Guðmundur Magnússon fæddist 13. janúar 1957. Hann lést 27. júní 2020.

Útför Guðmundar fór fram 14. júlí 2020 í kyrrþey.

Af huldumanni í píanistastétt var fyrirsögnin í lofsamlegri rýni um frammistöðu Guðmundar Magnússonar píanóleikara eftir einleikstónleika í desember 1986. Orðin eru lýsandi um mann sem aldrei barst á og er nú fallinn frá um aldur fram. Guðmundur var annar tveggja píanókennara minna og kom inn í líf mitt haustið 1987 við upphaf menntaskólaáranna. Ég hafði fram að þeim tíma stundað píanónám hjá nafna hans Jónssyni í Tónlistarskóla Kópavogs en sá hafði einnig kennt nafna sínum Magnússyni einn vetur í Tónlistarskóla Rangæinga um 1970. Ég hélt mig við Guðmundana og minnist nú þessara öðlinga af hlýju og þakklæti fyrir tónlistaruppeldið.

Ég hygg að Guðmundur Magnússon sé eftirminnilegur öllum þeim sem kynntust honum. Þar fór maður sem hélt sig alla jafna til hlés, var dulur við fyrstu viðkynni, og jafnvel lengur, og vildi helst eigi segja lengra en hann var spurður. Fljótlega tókst þó með okkur Guðmundi hinn besti kunningsskapur og traust, og er á leið, vinátta. Ég hef hvorki fyrr né síðar umgengst jafn hlédrægan mann og auðmjúkan, en eftir að maður ávann sér traust Guðmundar var þó leiðin greið og oft stutt í hlátur og húmor um leið og hann viðraði vel ígrundaðar skoðanir á mönnum og málefnum. Nú, er tíðarandinn gengur æ oftar út á að sýnast frekar en að vera, er minningin um Guðmund á þann veg að þar fór vammlaus maður og áreiðanlegur, víðlesinn, stálminnugur og ljóngáfaður. Guðmundur hóf nám við tónlistarháskólann í Köln árið 1980, af lítillæti að manni virtist því af eigin sögn stefndi hann aðeins á kennsluréttindi, en er leið á fleytti elja og seigla honum gegnum einleikaradeildina árið 1985. Á þann hátt virtist Guðmundur leggja upp lífið, skipulega, skref fyrir skref, af auðmýkt og hógværð.

Árin sem ég naut leiðsagnar Guðmundar var hann virkur í tónlistarlífinu á Íslandi. Hann lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 1989 í fyrsta píanókonsert Beethovens þegar allir fimm konsertarnir voru á dagskrá um veturinn þar sem eingöngu íslenskir einleikarar voru kallaðir til. Guðmundur var þarna mættur upp á dekk á meðal helstu píanista landsins. Í einum dómnum stóð að Guðmundur hafði greinilega unnið heimavinnuna sína vel og ástæða væri til að bjóða hann velkominn í hóp þeirra íslensku píanóleikara sem erindi ættu upp á hljómleikapallinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Það var mál manna sem sóttu tónleika í höfuðstaðnum á þessum árum að þar færi tilfinninganæmur og fíngerður listamaður sem við túlkun verkanna opnaði sig inn að kviku við hljómborðið, líkt og farið væri um af gætni með flygilinn yfir þunnt ísilagt vatn. Öryggið var Guðmundi allt en krafturinn og lífsháskinn var aldrei langt undan. Hann valdi sér jafnan erfið og viðamikil viðfangsefni, oftar en ekki úr ýmsum áttum, t.a.m. verk eftir Schubert, Messiaen og Scriabin. Guðmundur hafði einnig fantagott vald á píanótækni sem hann þó beitti af aga og skynsemi því hann bæði þekkti og virti eigin takmörk. Því miður hvarf Guðmundur jafn brátt af tónleikasviðinu og hann birtist, en samhliða tónleikahaldi kenndi hann jafnan vel rúmlega eitt stöðugildi samtals við þrjá tónlistarskóla samhliða tónleikahaldinu.

Guðmundur hafði sérstakt dálæti á tónlist franska impressionismans, sér í lagi Debussy. Ég get heyrt hann í huganum leika sín uppáhaldsverk, Það sem vestanvindurinn sá, Stúlkuna með hörgula hárið og Kirkjuna á hafsbotni úr prelódíusafninu. Með hvatningu og smá eftirrekstri átti Guðmundur til að hlaða í annálaðan fingurbrjót, Petrushkuna eftir Stravinsky og leika með tilþrifum hendingar úr B-dúr píanókonserts Brahms.

Í seinni tíð varð mér stundum hugsað til Guðmundar, reyndi að leita hann uppi og spurðist fyrir, án árangurs. Nú þegar minningarnar flæða hjá tæpum þrjátíu árum eftir að leiðir okkar skildi sendi ég aðstandendum mínar innstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Guðmundar Magnússonar.

Ingvar Jón Bates Gíslason.