Þorgerður Hrönn Þorvaldsdóttir fæddist í Hafnarfirði 9. maí 1968. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 25. júlí 2020. Foreldrar hennar eru Guðrún Bjarnadóttir, kennari, frá Hafnarfirði, f. 30. janúar 1939, og Þorvaldur G. Jónsson, bóndi og bókavörður, frá Innra-Hólmi, f. 30. júlí 1940, d. 12. maí 2010.

Systur Þorgerðar eru: 1) Ásgerður Unnur, f. 24. desember 1969, gift David Nicholson. Þau eiga tvö börn, Lilju Solveigu og Axel Valda. 2) Valgerður Erna, f. 27. október 1973, gift Marinó Melsteð.

Eftirlifandi eiginmaður Þorgerðar er Ágúst Ásgeirsson, framhaldsskólakennari, f. 29. september 1964. Sonur hans er Ingimundur, f. 22. júní 1995.

Vorið 1973 fluttu foreldrar Þorgerðar með dætur sínar frá Hafnarfirði að Guðrúnarstöðum í Vatnsdal. Þorgerður ólst þar upp við almenn sveitastörf, hún hafði gaman af kindum og var fjárglögg. Á seinni árum hafði hún mikinn áhuga á kartöflurækt og ræktaði ótal afbrigði.

Þorgerður gekk í Húnavallaskóla og lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri 1988. Hún lauk BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1995, MA-prófi í kynjafræðum og femínískum kenningum frá The New School of Social Research í New York 1998 og doktorsprófi í kynjafræðum frá Háskóla Íslands 2012. Doktorsritgerð hennar fjallaði um útvíkkun jafnréttishugtaksins og þróun jafnréttisstarfs.

Þorgerður gekk til liðs við ReykjavíkurAkademíuna árið 1999 og vann að fjölbreyttum rannsóknarverkefnum, ein og í samstarfi við aðra. Bókin Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi sem þær Bára Baldursdóttir skrifuðu kom út 2018. Undanfarin ár vann Þorgerður ásamt öðrum að ritun á bókinni Konur sem kjósa. Aldarsaga í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna.

Útför Þorgerðar fór fram í kyrrþey 8. ágúst 2020 frá Þingeyrarkirkju.

Á vormánuðum 1987 vitnar Þorgerður í dagbók sinni í Kristján Kristjánsson, heimspeking og kennara sinn í þriðja bekk í MA: „Fullkomnun felst ekki í því endilega að gera einhverja frábæra hluti heldur að gera hversdagslega hluti frábærlega vel.“ Og þá ritar Þorgerður: „Eitt af því besta sem ég gæti hugsað mér í lífinu væri ef hægt væri að segja þessi orð um líf mitt.“ Tilvitnunin var einnig á korktöflu í gamla herberginu hennar á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal þegar ég kom þar fyrst 2001 og þar er hún enn. Auðvitað er ekki unnt að gera hversdagslega hluti frábærlega vel öllum stundum, en mikið ævintýri hef ég fengið að lifa þar sem Þorgerður lagði sig fram um að ná fullkomnun.

Við Þorgerður áttum gott skap saman, lífsviðhorf okkar lík og við áttum gott með að gera hversdagslega hluti frábærlega vel saman. Okkur var lagið að leysa togstreitu og þrætur og sofa sátt undir einni sæng. Fengum að vera ólík og sinna fjölmörgum hlutverkum í lífinu á eigin forsendum. Og þegja um hjónavígsluna árið 2014. Engar stórar veislur.

Hún var hin fullkomna stjúpmamma fyrir Ingimund son minn. Með því að kynna dýrin í sveitinni fyrir Ingimundi átti hún í honum hvert bein. Þau eru hvorugt fyrir knús og kossa og þykja snertingar heldur óþægilegar. Þau áttu því líka gott skap saman. Fólkið hennar tók okkur einstaklega vel og við Ingimundur alltaf velkomnir í norðursveitina. Þakklátur er ég fyrir allar góðar samverustundir.

Hún kynnti mig fyrir ótrúlega góðum vinahópi, einkum hópi ótrúlega sterkra kvenna, gáfaðra og skemmtilegra. Samskiptin við þær eru mér verðmæti, ég á þeim mikið að þakka að ævistundirnar undir lokin urðu innhaldsríkar og minnisstæðar.

