Stjórnandi Hrönn Marinósdóttir.
Stjórnandi Hrönn Marinósdóttir.
Sýningar á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í ár verða mikið til á rafrænu formi auk Covid-vænna viðburða, að því er fram kemur í tilkynningu frá skipuleggjendum hennar.

Sýningar á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í ár verða mikið til á rafrænu formi auk Covid-vænna viðburða, að því er fram kemur í tilkynningu frá skipuleggjendum hennar. Stendur til að sýna hágæða evrópskar kvikmyndir fram eftir hausti á sérstökum þemavikum og byggja brú yfir til EFA, Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna. Verða kvikmyndir sýndar á vegum RIFF fram í desember. RIFF verður sett 24. september og lýkur 4. október.

„Það er með sannri ánægju sem við tökumst á við þessa áskorun og færum RIFF í glæsilegan nýjan búning með því að færa gestum hágæða kvikmyndir heim í stofu. Með þessu móti munu enn fleiri kvikmyndaunnendur um land allt geta notið vandaðra kvikmynda. Auk þess sem hægt verður að nálgast á vefnum margt fleira fróðlegt, t.a.m. spurt og svarað með leikstjórum, umræður og fleira slíkt,“ er haft eftir Hrönn Marinósdóttur, stjórnanda hátíðarinnar.

Ýmsir viðburðir verða á dagskrá sem samræmast reglum sem í gildi verða í samfélaginu er líður að hátíðinni og þegar hefur verið ákveðið að Bransadagar muni fara fram í Norræna húsinu og fleiri Covid-vænir viðburðir verða á dagskránni auk þess sem barnadagskrá með kennsluefni verður í boði fyrir alla skóla landsins, segir í tilkynningunni.

Frakkinn Frédéric Boyer fer fyrir dagskrárnefnd RIFF í ár en hann hóf feril sinn á vídeóleigu í París og er í dag listrænn stjórnandi kvikmyndahátíðanna Tribeca og Les Arcs European Film Festival. Hann hefur einnig verið aðaldagskrárstjóri Director´s Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes.