Edelstein bast Íslandi sterkum böndum eftir að fjölskylda hans flúði Þýskaland og settist hér að þegar hann var níu ára gamall 1938. Hann unni Íslandi alla tíð, fannst hann vera í þakkarskuld við landið sem tók svo vel á móti honum og hér sagði hann nánustu vini sína búa. „Íslenska er tilfinningamál mitt“ var svar hans þegar ég spurði hann af hverju hann hefði talað íslensku í stað þýsku, móðurmáls síns, þegar hann vaknaði eftir aðgerð í Berlín. Hann var hrifnæmur; naut orðlistar, tónlistar og náttúru.

Wolfgang var mikill hugsjónamaður og frumkvöðull á sviði menntunar. Af ástríðu deildi hann menntasýn sinni með íslensku þjóðinni og á alþjóðavettvangi.

Þar vakti hann samferðafólk sitt til umhugsunar um samspil margvíslegra þátta sem leiða til framfara í menntamálum. Ekki er ofmælt að nafni hans tengjast einar athyglisverðustu umbætur á íslensku skólastarfi á ofanverðri 20. öld.

Brennandi áhugi hans og innsæi blés mörgum hug í brjóst og var ég svo lánsöm að vera meðal þeirra. Hann opnaði mér sem ungum kennara á 8. áratugnum nýjan heim hugsjóna um eflingu uppeldis og menntunar í landinu.

Mikill skóli og ómetanleg reynsla var að taka þátt í námsefnisgerð í samfélagsfræði á vegum menntamálaráðuneytisins undir hans stjórn. Hópurinn deildi sterkri hugsjón um hvernig vænlegt væri að búa æskuna undir framtíðina. Wolfgang stóð einnig fyrir viðamiklum rannsóknum m.a. á þroska og aðstæðum barna hérlendis. Gott veganesti var að hafa tekið þátt í rannsóknarteymi þeirra Moniku við gagnasöfnun þegar ég hóf sjálf rannsóknarstörf sem hann vildi fylgjast með alla tíð.

Margt ber honum að þakka og ótal fallegar minningar í leik og starfi ylja. Við höfðum þá sameiginlegu æskureynslu að hafa sinnt sveitastörfum í Húnaþingi. Þegar fjölskylda hans heimsótti okkur í Miðfjörðinn var skemmtilegt að skreppa út á tún og taka rökin með honum.

Þar var hann kappsamur eins og í öllu öðru. Hann var ætíð þakklátur bræðrunum Sigurði og Jóhannesi á Stóru-Giljá sem hann var hjá í sveit á unglingsárum.

Það kom m.a. fram á hátíðarstundu okkar þegar hann veitti viðtöku viðurkenningu virtra samtaka á ráðstefnu vestanhafs fyrir störf sín. Í þakkarræðu sinni leitaði hugur hans til þess sem bræðurnir höfðu kennt honum um uppeldi, m.a. mikilvægi þess fyrir ungmenni að taka virkan þátt, finna til sín og tilheyra.

Sem dæmi höfðu þeir hann með í ráðum í heyskapnum, gáðu til veðurs og leituðu álits hans á því hvort ráðlegt væri að þurrka þann daginn. Þessi reynsla gaf tóninn í lífsverki hans, lýðræðismenntun.

Wolfgang dvaldi oft hér á landi með fjölskyldu sinni. Ætíð voru þá miklir fagnaðarfundir í vinahópnum. Við tvö tókum okkur einnig daga saman þar sem við ræddum hugðarefni okkar. Þetta eru dýrmætar stundir sem lifa með mér.

Hann gaf mikið af sér, var skarpur og stórhuga, hvetjandi og umhyggjusamur, traustur og hjartahlýr.

Monika, Anna, Benni og fjölskyldan veittu honum mikla gleði og styrk. Missir þeirra er mikill. Við Þórólfur vottum þeim okkar dýpstu samúð.

Sigrún Aðalbjarnardóttir.

Hann kallaði mig stundum nafna sinn og talaði við mig eins jafningja. Ég held að honum hafi farist svo við alla, lítillátur, hóglátur, uppörvandi.

Við höfðum félagar og landfræðingar farið til þeirra í Skólarannsóknadeild til þess að kvarta og klaga niðurlagningu námsgreinaheitisins „landafræði“ úr námskrá grunnskóla. Því var svarað með boði um þátttöku í vinnuviku deildarinnar í samfélagsfræði sem stóð fyrir dyrum á Kleppjárnsreykjum með Wolfgang Edelstein.

Ég þekki varla önnur dæmi um jafn snör viðhorfaskipti málflytjenda og a.m.k. annars klögumannsins eftir inngangsfyrirlestur Wolfgangs.

Nú löngu seinna sést að starfsævi þessa skrifara var rétt að segja hálfnuð og það var þarna sem hann áttaði sig fyrst á að inntak eða árangur starfsins var ekki hið fornkveðna „að vita meira og meira, meira í dag en í gær“ heldur að hugsa, hugsa betur í dag en í gær. Að unnt væri að kenna nemendum að hugsa á grundvelli greinarmunar á skoðunum, tilfinningum og staðreyndum.

Vafalaust upplifðu samstarfsmenn Wolfgangs Edelstein hugarheim hans og boðskap hver með sínum hætti. Mér var þetta augnablik sannleikans, „the moment of truth“, sem ekki vitjaði mín fyrr enkennslan var að þoka fyrir öðrum starfsþáttum. Í þessari uppgötvun fólst sú þversögn að þá sættist ég loks við ævistarfið sem ég hafði misskilið og með vissum hætti vanrækt. Meðferð álitamála og siðgæði úrlausna var hið rétta lærdómsefni fremur en ártölin eða nöfnin, þverárnar eða firðirnir.

Mikilvægara var að kunna blaðalestur en styrjaldarártöl eða kóngaraðir.

Kennarastéttin varð aldrei alveg sammála þessu og stjórnmálamenn héldu að þetta opnaði á pólitíska innrætingu. Alþjóðleg viðhorf Wolfgangs og áhersla á hjálpina við lítilmagnann voru engu að síður hent á lofti og lifðu og lifa í verkum samstarfsmanna hans, sem voru forréttindi mín að kynnast og mega telja til vina minna.

Aðalsteinn Eiríksson.