Þorgerður náði að gera lífið með krabbameini að hversdagslífi sem hún leysti frábærlega, hún háði aldrei baráttu eða stríð við krabbamein, hún lifði hvern dag æðrulaus, kvartaði aldrei, hélt alltaf áfram. Frá 10. maí þurfti hún allmikla hjúkrun á 11E og síðar á líknardeildinni, enda ófær um að standa undir sér, eins og hún sagði. Eitthvert sinnið þurfti að sinna henni í tvígang með stuttu millibili og þá sagði Þorgerður: „Er ég ekki ómögulegur sjúklingur?“ Og hvílíkur mannauður sem við eigum í starfsfólki Landspítalans. Allar þessar konur - því ég hitti mestanpart konur í öllum þeirra störfum - þær verða ekki taldar upp hér með nafni, ótrúlega stór hópur af vönduðu fagfólki, sem sýnir líka nærgætni og hlýju. Mér er óskiljanlegt hvers vegna þær þurfa sífellt að standa í ósanngjarnri baráttu fyrir kjörum sínum, hvenær ætlar karlveldið að skilja að jafnrétt samfélag allra er betra en auðsamfélag fárra?

Miðvikudagurinn 22. júlí var hennar síðasti dagur með góðri meðvitund. Þann dag sagði læknir við mig: „Þú ættir að gista.“ Dagurinn leið og undir kvöld spurði ég Þorgerði hvort ég mætti gista og hún sagði: „Það væri hrein gleði.“ Miðvikudagskvöldið leið hægt. Þá nótt og næstu tvær fangaði ég ekki fleiri orð frá Þorgerði. Hrein gleði er líka mín minning um þig. Hrein gleði er ást þín og hlýja.

Ágúst Ásgeirsson.

Horfin er af jarðvistar lífsins sviði Þorgerður Hrönn Þorvaldsdóttir, mín hjartkæra og mæta tengdadóttir og stjúpmóðir Ingimundar ömmudrengsins míns. Hennar er sárt saknað, hugur og hjarta er hjúpað mikilli eftirsjá. Ég á henni svo margt að þakka, þakkir fyrir þá gjöf sem hún hefur verið mér í lífinu.

Þorgerður var einstaklega vönduð, hreinskiptin, úrræðagóð og hvetjandi í hverju og einu sem leiddi til ágætis. Ég dáðist að henni ferðast um fræða- og þekkingarsviðin gæðaríku. Hún var ákaflega fjölhæf. Hún var mikil búkona, ræktaði margar tegundir grænmetis, útbjó m.a. grænmetispestó og berja- og rabarbarasultur. Á þessum árstíma færði hún mér ætíð slíkar góðar vistargerðir.

Á heimili minnar ástkæru Þorgerðar tengdadóttur og Ágústar sonar míns var á hátíðarstundum og oftar ljósum prýdd stofan. Aldrei hef ég séð lifandi kertaljós höfð í eins mörgum kertaglösum og vösum og hjá þeim. Þorgerður var kona ljóssins, miðlaði birtugefandi lausnum með orðræðum og verkum sínum. Hún gekk í margs konar verk, jafnvel störf sem erfitt var að manna af íslensku fólki. Þorgerður sagði við mig, og lagði á það áherslu, að öll störf væru jafn þýðingarmikil, svo framarlega sem þau væru vel unnin.

Þorgerður var skarpgreind, menntuð hugsjónamanneskja, flott fræðimanneskja, sem og heimsmanneskja. Hún bjó yfir yfirgripsmikilli þekkingu í sagn- og kynjafræðum og hún hefur unnið að margvíslegum rannsóknarverkefnum, sem snúnast einkum um jafnrétti í víðum skilningi. Það var mikil ánægja að fá tækifæri til að upplifa og fagna með henni á merkum tímamótum þegar hún lauk doktorsprófi í kynjafræðum frá Háskóla Íslands í júnímánuði árið 2012.

Þorgerður og Bára Baldursdóttir sagnfræðingur skrifuðu bók sem heitir „Krullað og klippt – Aldarsaga háriðna á Íslandi“. Safn til iðnsögu Íslendinga. Bókin kom út árið 2018, var þá tilnefnd til Fjöruverðlauna –Bókmenntaverðlauna kvenna á Íslandi.

Hinar kæru hjartnæmu minningar eru svo miklu fleiri og eiga allar ávallt góðan stað í huga mínum og hjarta. Blessuð sé minning elsku Þorgerðar.

Öllum aðstandendum flyt ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Helga Óskarsdóttir.

Þorgerður hreifst af fólki, sögum, hugmyndafræði og hafði ástríðu fyrir ótal hlutum. Undir lokin dáðist hún að hjúkrunarfólki og mér varð hugsað til leikhúsferða með henni þar sem hún klappaði alltaf manna lengst og naut sín best í uppklappinu. Þannig hefði hún viljað kveðja umönnunarfólk sitt, full aðdáunar.

Hún var sterk í veikindum sínum og þegar hún stóð frammi fyrir því að flytja á líknardeild Landspítalans gæti ég best trúað að hún hefði haft meiri áhyggjur af því hvernig farið var með flugfreyjurnar hjá Icelandair og augljósu bakslagi í réttindabaráttu kvenna og samkynhneigðra.

