Alexander Lúkasjenkó
Alexander Lúkasjenkó
Hvít-Rússar eru stoltir af traktorsverksmiðjum sínum. Til marks um það má hafa að þau ágætu farartæki taka jafnan þátt í skrúðgöngum landsins á þjóðhátíðardegi þess 3. júlí.

Hvít-Rússar eru stoltir af traktorsverksmiðjum sínum. Til marks um það má hafa að þau ágætu farartæki taka jafnan þátt í skrúðgöngum landsins á þjóðhátíðardegi þess 3. júlí. Sú dagsetning markar þau tímamót þegar þýski herinn var hrakinn frá Minsk árið 1944 en þó er ekki einhugur um hana og ýmsir telja aðrar dagsetningar meira viðeigandi, einkum dagsetningar sem tengjast sjálfstæðinu frá Sovétríkjunum fyrir tæpum þremur áratugum.

Um þessar mundir er þó deilt um annað og stærra mál í Hvíta-Rússlandi og af töluvert meiri ákafa, en það er meint kosningasvindl forsetans og harkalegar aðgerðir hans gegn mótmælendum eftir kosningarnar. En traktoraverksmiðjan og stoltir starfsmenn hennar koma við sögu í deilunum um kosningarnar því að í gær gerðist sá óvenjulegi atburður að þúsundir þeirra lögðu niður störf og gengu um götur í mótmælum.

Ofan á önnur og fjölmenn mótmæli sæta þessi töluverðum tíðindum enda hafa svo mikil mótmæli launamanna í landinu ekki sést frá því þeir risu upp árið 1991 í aðdraganda falls Sovétríkjanna.

Alexander Lúkasjenkó forseti er afurð sovétkerfisins og minnir á það með aðgerðum sínum að undanförnu, meðal annars gríðarlegri hörku gegn mótmælendum og jafnvel pyntingum þeirra og drápum.

Evrópuríki virðast vera að taka við sér vegna þessa ástands. Það er full ástæða til.