Á krabbameinsdeildinni vann hún í greinarskrifum og tók sínar frægu vinnutarnir enda vön tímafrestum, enda þótt þeir væru af öðrum toga en þessi endanlegi og sári. Alltaf var hún að klára ritgerð, fræðigrein eða að undirbúa fyrirlestur enda fræðimaður fram í fingurgóma. Þannig var hún, henti sér í verkin af ástríðu en vildi slaka á þess á milli.

Við kynntumst þegar við vorum 11 ára og þegar ég hugsa um það var aldrei neitt mál þótt hlutirnir færu öðruvísi en lagt var upp með. Í Portúgal, þegar við heimsóttum Fríðu vinkonu okkar frá Sölvabakka, leigðum við hjólabát en gleymdum okkur og vorum komnar alltof langt út. Við hófum að hjóla nær ströndu en gekk illa því Þorgerður var orðin sjóveik, en hún var alla tíð afar sjó- og bílveik. Þegar við loksins náðum landi var það kolröng strönd og við steyttum næstum því á skeri. Við hrósuðum happi og snerum okkur að næsta verkefni enda skaðbrenndar eftir of marga klukkutíma á hafi úti.

Þegar við vorum samtíða í námi í Bretlandi fórum við á þorrablót Íslendingafélagsins í Hull en mundum ekki hvar blótið væri haldið. Eina leiðin var að finna símaklefa á lestarstöðinni, fletta upp öllum hótelum í borginni og hringja. Við komumst á blótið og skemmtum okkur hið besta og kannski var skemmtilegast að hlæja að vitleysisganginum í okkur. Ég heimsótti hana líka, ásamt systur minni Guðrúnu, til New York en þar bjó hún í sex ár og naut sín vel.

Þorgerður var mikil baráttumanneskja og var vakin og sofin í því að hampa konum og rétta hlut þeirra í stjórnmálum sem og annars staðar en hún hampaði þó aldrei sjálfri sér. Þegar ég var að grínast með hvort það væru margir með doktorsgráðu í sláturhúsinu fyrir norðan eða á sambýlinu í Grafarvogi gaf hún lítið fyrir það enda vildi hún fyrst og fremst leggja sitt af mörkum í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. Vinna var bara vinna og til þess að geta starfað sem sjálfstætt starfandi fræðimaður tók hún þeirri vinnu sem bauðst.

Þorgerður var töffari, húmoristi, mikil búkona og dýravinur. Allir sem þekktu hana vissu hve sterkar taugar hún bar til Guðrúnarstaða og öll fylgdumst við með ástríðu hennar fyrir því að taka þátt í sauðburði á hverju vori. Þá varð allt annað að víkja. Þeir sem fóru í leikhús með Þorgerði gleyma því aldrei og á Kæru Jelenu stóð mín kona sem snöggvast upp og ætlaði hreinlega að koma til bjargar enda var það í eðli hennar að hlaupa undir bagga og rétta hlut þeirra sem brotið var á.

Ég votta eiginmanni hennar Ágústi Ásgeirssyni, stjúpsyni Ingimundi Ágústssyni, móður Þorgerðar, mínum góða kennara Guðrúnu, og systrunum Ásgerði og Valgerði og þeirra fjölskyldum samúð og vona að minningar um yndislegu Þorgerði ylji og næri á erfiðum tímum.

Marín Guðrún Hrafnsdóttir.

Ef það ætti að lýsa Þorgerði í einu orði væri það fölskvalaus. Hún var hrein og bein. Við kynntumst henni sem eldheitri hugsjónamanneskju, yfirveguðu náttúrubarni og afbragðs fræðikonu. Hún var skemmtilega hreinskilin og orðhittin, oftast orðfá en stundum skemmtilega óðamála þegar henni lá eitthvað á hjarta. Þegar við kynntumst höfðum við allar þrjár tekið þá ákvörðun að leggja í langhlaup doktorsnáms. Það er afrek að ljúka doktorsprófi og það krefst stuðnings annarra. Þetta vissum við nokkrar konur sem stofnuðum Samkynjur - Samtök doktorsnema í kynjafræði (og gripum um leið á lofti orð ónefnds fjölmiðlamanns sem talaði um „allar fimmþúsundkellingarnar í kynjafræði“). Tilgangur Samkynjanna var að styðja hver aðra í náminu með yfirlestri texta og andlegum stuðningi og markmiðið auðvitað að ljúka námi. Við hittumst reglulega og vorum áður búnar að senda texta sem krafðist yfirlestrar gagnrýninna vina. Þorgerður var einstök í sinni gagnrýni og báðar treystum við hennar ráðleggingum. Hrósi hennar var að sama skapi hægt að treysta og báðar eigum við ógleymanlegar minningar þar að lútandi. Eftir rýni á inngangskafla í doktorsritgerð Gyðu sat Þorgerður brosglottandi á fundinum og sagði: „Þú ert að fara að útskrifast.“ Gyða fór hjá sér vitandi að vinkonan talaði með báðum heilahvelum og hjartanu; andvökunætur væru senn á enda. Guðný sendi tvístígandi inngangskafla með umfjöllun um ömmu sína í rýni hjá Samkynjunum. Þorgerður, með tár í öðrum augnkróknum, sagði: „Ekki láta nokkurn mann segja þér að taka þennan kafla út.“ Kaflinn fór óbreyttur í lokaútgáfu ritgerðarinnar. Við lok doktorsnámsins gáfum við hver annarri nafnbótina Samkynja emerita. Þann hóp skipuðum við þrjár. Gyða útskrifaðist 2009, Þorgerður 2012 og Guðný rak lestina 2016. Þríeykið átti það líka sameiginlegt að vera fæddar í maí. Gyða 3., Þorgerður 9. og Guðný þann 14. Þorgerður var því miðjan í okkar samvinnu og vináttu í fleiri en einum skilningi. Við héldum allar útskriftarveislur með pomp og prakt, í okkar fínasta pússi. Þorgerður sameinaði eiginleika sína í eigin útskrift í sínu fínasta skarti; klædd prjónakjól í sauðalitunum, með hárið fléttað og varalit á brosinu. Í útskriftarveislunni vorum við með háleit plön um að breyta súrheysturninum á Guðrúnarstöðum í skrifbúðir. Turninn myndum við mála femínistableikan en leyfa andrými turnsins að njóta sín að öðru leyti. Hvorug okkar heimsótti Þorgerði í sveitina en við nutum þó ávaxta ræktarsemi hennar við landið og vorum fyrir löngu búnar að átta okkur á því að ekki þýddi að blása til fundar í sauðburði, þá var Þorgerður upptekin við annað á öðrum stað. Nú er hún aftur horfin annað og eftir sitjum við tvær með þyngsli í hjartanu en á sama tíma óendanlega þakklátar fyrir að hafa kynnst henni og átt vináttu hennar um stund.

Guðný Gústafsdóttir,

Gyða Margrét

Pétursdóttir.

Hún var skemmtileg blanda af heimskonu og sveitastelpu, fræðikonu og verkakonu hún Þorgerður Þorvaldsdóttir frá Guðrúnarstöðum í Vatnsdal. Ég kynntist henni þegar hún var nýkomin heim frá New York með meistaragráðu í kynjafræðum og settist í ritnefnd Veru í byrjun ársins 2000. Ég var þá ritstjóri blaðsins en ritnefndin vann í sjálfboðavinnu. Það munaði aldeilis um að fá hana í hópinn og hún sat í ritnefndinni þangað til síðasta blaðið var gefið út í maí 2005.

Þorgerður vann fræðistörf og tengdi okkur við fræðasamfélagið en hún hafði líka brennandi áhuga á störfum verkafólks enda vann hún sjálf á sambýli fyrir fatlaða og ritnefndarfundir voru ekki haldnir þegar hún var á kvöldvakt.

Skrif Þorgerðar í Veru eru fjölbreytt, bæði fræðigreinar og almenn viðtöl, t.d. við erlendar baráttukonur eins og Diönu Russel sem rannsakaði klámiðnaðinn og Janice Raymond sem barðist gegn vændi. Hún hafði umsjón með þætti sem hét Hvað stendur á launaseðlinum þínum? þar sem hún talaði við konur í ýmsum starfsstéttum um laun þeirra. Hún stýrði hringborðsumræðum um stefnuna í jafnréttismálum við aldamót, skrifaði um innflytjendamál, um fegurðarímynd, kvenfrelsi og vald, um útlitsdýrkun og holdafar og stóð fyrir því að bóndakona yrði með fastan pistil í blaðinu.

Árið 2000 var tímamótaár hjá Veru því Kvennalistinn sem hafði gefið blaðið út var að hætta störfum. Okkur fannst að femínísk umræða mætti ekki falla niður þrátt fyrir það og tókum þá áhættusömu ákvörðun að fá til liðs við okkur dugmiklar konur og stofnuðum útgáfufélagið Verurnar ehf. Þorgerður var sú eina sem hélt áfram í ritnefndinni eftir breytinguna og var það mér ómetanlegur styrkur. Hún lagði mikið til mála í hugmyndavinnu við hvert blað þar sem tekið var fyrir ákveðið efni sem ræða þurfti í þaula. Má þar nefna umfjöllun um mansal á nektardansstöðum, brjóstastækkunaraðgerðir, hormónagjöf á breytingaskeiði, vændi, kynlífssiðferði ungs fólks og klámvæðingu. Hún hafði skemmtilegan húmor og oft var fjör á ritnefndarfundum því bestu hugmyndirnar koma þegar flæðið er gott og fólk leyfir sér að segja það sem það hugsar.

Svo kom að því að útgáfa Veru var ekki lengur gerleg vegna ýmissa ytri aðstæðna sem ekki verða raktar hér. Það tók á að horfast í augu við þá staðreynd og á þeirri göngu skipti tryggð Þorgerðar og staðfesta mig miklu máli. Hún var eins og kletturinn, því mátti ég treysta og það vil ég fá að þakka hér og nú.

Og nú hefur hún tekið pokann sinn enda ljóst að baráttan um lífið varð ekki unnin. Ég sé hana fyrir mér ganga inn á nýjar lendur og finnst eins og lítill fáni með femínistamerki gægist upp úr bakpokanum. Með sitt fallega glott er hún tilbúin að taka á móti lömbum ef þess þarf með eða aðstoða manneskjur af ýmsu þjóðerni og gerð. Hún hlustar vel og horfir athugul á nýja lífið sem bíður hennar fyrst komið var að skapadægrum hér á jörð. Við hefðum svo sannarlega viljað hafa hana hjá okkur miklu lengur – en þangað til næst, mín kæra. Gangi þér vel og takk fyrir allt.

Elísabet Þorgeirsdóttir.

Hún stendur í pontu og segist ætla að tala út frá sjálfri sér, hafi hent saman einhverjum glærum. Kroppurinn og kvennabaráttan er yfirskriftin. Glærurnar renna yfir skjáinn og hún talar um rétt kvenna til að ráða yfir líkama sínum, fegurðarsamkeppnir, örþreyttar húsmæður, hvernig stjórnmálakarlar hafa kyngert konur og uppreisn kvenna gegn slíku tali. Hún nær til áhorfenda, er skemmtileg, gagnrýnin og beitt, enda byggir hún á áratuga rannsóknum á kvenímyndum og baráttunni um kvenlíkamann.

Það er vinkona okkar og samstarfskona Þorgerður H. Þorvaldsdóttir sem þarna hefur orðið á Hugvísindaþingi 2019, í málstofu um rannsóknarverkefnið okkar „Í kjölfar kosningaréttar“. Krabbameinið sem hún greindist með árið 2017 var farið að setja mark sitt á hana – meðferðir lýjandi og kannski ekki hægt að leggja á sig jafn mikla vinnu og hún vildi. En það var ekki hennar stíll að barma sér, aldrei. Og hún vildi ekki láta veikindin skilgreina sig. „Ég nenni ekki að verða sjúklingur alveg strax,“ sagði hún fljótlega eftir að hún greindist.

Þorgerður var á margan hátt einstök kona, réttsýn og beinskeytt, hávaxin og svipmikil. Fræðimennska hennar var rammpólitísk, hjarta hennar sló með þeim sem minna máttu sín. Fólk hlustaði á það sem hún sagði og verk hennar höfðu áhrif. Í væntanlegri bók okkar þriggja og Kristínar Svövu Tómasdóttur, Konur sem kjósa, segir hún frá „venjulegum“ konum, fátækum konum, sem brutu þó sumar hverjar blað í sögu kvenna.

Við kynntumst Þorgerði á mismunandi tíma, Ragnheiður í BA-námi í sagnfræði en Erla Hulda nokkrum árum síðar, um það bil sem Þorgerður lauk MA-prófi í kynjafræði í New York með ritgerð um hina „stórfenglegu“ fegurð íslenskra kvenna og hið karllega gláp. Síðustu ár unnum við náið saman að bókarskrifum og rannsóknum þar sem Þorgerður naut sín vel og lagði jafnvel á sig löng ferðalög á ráðstefnur. Reyndar maldaði hún aðeins í móinn þegar stefnan var tekin á Vancouver, fannst réttilega ýmislegt bogið við að fljúga yfir hálfan hnöttinn til að flytja átján mínútna langt erindi. En hún kom samt og minningin um þá ferð og samstarfið allt er dýrmæt og góð.

Það er sárt að þurfa að horfa á eftir Þorgerði, en það sem hún gerði og sú sem hún var lifir í huga okkar og verkum hennar.

Erla Hulda Halldórsdóttir og Ragnheiður

Kristjánsdóttir.

Kveðja frá námsbraut í kynjafræði við Háskóla Íslands

„Mig langar að bjóða ykkur með í dálítið ferðalag. Það kostar ekki mikið, enda er aðalfarkosturinn fjörugt ímyndunarafl og svo auðvitað ritaðar heimildir sem eiga að vísa okkur leið gegnum frumskóg fortíðarinnar.“ Þannig hefst greinin „Það mælti mín móðir: Um hetju- og hefndaruppeldi í Íslendingasögum“ sem Þorgerður Þorvaldsdóttir skrifaði í tímaritið Sagnir 1992, þá 24 ára gömul. Þetta var líka upphafið að fræðilegu ferðalagi hennar sjálfrar, sá tónn sleginn sem síðar varð hennar aðalsmerki, fjörugt ímyndunarafl með sterka kjölfestu í heimildum og vel úthugsaðri aðferðafræði. Stuttu síðar, 1996, er grein eftir hana í tímaritinu Sögu byggð á BA-ritgerð hennar um hlut kynjanna í kennslubókum í sögu. Strax þarna birtist sá grunnskilningur hennar að kvenna- og kynjasaga geti aldrei beitt spurningum og tólum hefðbundinnar karlasögu gagnrýnislaust heldur þurfi kyn sem útgangspunkt til að skilja áhrif, völd og valdaleysi í samfélaginu. Eftir grunnnám hélt Þorgerður til New York í framhaldsnám í kynjafræði. Með meistararitgerð sinni um hina „ómótstæðilegu fegurð íslenskra kvenna“ og hvernig hún er samofin hugmyndum um hreinleika og þjóðerni stimplaði hún sig rækilega inn í hið ört vaxandi samfélag kynjafræðinnar á Íslandi og hugmyndir hennar urðu mörgum innblástur og uppspretta nýrra rannsókna. Árið 2002 gerði Þorgerður úttekt á dómnefndarálitum í Háskóla Íslands fyrir tilstilli jafnréttisnefndar skólans með dyggum stuðningi hins framsækna rektors, Páls Skúlasonar. Þorgerður sýndi fram á hversu marglaga og flókin fyrirbæri kyn og kyngervi eru, og hvernig hægt er að jaðarsetja fólk með því að kvengera það eða upphefja með karlgervingu. Könnunin vakti athygli langt út fyrir landsteinana og var Þorgerði boðið að skrifa um hana í rit Evrópusambandsins um jafnrétti í rannsóknum og nýsköpun. Nátengt þessu eru rannsóknir hennar í hinsegin fræðum en árið 2007 tók hún þátt í norrænu verkefni þar sem hún skrifaði um sögulega þróun íslenskrar löggjafar í málefnum hinsegin fólks.

Hápunktur á fræðilegum ferli Þorgerðar er doktorsritgerð hennar í kynjafræði um útvíkkun jafnréttishugtaksins sem hún varði árið 2012. Þar kryfur hún af yfirgripsmikilli þekkingu fræðilegar forsendur jafnréttishugtaksins og hvernig kynjamisrétti fléttast ávallt saman við annars konar mismun og margbreytileika svo sem stétt, uppruna, litarhátt, kynhneigð og fötlun. Ritgerðin er tímamótaverk. Og enn eru ótalin mörg síðari ritverk og rannsóknir sem hún tók þátt í; um ímyndir Norðursins, um sögu háriðna á Íslandi, og um konur sem pólitíska gerendur frá upphafi kosningaréttar.

Þorgerður var einstaklega hæfileikarík fræðikona. Hún var með afbrigðum skörp, beitt og einbeitt. Hún var frumleg, gagnrýnin og hreinskilin og hikaði ekki við að segja það sem henni bjó í brjósti. Með ótímabæru fráfalli hennar hefur íslensk kynja- og sagnfræði misst einn af sínum öflugustu fulltrúum. Fyrir hönd námsbrautar í kynjafræði þakka ég henni samfylgdina og votta aðstandendum hennar innilega samúð.

Þorgerður J. Einarsdóttir.

Dr. Þorgerður Þorvaldsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni.

Það er Þorgerður okkar.

Maður segir stundum að eitthvað hafi alltaf verið til. Þannig er það með Þorgerði, hún hefur alltaf verið Akademón, því hún kom til liðs við RA á fyrstu árum hennar. Á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru hafa Akademónar stundað umfangsmiklar rannsóknir, gefið út fjölda fræðirita og unnið til ýmissa verðlauna og styrkja fyrir rannsóknir sínar.

Þar var Þorgerður enginn eftirbátur og það hefur verið styrkur RA að hafa fólk eins og hana innan sinna vébanda.

Hvernig lýsir maður persónu?

Þorgerður var hugsjónakona, vinnusöm og samviskusöm. Hún lét aldrei neitt frá sér fara öðruvísi en lúslesið og margyfirfarið; hún var forkur dugleg enda skilur hún eftir sig ævistarf sem margur, áratugum eldri en henni auðnaðist að verða, mætti vera stoltur af. Á tímabilum fannst manni hún búa við skrifborðið sitt því hún var þar öllum stundum, hæglát, róleg og sívinnandi. En auðvitað fór hún líka heim til sinna uppáhaldsmanna, þeirra Ágústar og Ingimundar, og lengst af alltaf á reiðhjóli. Eitt sinn kom hún skælbrosandi út í vinnu og hafði þá unnið væna upphæð í happdrætti og ætlaði nú að fá sér vetrardekk undir hjólið. Eftir það hjólaði hún í hvernig veðrum og færð sem var, rjóð í kinnum og dálítið Húnavatnssýsluleg því innan fræðikonunnar bjó líka ástríðufull sveitakona; Þorgerður elskaði sveitina sína, þjóðlegan íslenskan mat og sauðfé. Hún birti varla svo mynd á facebook að þar væri ekki að minnsta kosti ein kind. Á hverju vori fór hún norður í sauðburð og gúmmístígvél og oftar ef hún gat.

Í Þorgerði var engin tilgerð en hún puntaði sig þegar tilefni gafst. Þegar RA ákvað í fyrsta sinn að halda árshátíð settu sumir í brýnnar yfir hugmyndinni um spariföt; vildu bara mæta á molskinnsbuxunum. En Þorgerður tók hugmyndinni fagnandi og mætti sparibúin með sínum sparibúna manni og tjúttaði fram á nótt. Þetta uppátæki skemmtinefndarinnar birtist svo í myndaseríu af prúðbúnum Akademónum í Séð og heyrt. Að þessu hlógum við síðar bæði oft og vel. Og Þorgerður leyndi á sér, því þegar haldin var spurningakeppni um fótbolta- og hollívúddstjörnur sigraði hún með yfirburðum. Við enn annað tilefni vann hún til verðlauna fyrir að vera í flottustu skónum og tók pósur í stóra salnum í JL-húsinu.

Það var gott að líta inn á skrifstofu til Þorgerðar, skiptast á nokkrum orðum og finna þetta öryggi og rósemd sem fylgdi persónu hennar. Þorgerður tranaði sér ekki fram og það leið nokkur tími þar til ég áttaði mig á því hver vigt og þungi fylgdi veru hennar í fræðimannahóp RA. Hún hafði ígrundaðar skoðanir á fjölmörgum málefnum en var ekki feimin við að viðurkenna að hún vissi ekki eitthvað.

Jafnrétti í víðum skilningi var fræðasvið Þorgerðar. Fyrir jafnrétti brann með henni heitur hugsjónaeldur; þar sameinaði hún áhugasvið og fræði og lagði með rannsóknum sínum og verkum afgerandi lóð á vogarskálar þeirrar endalausu baráttu.

Eftir að hún veiktist höfum við því miður séð æ minna af Þorgerði við skrifborðið sitt en alltaf var hún komin ef hún mögulega hafði heilsu til. Brosmild, jákvæð og bjartsýn; hafnaði allri vorkunn en kunni að taka samúð og stuðningi. Þegar svo var komið að hún hafði ekki lengur fótaferð sat hún uppi í rúminu og vann að lokafrágangi greina og verkefna.

Þannig var dr. Þorgerður, brennandi í andanum þótt mátturinn færi þverrandi.

Fræðasamfélag RA vottar öllum aðstandendum innilega samúð við ótímabært fráfall merkrar fræðikonu og trausts vinar.

Ingunn Ásdísardóttir, formaður ReykjavíkurAkademíunnar.

Fráfall Þorgerðar Þorvaldsdóttur á svo ungum aldri er hörmulegur missir fyrir íslenskt samfélag. Hún var rannsakandi sagnfræðingur af bestu gerð, huguð og vandvirk með heimildir. Samferð okkar hófst fyrir 30 árum í Háskóla Íslands, síðar í ReykjavíkurAkademíunni og inni á milli hér og þar í margvíslegu pólitísku. En víst er að afdrifaríkast fyrir okkur báðar var þegar bandarískur Fulbright-styrkþegi kom hingað til lands 1996-7 til að kenna við HÍ feminískar lagakenningar á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum, sem þá var ung stofnun. Þá var hóað í laganemann mig og ég auglýsti námskeiðið í lagadeild, hnippti í ýmsar í öðrum deildum og auðvitað í Þorgerði. Kennarinn hét Claire Smearman og hún lét okkur lesa bók Díönu Russell, Against Pornography – the Evidence of Harm og Next Time She´ll be Dead, bók um heimilisofbeldi á konum eftir Ann Jones, auk risakennslubókar um kenningar og dóma í bandarískum rétti. Þetta námskeið gjörbreytti vitund og viðhorfum okkar allra. Ég vona að ég halli ekki á neina þegar ég fullyrði að engin hafi nýtt þetta til meira gagns fyrir íslenskt þjóðfélag en Þorgerður. Ég hef dáðst að dugnaði Þorgerðar, afköstum og afurðum alla tíð síðan. Hún helgaði rannsóknastörf sín sviði þar sem mikið var eftir að vinna og braut nýrri hugsun leiðir sem ég efast um að aðrir hefðu náð. Dæmigert er að þegar Þorgerður kynjagreindi orðfæri í dómum og álitum um framgang fræðafólks í Háskóla Íslands var útkoman svo sláandi að ekki var hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að kerfið var skakkt. Þannig hugsaði Þorgerður og þannig starfaði hún. Þetta var gríðarlega sterkt og varð góðum málstað að gagni. Árið 2000 kom Díana Russell til Íslands og Þorgerður skrifaði frábært viðtal við hana sem birtist í Veru. Ég mun sakna Þorgerðar mjög þegar hennar mikilvægu rödd vantar sem verður oft og hugsa til hennar hvenær sem ég veit að góðrar rannsóknar er þörf. Og ég mun sakna yndislegrar manneskju sem sópaði að og mér þótti mjög vænt um. Þorgerður átti svo djúpar rætur og sterkan stofn heiman frá. Heil og traust, alltaf samkvæm sjálfri sér, traustasti félaginn í öllu sem máli skipti. Ég votta öllum ástvinum hennar mína dýpstu samúð og bið þau að hugga sig við að ljóma stafar af skrifum hennar og verkum sem lifa mun.

Kristrún Heimisdóttir

Þorgerði Hrönn hef ég þekkt frá því hún var lítil stúlka að vappa á lóðinni við Hólabrautina í Hafnarfirði rétt rúmlega árs gömul þar sem fjölskyldur okkar bjuggu í sama húsi og hófust þar samskipti sem hafa staðið yfir í um 50 ár.

Fljótlega fór ég að taka að mér að gæta hennar eða meira að leika við hana en á milli okkar eru átta ár. Svæðið sem við höfðum til að leika saman á var mjög skemmtilegt, miklir móar og góðir drullupollar sem voru mikið notaðir.

Fljótlega stækkaði fjölskyldan og Rúna og Valdi eignuðust Ásgerði Unni sem er rúmu ári yngri en Þorgerður og að sjálfsögðu fékk hún að leika með okkur þegar hún hafði burði til.

Ég hélt svo áfram að passa systurnar þegar að þær fluttu sig um set í Hafnarfirði og hundurinn Snati kom til sögunnar og að auki var heimalningur í bílskúrnum.

Móðurafi Þorgerðar, Bjarni, var með kindur í Hafnarfirði þannig að þá má segja að hún hafi alist upp við kindur frá blautu barnsbeini og kemur því ekki á óvart sú mikla ástúð sem hún hafði fyrir dýrum og náttúrunni. Rúna og Valdi taka svo þá ákvörðun að kaupa Guðrúnarstaði í Vatnsdal og að sjálfsögðu fylgdi ég barnapían með þeim í sveitina til að gæta systra og fljótlega bætist ein stúlka við hópinn, Valgerður Erna og systur orðnar þrjár.

Eins og tíðkast í sveitum var margt aðhafst og við Þorgerður ásamt Ásgerði áttum stórt bú þar sem horn og kjálkar voru dýr og við bökuðum margar drullukökur sem voru fagurlega skreyttar með blómum og fleiru, fyrir utan það að sinna öllum dýrunum.

Minningin af dvölinni á Guðrúnarstöðum er ljúf og góð en þar dvaldi ég í sex sumur, myndirnar sem ég á af þeim systrum með dýrin rifja upp skemmtilegar stundir. Þorgerður var mikill búkona og elskaði að vera nálægt dýrunum sínum sem eltu hana um allt.

Svo líða árin og ég fylgdist með Þorgerði þegar hún fór til náms bæði í Menntaskólann á Akureyri og Háskóla Íslands og verður doktor í kynjafræði. Hún hefur skrifað margar fræðigreinar og skrifaði bókina „Krullað og klippt“ ásamt Báru Baldursdóttur. Þorgerður barðist fyrir jafnrétti til handa ýmsum minnihlutahópum í samfélaginu.

Þegar ég heimsótti hana á Landspítalann í lok júní var hún að leggja lokahöndina á bók sem hún er að gefa út ásamt fleirum um 100 ára sögu kosningaréttar kvenna á Íslandi, en fyrirhugað er að sú bók komi út á kvennafrídaginn 24. október í ár. Þessi heimsókn mín til hennar var virkilega ánægjuleg og við ræddum lífið í Hafnarfirði, á Guðrúnarstöðum, forsetakosningar og ég rifjaði upp með henni að þegar ég kom í sveitina á vorin með rútunni, keypti ég alltaf kosningahandbókina fyrir pabba hennar.

Þorgerður var mjög náin pabba sínum og þau áttu góðar stundir saman við að sinna bústörfum og ræða stjórnmál. Valdi lést fyrir 10 árum og var það Þorgerði og fjölskyldunni mikill missir.

Samband mitt við heimilisfólkið á Guðrúnarstöðum hefur alltaf verið mjög náið og gott og Rúna og Valdi eru amma og afi í sveitinni hjá börnum okkar Ingólfs og einnig barnabörnum.

Þorgerður glímdi í tæp þrjú ár af miklu æðruleysi við krabbamein sem að lokum hafði sigur. Hún var öflug og sterk kona sem ég hef alltaf litið upp til, það er með mikilli virðingu, söknuði og þakklæti sem ég og fjölskylda mín kveðjum Þorgerði Hrönn um leið og við vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Guðrún Kristinsdóttir.